Fyrir
nokkrum árum var tilkynnt að Alcoa hefði, allra náðsamlegast, valið Bakka við
Húsavík sem næsta álversstað. Það braust út taumlaus gleði. Það var líkt og
Húsavík hefði hreppt stóra vinninginn í Lottóinu. Fólk klæddi sig í álpappír og
fagnaði í beinni útsendingu.
Ég
ákvað umsvifalaust að berjast gegn þessu álveri. Ég gat m.a.s. haft hátt um
það, ég er nefnilega aðflutt. Aðrir fóru með andstöðu sína eins og mannsmorð.
Nokkru
seinna horfði ég á fréttir um nýjan Listaháskóla sem átti að troða inn í þrönga
götumynd. Snilldarhugmynd laust niður í höfuðið á mér. Listaháskóla á Bakka! Ég
bloggaði snilldina og fékk athugasemdir. Þetta var algjörlega ómögulegt.
Kennararnir eru allir í hlutastörfum, þeir geta ekki flutt út á land.
Merkilegt. Hér eru erlendir tónlistakennarar í flestum stöðum.
Dag
einn sit ég og smyr flatbrauð með öðrum kvenfélagskonum. Gaspra um hugmyndina
frábæru. Ein þeirra lítur upp, horfir í augun á mér og segir: ,,Við fáum hann
aldrei." Í tóninum, í augnaráðinu, skella á mér áratuga vonbrigði. Í eitt
skelfilegt andartak er ég álverssinni.
Ég
sit á spjalli við kunningja minn. Hann segir mér að það sé engin
mjólkurframleiðsla lengur í Norður-Þingeyjarsýslu. Það séu bara tvö bú eftir á
Tjörnesi. Mjólkurbíllinn fer þangað aðeins tvisvar í viku. ,,Hversu langt
heldurðu að sé til, að Mjólkursamsalan geri þeim tilboð um að hætta?" spyr
hann mig. Ég hef engin svör.
Ég
missi vinnuna og sit atvinnulaus í tvö og hálft ár.
Ég
fer að sumarlagi í vettvangsferð með sveitarstjórnarmönnum Þingeyjarsveitar að
skoða Þeistareyki og tilvonandi vinnusvæði. Það er fallegt þarna. Við hittum
ein hjón á ferðalagi.
Ég
samþykki orkuöflun á Þeistareykjum.
Alcoa
hættir við álver á Bakka. Það stóð heldur aldrei til, það var bara að tryggja
sér orkuna af Þeistareykjum.
Það
er byrjað að semja um minni fyrirtæki á Bakka. Minni orkuþörf. Sennilega þarf
ekki að hætta búskap í næsta nágrenni.
,,Fólk
vill deyja á þúfunni sinni," segir maðurinn minn.
Þeistareykir
eru komnir í tætlur. Heimamenn sem hafa smalað löndin árum saman eru með kökk í
hálsinum. Þeir vilja þetta samt.
Hér
viljum við búa. Hér viljum við deyja. Til þess verðum við að geta lifað hér.