Synjunin

Ég hef alltaf verið hlynnt 26. grein stjórnarskrárinnar. Mér finnst nauðsynlegt að til staðar sé ákveðinn öryggisventill ef svo bæri við að stjórnmálamenn færu offari. Ég fagnaði ákaft þegar forsetinn virkjaði í fyrsta skipti í sögu lýðveldisins 26. greinina og synjaði fjölmiðlalögunum svokölluðu staðfestingar. Af hverju fagnaði ég? Jú, ég stend vinstra megin við línuna frægu. Eins og málið var sett upp af fjölmiðlum og andstæðingum þáverandi ríkisstjórnar þá snerust lögin um persónulega vanþóknun Davíðs Oddssonar á Bónusfeðgum. Lögin snerust um eignahald á fjölmiðlum og krosseignatengsl. Forsetinn synjaði lögunum staðfestingar, ríkisstjórnin dró þau til baka og þau aldrei sett. 2008 varð efnahagshrun á Íslandi. Margt hefur verið tínt til um ástæður þess, m.a. að fjölmiðlar, flestir í eigu Bónusfeðga, sinntu ekki hlutverki sínu og það voru engin lög um krosseignatengsl. Úpps...
Núna situr vinstri stjórn í landinu og að sjálfsögðu styð ég þá ríkisstjórn. Þannig í raun er alveg sama hvað ég segi um sífellda synjun fostetans til að staðfesta lögin um Icesave, það verður alltaf metið út frá flokksskírteininu mínu. Það eru þó nokkrir hlutir sem ég tel vert að íhuga.

Öryggisventillinn: Nú hefur sami forsetinn notað þessa áður ónýttu grein þrisvar sinnum á síðustu 7 árum. Á fyrstu 60 árum lýðveldins var ákvæðið aldrei nýtt og aldrei af 4 forverum sitjandi forseta. Er ventillinn að virka eða er hann orðinn lekur?

Þingræðið: Í Alþingiskosningum vitum við að við erum að velja pólitíska fulltrúa. Þetta er fólkið sem fer með valdið í landinu. Ég kýs forseta eftir allt öðrum forsendum. Nú hefur stjórnskipan landsins verið breytt einhliða á þann veg að hér er forseta þingræði. Það hlýtur að hefta störf þingsins gríðarlega að það sé ekki nóg að ná meirihluta innan þess, það þarf líka að þóknast forsetanum.
Höfum í huga að þessi ríkisstjórn mun ekki sitja að eilífu. Einhvern tíma kemur ný ríkisstjórn. Er sú ríkisstjórn reiðubúin að hlýta þessum skilmálum? Gefum okkur að Bjarni Ben. verði forsætisráðherra og Davíð Oddsson forseti.


Lýðræðið: Nú hefur verið sýnt fram á mjög ákveðna vankanta á undirskriftasöfnuninni kjosum.is. Er hægt að knýja fram synjun á hvaða máli sem er? Er nóg að vera hávær? Er betra að hafa kerfisfræðing innanborðs? Dugar sem sagt að eiga peninga og hafa tengsl? Hverjir eru það? Það er ekki almenningur í landinu, svo mikið er víst. Hvar er þá lýðræðið?

Forsetaembættið: Þegar ég kýs forseta kýs ég ekki eftir pólitískum áherslum. Ég hef alltaf litið á forsetaembættið sem sameiningartákn þjóðarinnar og skrautfjöður. Það má vera að mér skjátlist en ég er þá ekki ein um þennan misskilning. Reyndar tel ég að þvílík eðlisbreyting hafi átt sér stað á forsetaembættinu að forsendur séu brostnar og eðlilegt að kosið verði sem fyrst eftir hinum nýju forsendum.

Ummæli

Vinsælar færslur af þessu bloggi

Krossinn sem ég ber

Vandamál og lausnir