laugardagur, september 01, 2012

Aðflutt og útskúfuð

Um vorið 2005 var auglýst eftir kennara í Árbót. Ég sótti um og fékk starfið. Ég stóð í þeim leiða misskilningi að það vantaði kennara á landsbyggðina en það er klárlega rangt. Alla vega er nóg af réttindakennurum hér.
Mér var fljótlega gert ljóst að yrði af uppsögnum yrði ég látin fara fyrst. Ég nýkomin með allt mitt hafurtask þvert yfir landið. Gaman.
Liðu nú samt 5 ár á meðan ég hékk á vinnu. En börnum í sveitum landsins fækkar sífellt. Svo kom skellurinn. 
Á þessum 5 árum gerðist hins vegar ýmislegt. Ég kynntist manni og gifti mig. Maðurinn minn er bóndi svo við erum átthagafjötruð hérna. Nú eru líka komin börn.
Ég seldi íbúðina mína í Reykjavík og setti aleiguna í óseljanlegt hús.
Það varð efnahagshrun og atvinnuleysi sem var nánast óþekkt á Íslandi varð alvöru vandamál. Skyndilega eru fjölmargir umsækjendur um stöður sem þar til hafði verið erfitt að manna.
Ég varð fertug og komst þar með í óvinsælasta hóp atvinnuumsækjenda.

Hér er enga vinnu að hafa. Ég sæki um það litla sem er auglýst. Fæ þá vinnu að sjálfsögðu ekki því annað hvort er engin alvara á bak við auglýsinguna eða búið að úthluta henni til vinar eða vandamanns.
Hér ræður klíkan öllu. Auðvitað verður því mótmælt hástöfum en það þarf ekkert nema skoða stöðuveitingar síðustu ára til að staðfesta orð mín.

Ef ég elskaði ekki manninn minn þá þyrfti ég ekki að vera hérna. Getiði ímyndað ykkur hvers lags álag það er á hjónaband?

Ég ætlaði ekki að tala um þetta í von um að eyðileggja ekki möguleika mína á vinnu. En ég get ekki séð að ég hafi neinu að tapa byrjandi mitt þriðja ár í atvinnuleysi.


1 ummæli:

 1. Vegna aðgangsstillinga þá komast ekki allar athugasemdir í gegn. Mér barst þessi í pósti:

  Ágæta Ásta. Leitt að heyra sögu þína. Þú óttast sveitunga þína. Þú vilt vernda þá. Hversvegna?

  Bendi þér á beinskeytta orðun Jónasar Kristjánssonar. Held að hann hafi rétt fyrir sér. Orð hans eiga auðvitað við um landið allt þó áherslan í þessum skrifum sé landsbyggðin.

  Ráðlegg þér að tala. Hafa þor til til þess. Mál þitt verður að hefðbundnu væli (afsakaðu) - ef þú segir ekki það sem í brjósti þínu býr. Tapið reiknast þá alfarið á þig. Reyndar á samfélagið allt.

  Þú ert ekki í Norður Kóreu. Láttu ekki annað fólk trufla líf þitt, á þann hátt sem þú lýsir, eingöngu vegna þess að þú getur ekki truflað þeirra líf. Talaðu. Bí heppí.

  Orð Jónasar til sveitunga Ástu:

  "Ekki til siðs í sveitinni

  Dulmál og tal í gátum er fylgifiskur þjóðfélags, þar sem aldrei má segja sannleikann á íslenzku. Á Héraði kvarta menn um, að veiðimenn noti flugvélar til að smala hreindýrum til slátrunar. En þeir nefna engin nöfn, það er víst ekki til siðs í sveitinni. Örn Þorleifsson í Húsey kærir ekki einu sinni til lögreglunnar. Fyrir bragðið halda leiðsögumenn þessu athæfi áfram. Nær er að tala íslenzku og segja, um hverja sé verið að tala. Þá þarf ekkert dómsmál, heldur verða leiðsögubófarnir útlægir gerðir í samfélagi veiðimanna. Dulmál, væl í gaupnir sér og tal í gátum er þjóðarlöstur, bara stuðningur við bófa."

  Kveðja, Guðjón í borginni.

  SvaraEyða