þriðjudagur, júlí 14, 2015

Léleg þjónusta

Snati er sóði. Hann er með skítakleprana hangandi utan á sér. Ég reyni eins og ég get að klippa þá af honum og baða hann en hann er viðkvæmur á ákveðnum stöðum. Þegar ég reyni að klippa kleprana í kringum rassinn glefsar hann í hendina á mér. Hann hefur ekki meitt mig og blóðgar ekki en mér er illa við þetta. Ég reyndi um daginn að binda um trýnið á honum rétt á meðan en hann er fljótur að losa sig við það. Svo ég komst að þeirri niðurstöðu að okkur vantaði múl. Ég athugaði með hann á Akureyri en fann ekki svo ég ákvað að panta hann af netinu. Fann ég múl á síðunni Dýralíf. 
Ég set múlinn í körfuna og athuga svo með sendingarkostnað. Það stendur skýrum stöfum að hann sé kr. 0 en einhvern veginn grunar mig að ég verði látin borga burðarkostnaðinn svo ég ákveð að panta meira. Leiðist alveg rosalega að borga álíka mikið í burðarkostnað og fyrir vöruna. Svo ég panta líka mat fyrir litla hundinn og hundanammi handa þeim.

Í dag kemur pöntunin. Og að sjálfsögðu þurfti ég að borga sendingarkostnað upp á rúmar 1.700,- krónur. Mig grunaði það svo það kom ekki á óvart. En þegar pakkinn er tekinn upp þá er þar hundamatur og hundanammi en enginn múll. Ég er ekki rukkuð fyrir múlinn enda lágmark en mér finnst alveg með ólíkindum að ég skuli ekki hafa verið látin vita að múllinn væri ekki til. Ég hef alltaf verið látin vita ef eitthvað fæst ekki sem ég er að panta. Þau hjá Hagkaup eru t.d. mjög elskuleg, ég hef átt í heilmiklum samskiptum við kurteist starfsfólk í pöntunum hjá þeim.

Það fýkur í mig enda var ég aðallega að panta múlinn. Hundamat og -nammi get ég keypt hér fyrir norðan. Hefði ég vitað að múllinn væri uppseldur þá hefði ég hætt við pöntunina.
Ég fer í símann og hringi í fyrirtækið. Þar svarar kona. Hennar svör voru einfaldlega: "Ég vinn bara hérna." Hún tók ekki við þessari pöntun þannig að hún gat bara ekki svarað fyrir þetta. Jú, jú, þetta er voða leiðinlegt en hún bara sinnti ekki þessari pöntun.
Það eru alveg hreinar línur að ég mun aldrei aftur eiga viðskipti við þessa verslun og vara annað fólk við því.


Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Færsla Lögreglunnar á Norðurlandi eystra

Það mun mér hæfara fólk fjalla um þessa færslu Lögreglunnar á Norðurlandi eystra en það eru nokkrir hlutir í þessu sem mig sem almennur áhor...