Jóla-karlremban

Jólin, skv. nútíma túlkun og skilningi, ganga út á að fagna fæðingu frelsarans. Þetta eitt og sér er auðvitað mjög karllægt, karlímyndin Guð gefur mannfólkinu sinn eingetna son því til bjargar. Hins vegar hef ég alltaf litið á Jesú sem fyrsta femíníska kommúnistann svo, og ekki segja vinstri sinnuðum vinum mínum það, ég er alveg sátt við þetta Jesúdæmi allt saman. Það hefði lítið þýtt að senda hina eingetnu dóttur á þessum tíma.

Jólunum fylgja aðrir karlar sem okkur þykja bæði skrítnir og skemmtilegir, nefnilega sjálfir jólasveinarnir. Sjálf hef ég lagt þeim lið undanfarið að læðast inn á heimilið og lauma gjöfum í skó barnanna. Einhverra hluta vegna finnst okkur fullkomlega eðlilegt að ala það upp í börnum okkar að skrítnir karlar séu ægilega skemmtilegir og hið besta mál að þeir séu að læðupokast inni á heimilunum á meðan aðrir sofa. 


Það eru ekki bara jólasveinarnir. Nýverið sátum við mæðginin og horfðum á Kalla á þakinu. Þar á lítill drengur vin sem er frekar ókurteis og óþroskaður karl sem enginn veit um. Það eru fleiri svona sögur og myndir um vinfengi skrítinna karla og, aðallega, lítilla drengja. Sbr. Up og Skreppur seiðkarl.

Á sama tíma vörum við börnin okkar við ókunnugu fólki, sérstaklega karlmönnum. Erum við ekki að senda þeim afar misvísandi skilaboð?
Minna fer almennt fyrir skrítnum og skemmtilegum kerlingum. Má þó nefna til Mary Poppins og Fíu fóstru en þeim er samt kyrfilega plantað í hefðbundið kvenhlutverk fóstrunnar.
Ef við höldum okkur við jólahátíðina þá er hún nánast algjörlega eign karla. Grýla fær aðeins að troða inn sínu ljóta nefi en skemmtileg er hún ekki.


Í gær fór fjölskyldan á jólaball. Sungin voru hefðbundin jólalög, sömu lögin og ég gekk í takt við í kringum jólatréin á sínum tíma og eru enn sungin á öllum jólaböllum út um allt land. Víðfrægt er nú erindið: „...hann fékk bók en hún fékk nál og tvinna.“ Var að mig minnir einhver umræða um það á sínum tíma. Ég man ekki alveg hvort það var spilað en satt best að segja þá eru mörg hinna lítið skárri. Í laginu Nú skal segja eru kynhlutverkin alveg skýr.
Litlar stelpur vagga brúðu, æfa sig fyrir móðurhlutverkið á meðan strákarnir sparka bolta. Þeirra leikur er mun frjálsari og býður upp á fleiri möguleika. Þeir eru alla vega ekki að æfa sig fyrir föðurhlutverkið. Það má skjóta því hér inn í að ef leikir drengja snerust meira um að æfa sig fyrir föðurhlutverkið þá yrðu þeir kannski betri feður og börn ekki jafn berskjölduð fyrir skrítna föðurímynd eins og Kalla á þakinu eða Fagan.

Gömlu konurnar í Nú skal segja prjóna sokka því alltaf eiga konur að gera gagn. Gömlu karlarnir hins vegar mega dunda sér við að taka í nefið og hnerra svo hressilega; vera skrítnir og skemmtilegir.
Því skal þó haldið til haga að í Adam átti syni sjö er pabbi til staðar sem elskar alla syni sína og þeir elska hann. Eigi þetta að vera hinn fyrsti Adam má líklegt telja að einhverjar dætur hafi verið til staðar en hvort hann hafi elskað þær og þær hann er alveg látið liggja á milli hluta.
Kynhlutverkin í Nú er Gunna á nýju skónum eru líka alveg kýrskýr. Mamma er föst í eldhúsinu „eitthvað að fást við mat“, (gætum við mögulega sýnt vinnu kvenna meiri lítilsvirðingu?) á meðan pabbinn er viðutan, skrítinn og skemmtilegur að leita að flibbahnappinum sínum.

Mér er alveg sama þótt þetta séu „hefðir“ og „óþarfi að sjá það ljóta í öllu.“ Þetta eru ömurleg skilaboð sem við erum að senda börnunum okkar og ég mælist til að þessir textar verði endurskoðaðir (og upphefst nú ritskoðunarsöngurinn).
Ef hefðin er vond þá má og á að breyta henni.

Ummæli

Vinsælar færslur af þessu bloggi

Krossinn sem ég ber

Vandamál og lausnir