Þar sem
nokkur umræða hefur spunnist um rétt einstaklinga til starfstilboða langar mig
að leggja orð í belg.
Þegar mitt
starf var lagt niður 2010 stóð á þeim pappír sem ég fékk í hendur að ég hefði
rétt til biðlauna, sem ég þáði, og að ég nyti forgangs í sambærilegt starf á
vegum sveitarfélaga ef slíkt losnaði. Nú hef ég ekki haldið sérstaklega upp á
uppsagnarbréfið, undarlegt nokk, en hægt er að sjá í Fundargerð fræðslunefndar
frá 10.6.2013 að sama gilti um annan kennara.
Nú er það
ákveðið sjónarmið að vinna sé vinna. Hitt er annað mál að það er lítið réttlæti
í því að einstaklingur sem hefur unnið sig upp í starfi og staðið sig vel skuli
þurfa að sætta sig við minni ábyrgð, lægri laun og, já, að lækka í
virðingarstiganum fyrir engar sakir aðrar en þær að starfið hans er lagt niður.
Að því gefnu að hann fái starf áfram.
Nú getum við
haft hvaða skoðun á því sem við viljum. Mér fannst það t.d. fullkomlega
skiljanlegt þegar þá menntaðasti starfsmaður og deildarstjóri stofnunar hér í
sveit afþakkaði ræstingarstarf við sömu stofnun í kjölfar niðurlagningar
starfs. Margir voru ósammála mér og hneyksluðust því: „honum var jú boðið
starf.“*
Löggjafinn
og dómsvaldið eru hins vegar þeirrar skoðunar að einstaklingur eigi rétt
sambærilegu starfi, sé það í boði, og má finna marga dóma og úrskurði þar að
lútandi.
Því þykir
mér það bæði sorgleg og ósanngjörn umræða að einstaklingur sem hafnaði starfi
sem ekki var sambærilegt við hið fyrra
eigi þ.a.l ekki rétt á sambærilegu starfi þegar það býðst.
*Svona fékk ég söguna frá fyrstu hendi. Það má vera að ég sé auðtrúa en mér þykir eðlilegt að trúa því sem fólk segir mér af högum sínum.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli