Að klippa vængina af englunum

Það eru notaðar ýmsar aðferðir við uppeldi á börnum. Ein er að segja sögur og ævintýri sem fela í sér ákveðinn boðskap. Stundum eru ævintýrin mjög einföld og til þess ætluð að stöðva ákveðna hegðun.
Á mínu æskuheimili var sagt við okkur systurnar að ef við klipptum út í loftið með skærum þá værum við að klippa vængina af englunum. Ég man ekki nákvæmlega hvenær þetta var sagt við mig fyrst, ég man bara að ég var barn og mamma sagði þetta og við ræddum það eitthvað nánar mæðgurnar að það væru litlir englar allt í kringum okkur. Ég held ég fari rétt með að þetta komi frá ömmu minni. Svona ævintýri eitthvert sem oft fylgir fjölskyldum. Nú má vissulega ræða um hindurvitni og annað slíkt en auðvitað var þessu ætlað að stöðva óæskilega hegðun. Í sjálfu sér sé ég ekkert rangt við að nota fallega hugmynd til þess að stöðva hegðun. Nægar eru skammirnir.
Fyrir mér var þetta alveg skýrt; ég klippti ekki út í loftið með skærunum. Hins vegar varð mér það á seinna meir í handavinnutíma í skólanum að segja þetta þegar einhver var að klippa út í loftið. Bekkjarsystur mínar höfðu sjaldan eða aldrei heyrt neitt jafn hallærislegt. Þetta var rifjað upp reglulega og ég fékk að heyra árum saman. Þótti ógurlega fyndið.
Um daginn náði sonur minn í skæri og klippti út í loftið.
Ég veit hvað mig langar að segja.
Ég veit líka af hverju ég segi það ekki.

Ummæli

Vinsælar færslur af þessu bloggi

Krossinn sem ég ber

Vandamál og lausnir