Hernaðarlist 101



Það er ekki á íslenska konukind logið að ætla sér að kenna fólki að heyja stríð en það er nákvæmlega það sem ég ætla að gera núna. Það er borgarastyrjöld í Þingeyjarsveit og skeytin fljúga á milli. Baráttuaðferðir talsmanna Reykdælinga eru ekki nógu markvissar að mínu mati og vil ég gjarna að þeir bæti þar úr. Ég vona að vinir mínir á Laugum taki ábendingum mínum ekki mjög illa.

Það eru nokkur grundvallaratrið sem þarf að hafa í huga áður en lagt er af stað í hernað.
Sun Tzu sagði:

知彼知己,百戰不殆;不知彼而知己,一勝一負;不知彼,不知己,每戰必殆

Sennilega þekktara á ensku; Know thy enemy, know thyself. Þekktu óvininn, þekktu sjálfa/n þig.
Og að berjast ekki á tveimur vígstöðvum í einu. Reynslumiklir marskálkar hafa farið flatt á því.

Þekktu óvininn.
Hver er óvinurinn? Eru það Aðaldælingar? Aðaldælingar eru í nákvæmlega sömu stöðu og þið. Hinn almenni Aðaldælingur hefur enga fullvissu fyrir því að „skólinn þeirra“ sé ekki á förum þrátt fyrir orðróm um baktjaldasamninga.
Er það Stórutjarnaskóli? Stórutjarnaskóli hefur ekkert af sér gert annað en að vera friðhelgur þetta kjörtímabil. Ákvað skólinn, starfsmenn hans eða skólasvæðið það? Nei.
Samstaða gaf þetta loforð í kosningunum. Hafa íbúakosningu um það hvort ætti að sameina Þingeyjarskóla á einum stað og að ekki verði hreyft við Stórutjarnaskóla. Samstaða vann yfirburðasigur sem ekki er hægt að skilja öðruvísi en að meirihlutavilji sé fyrir þessu fyrirkomulagi í sveitarfélaginu.
Íbúakosningin hefur nú breyst í skoðanakönnun en enn sem fyrr á að kanna hið sama: hvort vilji sé til að sameina skólann á einum stað. Það er ekki verið að spyrja eftir því hvar fólk vill að hann sé. Það er sveitarstjórnin sem ákveður staðsetninguna.
Það sveitarstjórnin sem þið verðið að sannfæra. Þið verðið að sýna valdhafanum og almenningsálitinu að það sé skynsamlegra að hafa skólann á Laugum. Það gerið þið ekki með því að berjast fyrir einhverju sem er ekki verið að berjast um núna. Það stendur ekki til að sameina alla skólana núna. Ekki eyða orkunni í tilgangslausa baráttu.


Þekktu sjálfa/n þig.
Hvað er það sem þið viljið? Þið viljið væntanlega sameinað, öflugt menntasetur á Laugum. Skil það vel. Það er lokatakmarkið. Til að komast þangað verðið þið að komast yfir hindrunina sem blasir við núna. Að ná Þingeyjarskóla á Laugar. Það er eina verkefnið sem blasir við núna. Þið vinnið ekki stríðið ef þið tapið þessari orrustu.

Sá möguleiki er auðvitað til staðar að hafa óbreytt ástand en skv. skýrslu Skólastofunnar er ekki mikill vilji til þess.
Kannski viljið þið eitthvað annað, ég veit það ekki. Verið bara viss um að þið vitið hvað þið viljið.

Ekki berjast á tveimur vígstöðvum.
Það væri nú að bera í bakkafullan lækinn að tala um að skólinn sé nærsamfélaginu dýrmætur. Þið eruð að keppa við Aðaldælinga núna um skólann. Skólinn er þeim alveg jafn dýrmætur og ykkur. Skóli Fnjóskdælinga er þeim líka dýrmætur. Til hvers í ósköpunum að egna þá til ófriðar? Og fyrir hvað? Eitthvað sem stendur ekki til? Eitthvað sem er ekki verið að berjast um núna? Þetta er afskaplega óskynsamlegt og dreifir bara baráttuþrekinu.
Napóleon og Hitler flöskuðu báðir á þessu. Réðust inn í Rússland á sama tíma og þeir voru að berjast annars staðar. Þið megið alveg líta á skólasvæði Stórutjarnaskóla sem steppur Rússlands. Eða Mordor. Hlutverk Saurons er jú löngu skipað. Þetta vígi verður ekki unnið bara svona hinsegin.
Einbeitið ykkur að því sem við er að etja nákvæmlega núna.






Ummæli

  1. Nú þekki ég þig ekki nógu vel Ásta til þess að vita hvort þessi hæðnisskrif þín eru hluti af þinni hversdags kímnigáfu en ef ég má tjá mig um þau þá finnast mér samlíkingar þínar ósmekklegar.
    Að líkja Reykdælingum við her í stríði og þá helst við nasista eða fasista finnst mér ógeðslegt. Ég hef ekki húmor fyrir því. Einhverjir hefðu vit á því að skammast sín fyrir svona skrif eins og þín. Öðrum finnst þetta sjálfsagt bara fyndið.
    Mér tekst ekki að koma auga á það hvað þú vilt segja með þessum skrifum þínum eða hver tilgangur þeirra er. Það er varla heilbrigð nálgun á umræðu um skólamál í Þingeyjarsveit að líta á hvert skólasvæði sem vígi. Ég hélt við hefðum fyrir löngu samþykkt sameiningu og værum núna öll í sama liðinu.

    SvaraEyða
  2. Ég skil nú ekki hvernig þú færð það út að ég sé að líkja Reykdælingum við fasista og/eða nasista.
    ,,Einhverjir hefðu vit á því að skammast sín fyrir svona skrif eins og þín. "
    Takk fyrir hrútskýringuna.

    SvaraEyða

Skrifa ummæli

Vinsælar færslur af þessu bloggi

Krossinn sem ég ber

Vandamál og lausnir