fimmtudagur, desember 11, 2014

Hugmynd

Í kosningabaráttu setur stjórnmálafólk fram alls konar loforð. Sumt fólk fer í pólitík af einhverjum öðrum hvötum en hugsjón og setja fram ótrúlegustu kosningaloforð til þess eins að komast til valda. Völd valdanna vegna. Almennir kjósendur geta lítið annað gert en vonað að stjórnmálafólk hafi hag heildarinnar að leiðarljósi þegar á reynir. Þess vegna er mjög nauðsynlegt að stjórnmálaöfl séu látin standa við sín kosningaloforð. Það getur vissulega orðið þrautin þyngri þegar hreinum meirihluta er ekki náð og framboð þurfa að sættast á málamiðlanir með öðrum framboðum. En þegar hreinum meirihluta er náð ætti það að vera hægur vandi að standa við kosningaloforðin sín.
Samstaða náði ekki bara hreinum meirihluta í Þingeyjarsveit, hún náði alveg yfirgnæfandi meirihluta.
Yfirgnæfandi meirihluta íbúa Þingeyjarsveitar leist betur á og studdi Samstöðu. Ég var ekki ein af þeim.  Það er þrennt í lífinu sem er alveg öruggt; skattarnir, dauðinn og Ásta styður ekki Samstöðu.
Þess vegna er það fullkomlega eðlilegt og rauninni hið eina rétta að Samstaða setji sína stefnu, það sem mikill meirihluta íbúa valdi og vildi, í framkvæmd.
Nú hefur Samstaða þegar gert sig seka um kosningaloforðasvik, hún lofaði íbúakosningu sem var blásin af. Í rauninni var þetta kosningaloforðalygi, loforðið stóðst ekki lög og Samstöðu var það ljóst fyrir kosningar en hélt því samt til streitu. Kjósendum mátti vera þetta ljóst en kusu Samstöðu engu að síður. Mér til mikillar furðu en það er eins og það er.  En Samstöðu er varla stætt á því að svíkja fleiri loforð.

Og hverju lofaði Samstaða?
Hún lofaði því að kanna hug íbúa á skólasvæði Þingeyjarskóla til starfsstöðva-sameiningar Þingeyjarskóla og sameina skólann væri meirihlutavilji til þess.
Hún lofaði einnig að ekki yrði hreyft við Stórutjarnaskóla á þessu kjörtímabili.
Ég skal viðurkenna að ég er orðin rosalega þreytt á því hvernig Stórutjarnaskóli er sí og æ dreginn inn í sameiningarmál Þingeyjarskóla. Þetta er svona álíka að vera á fótboltaleik og vera sífellt að skammast yfir leikmanni sem situr ekki einu sinni á varamannabekknum heldur á áhorfendabekkjunum af því hann var ekki settur á leikmannalistann.
Jú, jú, mér hefði alveg fundist eðlilegt að gerð hefði verið úttekt á Stórutjarnaskóla líka, en sjáið nú til; það var ekki á loforðaplaggi Samstöðu, framboðsins sem mikill meirihluti íbúa kaus af því að honum líkaði stefna hennar betur. Þá finnst mér óneitanlega skondið að þegar ég reyndi á sínum tíma að halda frammi stefnu Framtíðarlistans var mér bent á í föðurlegum umvöndunartón að meirihluti íbúa hefði hafnað listanum og mér bæri að taka tillit til þess.
En fyrst fólki er svona mikið í mun að bendla Stórutjarnaskóla og fjármálastjórnun hans við þetta mál þá vil ég benda á (eins og ég hef gert áður) að allar upplýsingar þar um liggja fyrir og alla vega hægt að fá einhverja hugmynd um stöðu skólanna. Ég hef líka sett saman mynd til hægðarauka. Minni á að því stærri sem skólinn er því hagkvæmari eining ætti hann að vera. Í nemendafjölda talið þ.e.a.s. ekki fermetrum. Nú er komið á daginn að mikill meirihluti íbúa á skólasvæði Þingeyjarskóla, eða 79%, vill að starfsstöðvarnar verði sameinaðar. Hvernig á að fara að því öðruvísi en að loka annarri er mér fyrirmunað að skilja. Enda hlýtur það að hafa legið ljóst fyrir frá upphafi. Komið hafa fram greinar sem segja það beinum orðum að Samstaða hafi löngu verið búin að ákveða að hafa sameinaðan skóla að Hafralæk. Virðist það hafa verið almenn vitneskja. Það var alla vega nokkuð grunsamlegt að á meðan Reykdælingar voru að berjast fyrir staðsetningu skólans þögðu Aðaldælingar þunnu hljóði. Ég verð því að viðurkenna að ég er nokkuð hissa á hvað þetta virðist hafa komið fólki á óvart.
Ég hef sagt áður og segi enn að ég skil röksemdafærsluna á bak við ákvörðunina. Ég hef alltaf talið félagslegan ávinning nemenda mikilvægastan og aukaatriði hvar skólinn sé staðsettur. Ég skil ekki hið gríðarlega mikilvægi sem sumir leggja á þéttbýliskjarnann á Laugum. Ég veit ekki betur en ég hafi lesið allar greinar sem birtar hafi verið og þótt mikilvægið sé áréttað reglulega þá er það aldrei útskýrt. Mér þætti vænt um að mér væri bent á þá grein eða hún skrifuð frekar en mér og fleirum sé brigslað um óvild eða heimsku.

Hins vegar langar mig að setja hér fram hugmynd:
Þar sem hagræðingarsjónarmið virðast ráða staðarvali þá fyndist mér heillaráð ef bæði húsin væru sett á sölu nú eftir áramót og athugað hvort möguleiki sé á sölu á öðru eða báðum. Ef annað húsnæðið selst þá er staðsetningin sjálfvalin og komið upp í viðhaldskostnað á því húsi. Ef bæði húsin seljast... Nú þá er við komin með fjármuni í nýja byggingu. Sem mér finnst að ætti að vera á Laugum því ég er alltaf svolítið skotin í heildstæðu menntasetri að Laugum.
Ef hvorugt selst þá verðum við bara að treysta dómgreind kjósenda sem kaus sér sveitarstjórn.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli