
Ég sé bara nákvæmlega enga ástæðu til þess að líta á björtu
hliðarnar á helvíti eða fyrirgefa skítaframkomu. Nákvæmlega enga. Samt er
alltaf verið að segja mér að gera einmitt það. Stundum vinir og vandamenn en
aðallega samfélagið og einhverjir spekingar sem vilja að ég kaupi af þeim
helvítis jákvæðniboðskapinn. „Vertu hress!" ,,Þetta er ekki svo slæmt." ,, Þetta er allt í höfðinu á þér." ,,Þú ákveður hvernig þér líður.“ Takk fyrir það. Ég vil ekki
endilega vera neikvæð en ég vil ekki heldur vera eitthvert ginningarfífl. Það er líka grundvallar munur á neikvæðni og gagnrýni.

Hins vegar held ég ósköp einfaldlega að þetta snúist ekkert um
mína líðan. Ég held að þetta snúist um líðan annarra, nánar til tekið
skítapakksins.
Það að vera jákvæð og fyrirgefa snýst um að sætta sig við eitthvað. Sætta sig við
skítlega framkomu. Sætta sig við óréttlæti og lifa í voninni að eitthvað
breytist af sjálfu sér. Ef ég brosi bara nógu mikið, ef ég fyrirgef bara nógu
mikið þá munu góðir hlutir gerast.
En það virkar ekki þannig. Á meðan ég brosi eins og
fífl og fyrirgef öllum allt og lifi í voninni þá er annað fólk að lifa í
vellystingum praktuglega. Og það fólk brosir ekki heimskulegu brosi nytsama sakleysingjans. Nei, það fólk hlær hæðnislega á meðan það stingur almúgann í
bakið og misskiptir gæðum jarðar.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli