þriðjudagur, nóvember 25, 2014

Hlutverk minnihluta

Þegar stjórnin ,,mín" sat þá vildi ég að þingmenn ynnu meira saman og mitt fólk fengi vinnufrið til góðra verka. Núna vill Sigmundur Davíð að stjórnarandstaðan sé elskulegri við sig. Mér finnst hann ekki eiga það skilið.
Svona skiptum við um skoðun eftir því hvoru megin borðsins við sitjum í það skiptið.

Stundum hefur verið rætt um það að þessi eilífi skotgrafahernaður sé ekki góður og fólk eigi að vinna saman.
Það er auðvitað voða sætt að öll dýrin í skóginum séu vinir. En ég er sammála Mikka ref hér, það er bull og vitleysa.

Að því sögðu tel ég ekki nauðsynlegt að meiri- og minnihluti þurfi alltaf að vera svarnir óvinir. Ég sé enga þörf á því að minnihlutinn sé alltaf á móti öllu sem meirihlutinn gerir. Hins vegar tel ég afar nauðsynlegt að minnihlutinn veiti meirihlutanum aðhald.
Það er nefnilega alveg sama hversu yndislega gott fólk er, hversu vammlaust og æðislegt, allt fólk er mannlegt. Vald er vandmeðfarið og hættulegt. Vald getur spillt og það getur blindað fólk.
Ég er alls ekki að segja að það sé óumflýjanlegt. En möguleikinn er til staðar og það eitt og sér nægir.

Þess vegna vil ég miklu frekar að minni- og meirihlutar séu upp á kant heldur en þeir séu best buddies.


Engin ummæli:

Skrifa ummæli