Það er undarlegt með okkur. Við eyðum svo miklum tíma í að bíða. Bíða eftir öðrum tíma, þrá annan tíma. Stöndum á stoppistöðinni og bíðum eftir því að lífið taki okkur upp í. Viljum ekki vera, viljum fara. Og þegar við erum farin þá söknum við. Stundum nægja nokkrir tónar til að setja söknuðinn af stað.
Það var ’81 eða ’82 að félagsheimilið Læðupúki sléttunnar var stofnað. Við krakkarnir í stigaganginum fengum að yfirtaka hitakompuna í kjallaranum. Þarna átti að fara fram margs konar og mikils háttar starfsemi. Úr henni varð lítið. Við vildum vera fullorðin en vorum það ekki. Það var ekkert flóknara en það. Hins vegar var mikið spjallað og hlustað á plötur. Einn okkar, nafngjafinn, kom með gamla ferðaplötuspilara mömmu sinnar. Bubbi var í Egó, Rokk í Reykjavík í algleymi og við hlustuðum á Bítlana.
It’s been a hard day’s night.
Hann vildi vera hippi því að pabbi hans og mamma höfðu verið hippar. Eftir á að hyggja fær það varla staðist. Þau voru vart af barnsaldri þegar hann fæddist svo þau hafa rétt misst af hippabylgjunni. Þau gáfu honum því bara sömu þrána. Hann vildi vera það sama og þau vildu vera en ekkert þeirra var.
Hann var sex ára gamall þegar mamma hans pakkaði saman, kvaddi og fór. Hann var skilinn eftir hjá afa og ömmu. Hann talaði um þetta einu sinni. Eftir fyrstu meðferðina sína 15 árum seinna. Hann sagði mér líka frá því þegar hann fór á skrifstofu pabba síns og var ekki hleypt inn. Tíminn hjá pabba hans kostaði tvö þúsund krónur. Ég hlustaði ekki. Fannst þetta vera væl.
Don't want to cry when there's people there
I get shy when they start to stareVinur minn, fyrirgefðu.
Ég man ekki hvernig við urðum vinir, við vorum það bara alltaf. Fyrst sátum við í stigaganginum fullorðna fólkinu til mæðu. Með tímanum færðum við okkur yfir í eldhúsið hjá mér, drukkum gallon af kaffi og reyktum upp heilu tóbaksekrurnar. Seinna söfnuðust upp rauðvínsflöskur fyrir framan kjallaraherbergið.
Drykkjufélagi minn.
Þetta voru góðir tímar. Við vissum allt, kunnum allt, gátum allt. Okkur voru allir vegir færir og við hefðum getað bjargað heiminum. Nokkrum sinnum. Auðveldlega.
You know I feel alright.
Það var samt alltaf skuggi sem læddist um í sál hans. Við fórum út að borða þegar við vorum um tólf ára gömul. Þjónustufólkinu fannst við greinilega lítið, sætt par. Samt vorum við aldrei par. En borðfélagi minn vildi fá vín með matnum. Ég sagði nei en hann spurði samt. Skömmustutilfinningin er farin núna en hún sat lengi.
Víman var spennandi. Vinur minn hljóp með refnum á Melrakkasléttu og gaggaði á tunglið.
Það er marghringt á dyrabjölluna um hánótt. Það er hringt á allar dyrabjöllur hússins, bankað og barið. Fólk vaknar og það er umgangur. Ég veit að þetta er hann. Ég svara ekki.
Stundum reyndi hann að snúa aftur en ég held hann hafi aldrei viljað það í raun. Seinna var það ekki hægt.
Það situr ljóshærður maður í stofunni minni og drekkur kaffi. Ég veit ekki hver hann er. Ég skil ekki um hvað hann er að tala. Hann líkist vini mínum en þetta er ekki hann.
Æskuvinur minn, ég sakna þín.
Any time at all, any time at all, any time at all , all
You've gotta do is call and i'll be there.Það hefur verið brotið og bramlað hér og þar. Það hefur verið hótað og það hefur verið ógnað. Það hafa verið pústrar og eignaskemmdir. Ég ætlaði aldrei að hafna þér en nú sit ég á lögreglustöðinni og gef skýrslu.
Ég líka, bróðir minn.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Færsla Lögreglunnar á Norðurlandi eystra
Það mun mér hæfara fólk fjalla um þessa færslu Lögreglunnar á Norðurlandi eystra en það eru nokkrir hlutir í þessu sem mig sem almennur áhor...
-
Ég birti hér nokkrar færslur af Facebook, lítillega uppfærðar. I. Framboðið sjálft. Af því að fólk hefur verið að lýsa undrun sinni á þeir...
-
Fyrir nokkrum árum síðan setti ég fyrirspurn inn á Turn-it-in grúppu á Facebook. Turn-it-in er forrit sem við kennarar notum til að sjá hv...
-
Sl. föstudag var ung kona á bar. Sennilega drakk hún of mikið og drapst inni á einu klósettanna. Þegar dyraverðir ætluðu að loka staðnum s...
Engin ummæli:
Skrifa ummæli