Úr borg í sveit.

Ég er fædd og uppalin í Reykjvík. Og það sem meira er, ég er þriðju kynslóðar Reykvíkingur. Ég á enga sveit. Ég get ekki farið á ákveðinn stað og sagt: ,,Hér er uppruni minn.”
Hvort sem það er vegna þessa, sagna Laxness, söngva Bubba eða bara vegna taugatrekkjandi umferðar Reykjavíkur þá hefur lengi verið í mér löngun til að flytja út á land. Haustið 2005 lét ég verða af því. Ég flutti þvert yfir landið í Aðaldal í Suður- Þingeyjarsýslu. Aðaldalur er landbúnaðarhérað sem sækir flesta þjónustu til Húsavíkur og stærri aðgerðir til Akureyrar.
Ég get í sjálfu sér ekki sagt að það sé einhver stórkostlegur munur. Að vísu heita áttirnar hér suður-norður-austur og vestur en heita í Reykjavík hægri-vinstri-fram og til baka. Ég er enn þá rugluð. Það eina sem ég veit er að ef ég stend við skólann þá eru Ýdalir í austur. Ýdalir eru bara ekki alltaf í nágrenninu. Það er náttúrulega ekki hægt að ,,skreppa” út í búð ef eitthvað gleymist því verslunarferð er 40 mínútna akstur. Ég er núna stoltur frystikistueigandi. Það er ekki heldur hægt að droppa inn með bílinn í smurningu. Í fyrsta skiptið lenti ég á kaffitíma. Það var eins og ég hefði drepið mann. Einhvern tíma slysaðist ég til að segja að ég hefði klappað kindunum í fjósinu, ég geri þau mistök ekki aftur.
Veðurfar er líka talsvert öðruvísi. Ég sakna haustanna í Reykjavík þegar mild angurværðin svífur um í loftinu. Hér kemur bara vetur. Haustið sem ég flutti var kominn snjór í lok ágúst. Ég man ekki til að hann hafi tekið upp fyrr en um vorið. Fólkið hér talar samt um þetta sem snjólétta veturinn. Nagladekk eru nauðsyn.
Komin á staðinn ákvað ég að umturna mér með trukki og dýfu í alvöru dreifbýlistúttu og var fljótlega komin í kirkjukórinn , kvenfélagið, málfundafélag og stjórnmálaflokk. Mætti svo á allar skemmtanir sem í boði voru. Félagslífið hefur verið mun öflugra en það var í stórborginni. Er þá ónefndur bóndinn....
Þegar ég hóf störf í grunnskólanum var ein samstarfskona mín komin langt á leið. Svo einn daginn barst skólastjórnanda eftirfarandi SMS: ,,Kemst ekki í vinnuna á morgun. Eignaðist barn í hádeginu.” Þetta vakti að vonum mikla kátínu. Á aðventu söng ég í kór og á eftir var kirkjukaffi. Ég hnoðaði saman súkkulaðiklessu og var ánægð með sjálfa mig alveg þar til ég setti hana á borðið á hjá öllum hnallþórunum. Konurnar í sveitinni geysast um á dráttarvélum, ala upp börn, vinna fulla vinnu, sinna húsverkum, fara í fjós, mæta á kóræfingu kvöld eftir kvöld og einhvers staðar á leiðinni vippa þær fram 17 sortum. Váá...
Um jólin fór ég til Reykjavíkur og sat í brúðkaupi þar sem ég gaspraði um uppgötvun mína í sveitinni um ágæti íslenskra kvenna. Móðursystir mín horfði á mig og spurði kurteislega: ,,Þurftirðu að fara út á land til uppgötva það?” Eitthvað hummaði ég og ha-aði og sagði svo neinei, auðvitað ekki. En ég þurfti að fara út á land til að uppgötva það. Ég þurfti að fá fjarlægð til að sjá það sem blasti við. Allar þessar konur, ömmur okkar, mæður og systur, vinnuharkan, dugnaðurinn, æðruleysið. Og enginn sér það. Ekki einu sinni við sjálfar.
Vinna kvenna hefur alltaf verið einskis metin, framlagið ómerkilegt. Maturinn á borðinu sem birtist af sjálfu sér, rykið sem gufar upp. Tauið sem hverfur skítugt af gólfinu og birtist svo hreint í skápunum. Eru þetta ekki galdrar? Nei, þetta eru ekki galdrar. Á bak við þessi verk er hörkudugleg kona sem segir ekki múkk. ,,Æ, ég sletti einhverju í form.”
Ég fór út á land í leit að uppruna. Og ég fann hann. Ég er meðlimur í þeim flottasta klúbbi sem til er. Ég er íslensk kona.

Skrifað fyrir og birt í Bergmáli.

Ummæli

  1. Góður pistill! Og mikið kannast ég við margt - til dæmis þetta með súkkulaðiklessuna og hnallþórurnar... :-)

    SvaraEyða

Skrifa ummæli

Vinsælar færslur af þessu bloggi

Krossinn sem ég ber

Vandamál og lausnir