Að ala upp jafnréttissinnaðan dreng.

Strákurinn minn verður 5 ára á þessu ári. Ég hef reynt eftir fremsta megni að ala hann upp sem jafnréttissinna. Einhverra hluta vegna er hann samt ægilegur gaur og leikur sér bara að bílum og traktorum. Hann er líka með ofurhetjudellu á háu stigi.
Hins vegar hefur hann alltaf haft mjög skemmtilegar hugmyndir um lífið og tilveruna. Hann hefur t.d. oft verið stór og þá hefur hann verið ég eða afi sinn alveg jöfnum höndum. Hann hefur líka oft verið lítill og þá verið hann sjálfur, bróðir sinn eða lítil stelpa. Í vetur sagðist hann ætla að verða Tolla leikskólakennari þegar hann yrði stór.
Núna er hann byrjaður að gera sér grein fyrir því að kynin eru tvö. Nýverið læddist upp úr honum að Dóra landkönnuður væri ,,bara stelpa." Mitt femíníska hjarta missti úr slag og ég ræddi þetta við hann en hann gat ekki svarað neinu frekar til um þetta. Við höfum, að undirlagi móðurinnar, horft á Dóru og hingað til hefur hann haft gaman af. En núna er hún byrjuð að líða fyrir kyn sitt. Ég veit ekki hvaðan þetta kemur, hann ætlar enn að verða stór og sterkur eins og mamma og pabbi.
Þessi ,,rass-stóra"
Um daginn kom vinur hans í heimsókn. Við eigum til hér gamla Playstation tölvu og (ekki hafa samband við Barnaverndarnefnd!) gamlan slagsmálaleik, Tekken 3. Þeir félagar fengu að spreyta sig á leiknum og ekki datt þeim í hug að velja sér kvenkyns keppanda. En svo fór að annar keppti við tölvuna sem stillti upp keppendum af handahófi og m.a. kvenkyns keppanda. Þetta fannst þeim alveg ómögulegt. Og til þess að gera illt verra þá fannst þeim alveg ógurlega fyndið og töluðu nánast stanslaust um hvað fígúran hefði ,,stóran rass"! Tæplega 5 ára að meðaltali og strax byrjaðir að dæma konur út frá útliti.
Nú höfum við reynt að vera meðvituð á heimilinu en samt slæðist þetta inn.
Þetta ætti kannski ekki að koma mér mikið á óvart. Ég bjó til skjávara á tölvuna með uppáhalds ofurhetjunum. Inn á milli setti ég myndir af honum og vinum hans í sínum búningum. Ég reyndi líka að finna myndir af kvenkyns ofurhetjum. Þær eru svona:
Valið stendur um að sýna konur á forsendum klámvæðingarinnar eða sýna þær alls ekki. Mikið val, eða þannig.
Seinna um daginn þegar vinurinn var farinn heim settist ég niður með stráknum og lék við hann í leiknum. Ég vildi alltaf kvenkyns keppendur og lét þær vinna á reglulegum basis. Núna er ég skíthrædd um að ég sé að kenna honum að það sé í lagi að lemja konur!



Update:
Ég vil taka fram að þetta er Playstation 2 tölva sem við erum nýbúin að dusta rykið af og við eigum ekki nema örfáa leiki í hana. Drengurinn fær ekki að leika sér í tölvunni né þessum leik reglulega. 

Ummæli

Vinsælar færslur af þessu bloggi

Krossinn sem ég ber

Vandamál og lausnir