þriðjudagur, júlí 15, 2014

Blessað breytingaskeiðið

Fyrir rúmum tuttugu árum síðan að sumarlagi byrjaði að stíflast á mér nefið og leka úr augunum. Bar ég mig aumlega við lækninn í fjölskyldunni sem setti í brýnnar og sagði kuldalega: „Þú verður að hætta að reykja.“ Það var nú reyndar nokkuð sama hvað að mér amaði, reykingarnar voru alltaf orsakavaldurinn. Vinkona mín sem var orðin leið á að hlusta á snörlið í nefinu á mér benti mér vinsamlegast á að það væri hægt að fá ofnæmistöflur án lyfseðils í næsta apóteki. Ég fjárfesti í slíkum og gat bæði andað og reykt þetta mesta frjókornasumar í Reykjavík í manna minnum.

http://tcsmoking.wikispaces.com/Mouth+Cancer
Núna hef ég lagt tóbakið á hilluna (í bili, alla vega, áskil mér fullan rétt til að falla hvenær sem er). Hins vegar er ég komin á fimmtugsaldur. Mér sýnist á öllu að á milli fertugs og fimmtugs gerist bara eitt í lífi kvenna: Þær fara á breytingaskeiðið.
Nú hefur þessu blessaða breytingaskeiði verið gerð nokkuð nákvæm skil í blöðum, bíómyndum og sjónvarpsþáttum. Einkenni breytingaskeiðsins eru mjög fjölbreytt, nógu fjölbreytt til þess að nú flokka ég allt sem á mig herjar undir breytingaskeiðið. 

Það munaði ekki miklu fyrir tveimur árum að ég yrði ein af þessum konum sem mæta upp á spítala með undarlega magaverki og eignast síðan barn aldeilis óvænt. Ég ýki kannski örlítið en það var ekki fyrr en mér var orðið verulega óglatt að ég ákvað að kaupa þungunarpróf. Með naumindum að ég tímdi því.

Eitt helsta einkenni breytingaskeiðsins er hitakófið. Við höfum séð það í hinum ýmsu myndum í óendanlegum fjölda afþreyingarefnis. Mér verður ekki heitt öðruvísi en ég sé sannfærð um að ég sé með hitakóf.  Ég sat í rólegheitum heima hjá mér fyrir nokkru og svitnaði: „Jæja, þar kom að því“ hugsaði ég og hélt áfram að svitna. Stuttu seinna varð mér litið á hitastillinguna og sá að eldri skæruliðinn var búinn að setja allt í botn.
Í vetur var ég að kenna og byrjaði að hitna. Sagði nemendum að þau yrðu að þola mig fáklædda mér væri bara svo heitt enda komin á erfiðan aldur. Þá sögðu þau, rjóð í kinnum, að það væri nú bara skrambi heitt í stofunni.
Ég skipti mjög ört um rafhlöður í reykskynjurunum því ég kem ekki til með að fatta það ef kviknar í.
En svo er nú annað. Þegar ég fór að leita mér upplýsinga um breytingaskeiðið þá las ég (einhvers staðar, finn það auðvitað ekki núna) að um 85% kvenna færu bara nokkuð snöfurlega í gegnum skeiðið. Dr. Alexandar Smárason sagði á fyrirlestri að 20% kvenna fyndu aldrei fyrir neinum óþægindum.
Kvenfélögin vestan Fljótsheiðar stóðu fyrir fyrirlestri um „Tíðahvörf og hormónameðferð“ með Alexander. Þar kom margt fróðlegt fram, t.d. það að fylgni brjóstakrabbameins og hormónameðferðar er ekki jafn mikil verið hefur látið. En eins og við vitum þá hafa verið miklir fordómar gagnvart hormónameðferð. Alveg eins og verkjastillingum í fæðingum. Undarlegur andskoti þessi þörf samfélagsins fyrir þjáningar kvenna.


Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Færsla Lögreglunnar á Norðurlandi eystra

Það mun mér hæfara fólk fjalla um þessa færslu Lögreglunnar á Norðurlandi eystra en það eru nokkrir hlutir í þessu sem mig sem almennur áhor...