Nýverið fórum við
yngri sonurinn til Reykjavíkur þar sem hann fór á námskeið. Ég er að undirbúa
hann fyrir forsetaframboð, ég ætla mér að verða skyld forseta! Námskeiðið var í
Ármúlanum þannig að við fengum að gista hjá ættingjum nálægt Laugardalnum.
Þegar allt þetta var skipulagt þá stóð ég í þeirri meiningu að bakverkurinn
yrði á undanhaldi á þessum tímapunkti og við mæðginin gætum bara gengið þennan
spöl. Svo fór nú ekki, bakverkurinn versnaði heldur og ég var nánast ógöngufær.
Þar sem við voru bíllaus í borginni þá voru góð ráð dýr. Ég ýki aðeins, við eigum góða að og okkur var
oft skutlað.
Samgöngur.
Engu að síður þá var
fólk í vinnu svo stundum þurftum við að redda okkur sjálf. Nú finnst mér nákvæmlega
ekkert að því að nota strætó svo ég kveikti á Klappinu og lagði af stað. Þegar
ég var í Reykjavík þá kostaði eitt far fyrir fullorðinn 630 kr. og ungmenni 315
kr. Ég sé að það hefur hækkað síðan upp í 650 kr. fyrir fullorðna og 325 kr. fyrir
ungmenni, fannst mér nú nóg um samt. Miðinn gildir í rúman klukkutíma svo það
er hægt að komast ansi langt og skipta um vagn. Það breytir því ekki að mér
finnst verðið hátt. Auðvitað er hægt að kaupa mánaðarkort og árskort en það
þjónaði litlum tilgangi fyrir vikudvöl.
Þótt ég sé
þokkalega tæknilæs þá er ég samt komin á sextugsaldur og ég átti stundum erfitt
með að skilja (kl)appið. Við ætluðum í eitt skipti í Kringluna og skv. appinu áttum
við að skipta um vagn á Skeggjagötu. Ég veit alveg sirka hvar Skeggjagata er,
hins vegar kom aldrei upp á skjánum stoppistöðin Skeggjagata sem varð til þess
að við fórum fram hjá. Við enduðum á endastöðinni þar sem okkur var skipað út.
Þegar ég spurði vagnstjórann hvar við gætum náð í vagn í Kringluna þá hafði
hann enga hugmynd um það og nánast skipaði okkur út. Ég man þá tíð þegar
vagnstjórar í Reykjavík þekktu leiðarkerfið eins og handarbakið á sér. Því er
ekki að heilsa lengur greinilega. O tempora, o mores!
Við komumst nú samt
í Kringluna. Þegar við ætluðum heim þá vildi drengurinn endilega prófa Hopp
hjól svo mamman lét sig hafa það að fara á eitt slíkt. Þá komst ég að því að
lengri ferðir eru dýrari á hopp hjólum en strætó. Styttri ferðir eru ódýrari. Orðin
klár á apparatið þá notaði ég Hopp hjólin stundum eftir þetta. Eins og áður
sagði þá eru styttri ferðir ódýrari og þetta er nokkuð þægilegur ferðamáti. Fyrir
utan holurnar á gangstéttum og vegum. Það þarf að fara varlega.
Nú er það augljóst
að Reykjavík er að reyna að gera einkabílnum örðugt fyrir. Endalausar
þrengingar á götum og lítið um stæði. Það er allt í lagi ef það kemur
eitthvað í staðinn. Því er ekki að heilsa. Strætó gengur með löngu
millibili og er frekar dýr. Það þarf alltaf að ganga einhvern spotta. Mín
persónulega skoðun; fjölga ferðum og lækka verðið, jafnvel hafa ókeypis.
Unglingarnir.
Eitt kvöldið fórum
við drengurinn á leikvöllinn við Langholtsskóla. Það var fallegt veður og
talsvert mikið af unglingum og börnum. Núna er ég komin á þann aldur að ég er
orðin hrædd við unglinga svo ég var nú kannski ekkert yfir mig hrifin. En þarna
söfnuðust þeir saman, sumir á vespum og
sumir veipandi Einhverjir piltar fundu svo leikfangabyssu sem einhver hafði
skilið eftir/gleymt/týnt og dunduðu sér í talsverðan tíma til að slátra
leikfangabyssunni. Þetta var eitthvað rafmagnsvætt og þeir hættu ekki fyrr en
mekkanóið var komið í tætlur og og batteríin út og suður. Ég sagði auðvitað
ekki neitt enda hrædd við unglinga en ég hneykslaðist óskaplega í hljóði.
Ég laumaðist líka til að taka mynd. |
Seinna keyrðum við systir mín fram hjá Unglingavinnunni þar sem mökkur af unglingum í gulum vestum potuðu í beð. Seinna um kvöldið keyrðum við aftur fram hjá beðinu og ég gat ekki séð að arfinn hefði eitthvað minnkað. Systur minni finnst þetta sætt, alveg eins og Hildi Eir.
Ég
er ekki alveg þar…
Heimsending.
Þar sem ég er þarna
ein heima einn daginn þá ákveð ég að prófa heimsendingu úr apóteki. Ég er ánægð
með þetta; ég get sent inn lyfjaendurnýjunarbeiðni í Heilsuveru, svo get ég
farið í Lyfjuappið og valið það sem mig vantar. Þegar ég er heima á Húsavík þá
get ég sótt það í apótekið sjálft en þarna í Reykjavíkurhreppi er hægt að fá
sent heim líka! Þvílíku dásemdar þægindin. Reyndar tímasetti ég þetta ekki rétt
og missti því af sendlinum en samt, þetta er hægt😊
Bíó.
Eitt kvöldið ákváðum við forsetaefnið að skella okkur í bíó og sjá Inside Out 2. Höfum það í huga að þetta er teiknimynd en vissulega fórum við að kvöldi til og á sýningu með ensku tali. Nú það er við manninn mælt að þarna mætir slæðingur af unglingum. Um miðja mynd tekur stúlkan sem situr skáhalt fyrir framan mig upp símann sinn! Hann lýsist auðvitað upp og truflar mig í bíó, ég borgaði mig inn! Og hvað er stúlkan að skoða? Neyðarskilaboð frá móður sinni? Nei. Hún er að skoða myndir af annarri stúlku. Og af því að síminn blastaði þarna upp nánast fyrir framan mig þá sá ég að þetta var svona upptillimynd með duckface svipnum. Ókey, ég get sagt ýmislegt um stöðu ungra stúlkna í heiminum, hún er ekki góð, og þær ómanneskjulegu kröfur sem til þeirra eru gerðar en, og þetta er mjög meiningarfullt en, það má alveg bíða með að skoða og læka þessar myndir sem svarar til einnar bíómyndar.
Það er erfitt að vera unglingur, ég veit það.