fimmtudagur, október 16, 2014

Hvar er KÍ?

Við vitum að ríkisvaldið vill skera niður ódýra menntun fyrir almenning og hefur lengi viljað. Þrátt fyrir yfirlýsingar um annað þá snýst þetta um meintan sparnað. Það sést best á nýjasta fjárlagafrumvarpinu þar sem fólki eldra en 25 ára er meinaður aðgangur í framhaldsskóla landsins. Því er beint að símenntunarmiðstöðvum sem bjóða ekki upp á stúdentspróf og námið kostar meira. Það er hægt að klæða slíkar aðgerðir í ýmsa búninga en hin strípaða staðreynd er að taki þetta gildi er verið að afnema jafnrétti til náms.
Þá sækir menntamálaráðherra það afar stíft að framhaldsskólar breyti námsbrautum sínum og útskrifi stúdenta á þremur árum.
Félag kennara við Menntaskólann í Reykjavík hefur sent frá sér tilkynningu varðandi þessar fyrirætlanir og bendir á að:
... nú þegar eigi íslenskir nýstúdentar í erfiðleikum með að fá nám sitt metið sem fullnægjandi undanfara háskólanáms erlendis og mótmælir því að nú eigi að gera samanburð við það sem gengur og gerist á Vesturlöndum enn erfiðari.
Það er því ógerningur að átta sig á hvað menntamálaráðherra gengur til annað en meintur sparnaður. Ég tala um meintan sparnað því niðurskurður menntunar mun verða okkur kostnaðarsamur þegar til lengdar lætur.

Dýrkeyptur samningur?
Í vor voru framhaldsskólakennarar í 3 vikna verkfalli sem landaði okkur nokkuð góðum samningi. Helsta breytingin var breytt vinnumat. Á kynningarfundi var fulltrúi samningarnefndarinnar spurður að því hreint út hvort samningurinn byggðist á því að framhaldsskólinn yrðu styttur í þrjú ár. Svarið var skýrt og skorinort: Nei.
Ég ætla ekki að fullyrða fyrir aðra en ég samþykkti samninginn m.a. í trausti þessa.

Í haust stígur menntamálaráðherra á svið og hefur upp sinn styttingar söng.

  „Ég hef sagt það og það er búið að taka ákvörðun um það að framhaldsskólinn fari í þriggja ára kerfi,“ segir Illugi.

Eini vafinn er hvenær.
Fulltrúi samningarnefndarinnar sló á áhyggjur okkar er hann sagði: „Til að stytta framhaldsskólann þarf að breyta lögum og að taka upp samninginn. Lesið bara samninginn“
Einhverra hluta vegna virðist menntamálaráðherra ekki vita þessi augljósu sannindi:

Talsmenn okkar kennara vísa í nýgerðan kjarasamning því til áréttingar að KÍ hafi hvorki samið um né samþykkt styttinguna. Þegar ég les samninginn þá sé ég eftirfarandi:


Hér er talað um meginbreytingar og virðist fulltrúi samningarnefndar líta svo á að það sé meginbreyting á skólahaldi að stytta það um 25%. Jú, það mætti leiða að því líkum ef ekki væri nú þegar inni í lögunum möguleiki til svigrúms. Framhaldsskólanemendur geta lokið námi sínu á þremur árum og velja margir að gera það. Þá eru líka skólar sem bjóða sérstaklega upp á þriggja ára nám. Um meginbreytingu er því varla að ræða.

 En það er rétt að halda til haga hvað segir í nefndaráliti meirihlutans sem fylgdi lögunum:
Áréttar meiri hlutinn mikilvægi þess að nám til stúdentsprófs sé ekki skert með frumvarpi þessu. Ekki er kveðið á um fjölda eininga til stúdentsprófs í gildandi lögum og telur meiri hlutinn að ekki sé þörf á slíku í frumvarpi þessu. Stúdentsprófið hafi áfram þá stöðu að veita almennt aðgang að háskólanámi og sú breyting sem gerð er í frumvarpinu leiði ekki til þess að háskólar krefji nemendur um að sitja undirbúningsnám fyrir inngöngu í deildir skólanna.

Er KÍ búið að samþykkja?
Hins vegar stendur einnig í samningnum sem við samþykktum:




Virðist því á öllu að samninganefndin og við séum búin að gefa grænt ljós á styttinguna. Enda segir Elna Katrín Jónsdóttir í pistli á heimasíðu KÍ:
Með því er ekki sagt að áform um styttingu námstíma hafi ekki verið ljós þeim sem gerðu kjarasamning síðastliðið vor.
Pistilinn sem slíkan er ekki hægt að skilja öðruvísi en að KÍ sé búin að samþykkja þessa breytingu.

Við skulum átta okkur á áður en lengra er haldið að lengd náms í framhaldsskólum er gríðarlegt hagsmunamál fyrir okkur sem þar kenna. Verði þessi stytting að veruleika þá er alveg ljóst að u.þ.b. 10% kennara munu missa vinnuna. Hvort sem það verður í minnkuðu starfshlutfalli eða hreinum atvinnumissi.
Í mínum huga er hlutverk stéttarfélaga að tryggja hagsmuni heildarinnar og koma í veg fyrir mismunun. Stéttarfélög hafa alltaf verið fjármagnseigendum og launagreiðendum þyrnir í auga enda  er það tilgangur þeirra. Því miður hefur launagreiðendum tekist að reka fleyg í samstöðu launþega með gylliboðum sérsamninga. Stofnanasamningar eða e.k. sérsamningar munu aldrei hafa neitt annað í för með sér en lægri heildarlaun. Það ættu að vera öllum augljós sannindi að það sem gleður launagreiðandann kemur launþeganum ekki vel.
Stéttarfélag sem semur við launagreiðendur á þá leið að launþegar eigi sjálfir að semja við launagreiðendur, yppir bara öxlum þegar æðsti yfirmaður málaflokksins lætur gamminn geisa um grundvallar breytingar og hótar 10% skjólstæðinga stéttarfélagsins atvinnuminnkun eða atvinnuleysi og bendir fólki svo á að passa sig bara þegar samið er um vinnumat er ekki að standa sig.

Ásta Svavarsdóttir
Framhaldsskólakennari

miðvikudagur, október 15, 2014

Óhæfi pabbinn á Bergþórshvoli

Njála er stórfenglega saga. Ég er að kenna hana í annað skipti núna í vetur og hún dýpkar og víkkar eftir því sem ég les hana oftar.
Skarphéðinn Njálsson hefur alltaf verið minn maður. Vegna hreinnar tilfinningasemi þar sem hann var uppáhalds hjá afa. Afi og amma voru með þessa mynd uppi á vegg hjá sér eins langt og ég man.

Flottastur.
Eini bletturinn sem fallið hefur á Skarphéðinn er að hann skyldi trúa Merði Valgarðssyni og drepa Höskuld fóstbróður sinn.
Mér til halds og trausts við kennsluna hef ég haft Lykilinn að Njálu eftir Kristján Jóhann Jónsson og hún hefur aldeilis komið með nýja vinkla.
Í Noregi ríkti óðalsréttur, þ.e. elsti sonur erfði bú og jörð en yngri synirnir urðu að láta sig frá að hverfa. Þess vegna lögðu þeir undir sig ný lönd m.a. Ísland.
Meirihluti landnámsmanna kom frá Noregi svo það er erfitt að ímynda sér að einhver önnur hefð hafi skapast hér á landi en að elsti sonurinn ætti að taka við.
Ég þori nú varla að nefna orðið feðraveldi en það er nú samt valdakerfið sem ríkir í veröld Njálu. Ætthöfðinginn er yfirmaður ættarinnar og tekur helstu ákvarðanir. Það er t.d. Flosi sem ákvarðar gjaforð Hildigunnar bróðurdóttur sinnar.
Synir Njáls eiga eigin bú en eru jafnan hjá Njáli og hlýða hans ákvörðunum hans. Njáll semur stundum þvert gegn vilja sona sinna eins og t.d. þegar hann sættist vegna vígs Þórðar leysingjasonar fóstra þeirra bræðra.
Skarphéðinn er elsti sonur Njáls og mætti því ætla að Njáll hefði á honum mætur og reyndi að undirbúa hann sem tilvonanda höfðingja ættarinnar. Fer þó lítið fyrir því.
Njáll er hins vegar góður vinur bóndans á næsta bæ, hans Gunnars Hámundasonar, og ræður honum heilt og hvetur í hvívetna. Hetjan og ráðgjafinn eru vel þekkt minni í bókmenntum. Eru flestir sammála því að Njáll og Gunnar bæti hvorn annan upp.  Gunnar er óneitanlega hinn fullkomni garpur, hlédrægur, fimur, sterkur og fallegur. Mesta hetja þess tíma. Það er svo sem ekkert illskiljanlegt að Njáll vilji binda trúss sitt við svona garp. Hins vegar er hann með heima sér næst mesta garpinn, sinn eigin son.
Þegar hann leitar eftir kvonfangi fyrir Skarphéðinn leitar hann ekki langt yfir skammt
heldur velur dóttur nágrannans í Þórólfsfelli. Virðist gjaforðið til þess eins fallið að auka við land Bergþórshvols. Grímur fær ríka ekkju en Helgi, yngsti sonurinn fær besta gjaforðið, Þórhöllu Ásgrímsdóttur Elliða-Grímssonar sem var mikill höfðingi. Því virðist, eins og Kristján bendir á, að Njáll sé að undirbúa Helga fyrir höfðingjahlutverkið en ekki Skarphéðinn. Helgi er líka líkastur Njáli sem sýnir sig í forspárgáfu hans.
Njáll hvetur Gunnar til að fara utan sér til frama en dregur úr sonum sínum. Grímur og Helgi fara nú samt en Njáll segir þeim strax að ekkert gott muni af því hljótast. Sem kemur auðvitað á daginn. Það virðist hins vegar aldrei koma til greina að Skarphéðinn fari utan. Hann situr heima.
Njáll veit þó fullvel að þegar kemur að mannvígum þá er Skarphéðinn rétti maðurinn í verkið. Það veit alla vega Hróðný móðir Höskuldar hálfbróður Njálssona þegar hún biður Skarphéðinn sérstaklega að loka augum látins sonar síns. Kristján bendir á í bók sinni að þetta er í eina skiptið sem Skarphéðinn er sérstaklega fenginn í eitthvert verk, yfirleitt er fram hjá honum gengið.
Það er því kannski ekki skrítið að Skarphéðinn falli fyrir smjaðri Marðar en Mörður er goði og plottari. Kannski sér Skarphéðinn fyrir sér að þarna sé hann, garpurinn, kominn með sinn ,,ráðgjafa“ eins og Gunnar átti í föður hans. Þá er kannski ekki heldur skrítið að Skarphéðinn vilji gjarna fara að brjótast undan valdi karls föður síns sem hefur nú eiginlega ekki sýnt honum neitt annað en lítilsvirðingu.
Þeir Njálssynir drepa síðan eins og áður sagði Höskuld Þráinsson fóstbróður sinn. Höskuldur ræfillinn hefur ekkert gert annað en að vera sonur Þráins og eiga hefndarskyldu fyrir hann. Og auðvitað að vera í sérstöku dálæti hjá Njáli. Njáll hefur gengið ákaflega langt í því að auka veg og virðingu Höskuldar. Hann gengur svo langt að gefa vond ráð til að deilur manna leysist ekki, maðurinn sem er þekktur fyrir ráðsnilld sína. Allt til þess að stofnaður verði fimmtardómur og að Höskuldur Þráinsson verði goði. Það mætti mikið vera ef Skarphéðinn væri ekki orðinn svolítið pirraður.
Þegar samið hefur verið um vígið á Alþingi og maður gengið undir manns hönd til að tryggja sættir og bjarga Skarphéðni og bræðrum hans, laumar ekki karlófétið slæðum og kvenstígvélum í peningahrúguna! Hvað gekk manninum til? Búið að kalla hann karl hinn skegglausa lon og don og kvengera hann út í eitt. Kvengerving og ásakanir um kynvillu hin grófasta móðgun samkvæmt Grágás. Ætli lögspekingurinn Njáll viti það ekki manna best.
Njáll virtist ganga mjög langt til að ná sáttum. En hann tilkynnti það nokkrum sinnum
formlega að hann hefði frekar viljað missa alla syni sína en Höskuld fósturson sinn. Skemmtilegt.
Þegar brennumenn mæta heim í hlað stilla þeir sér upp úti við því þar hafa þeir betri bardagastöðu. Njáll hins vegar ákveður að allir eigi að fara inn í hús þrátt fyrir ítrekaða fyrirboða um brennu. Synirnir hlýða, verða að hlýða ætthöfðingjanum. Hvers konar faðir tekur börnin sín með sér í dauðann?
Þeir Njálssynir fá aldrei að verða sjálfstæðir menn. Skarphéðinn fær aldrei að taka við sínu rétta hlutverki og sýna hvað í sér býr. Hann er vanmetinn allt til enda og þarf að deyja ásamt karlægum karlinum sem tekur allt með sér í dauðann, óðalið, synina og framtíðina.

mánudagur, október 13, 2014

Að afreka eitthvað í lífinu

Þessi brandari var á Fésbókinni í dag. Mér fannst hann óheyrilega fyndinn enda með snert af skepnuskap í sálarflækjunum.
Fékk mig samt til að hugsa. Ekki eitthvað nýtt og júník heldur svona viðvarandi hugsun sem skýtur annað slagið upp kollinum. Svona re-run thought.
Þannig er mál með vexti að ég eldist með hverjum degi sem líður, sem þýðir líka að styttist í annan endann. Stundum hættir hugsunin þarna og ég verð miður mín og þarf að fá mér súkkulaði en ekki alltaf. Stundum heldur hún áfram. En svo ég komi mér nú að þessu þá er ég komin að þeim tímapunkti í lífi mínu að ég hef verið lengur á jörðinni en J-oðin, Kurt og Amy. Ég hef verið lengur á yfirborði jarðar en Jesú, Byron lávarður, John Lennon og Elvis Presley. Og hvað hef ég afrekað í lífinu? Eiginlega bara ekki neitt. Núna myndu margir vilja staldra við og nefna börnin. Og vissulega eru þau afrek út af fyrir sig. Þau eru alveg tvímælalaust hamingja mín og tilgangur tilveru minnar en þið vitið... Það eru ofsalega mikið af fólki sem á börn svo það er kannski ekki beinlínis svona sérstaklega sérstakt. Ég er farin að hljóma alveg rosalega vanþakklát en you get the point. Janis Joplin átti t.d. engin börn en við vitum samt öll hver hún var. Anyways...
Það eru margir sem vilja reisa sér minnisvarða og sumum tekst það með listsköpun eða einhverjum, humm, afrekum...  Því miður vilja allir menntamálaráðherrar reisa sér minnisvarða með nýrri námsskrá eða grundvallarbreytingu á skólakerfinu en það er efni í annan pistil.
Hins vegar hef ég komist að þeirri niðurstöðu að það sé í rauninni til lítils að reisa mér e.k. minnisvarða með einhverju afreki svo eftir mér verði munað um alla eilífð. Ég verð nefnilega alveg jafn dauð eftir sem áður.
Sumir eru ógeðslega frægir svona rétt á meðan þeir tóra en svo falla þeir í gleymskunnar dá. Það hlýtur nú samt að vera betra en að verða fræg/ur eftir dauða sinn og hafa aldrei neina hugmynd. Ekki nema að það sé huggun harmi gegn á meðan maður treður hreinsunareldinn í helvíti.
Jæja, nú er ég að verða glúmí svo það er best að kanna súkkulaðibirgðarnar.



Þessi færsla var í boði ÍSL 303 í FSH sem ákvað að nenna ekki að leika Njálu lengur svo kennarinn græddi óvænt kvöldfrí.

Færsla Lögreglunnar á Norðurlandi eystra

Það mun mér hæfara fólk fjalla um þessa færslu Lögreglunnar á Norðurlandi eystra en það eru nokkrir hlutir í þessu sem mig sem almennur áhor...