Við höfum öll heyrt þessa sögu:
Nokkrir smákóngar í Noregi undu ekki yfirgangi Haraldar hárfagra og fóru til
Íslands. Hér settust þeir að til að njóta frelsis og sjálfstæðis. Synir þessara
frelsishetja urðu miklir garpar, svo miklir að við erum enn að lesa af þeim
sögurnar í Íslendingasögum. Slíkur og þvílíkur er uppruni íslensku þjóðarinnar.
Sei, sei, já.
Þessi útgáfa hentaði Íslendingum
afskaplega vel á nítjándu öld og öndveðri tuttugustu á meðan barist var fyrir
sjálfstæðinu. Niðurlútir og langsveltir nýlendubúarnir þurftu svona tröllasögur
til að ljúga í sig þróttinn. Ljúga segi ég því auðvitað stenst þetta enga
skoðun.
Fyrir það fyrsta þá voru það
engir smákóngar sem komu til Íslands, það voru yngri bræður sem fengu ekkert
land. Við getum alveg gefið okkur að þeir hafi verið höfðingjasynir en ég er
nokkuð viss um að þeir hafi ekki fjölmennt á skipin og skipt á milli sín
verkunum. Nei, ég er nokkuð viss um að það hafi verið sirka einn höfðingjasonur
á hverju skipi og fullt af vinnumönnum, þrælum jafnvel. Bergþórshvoll var
fullur af fólki. Það var ekki bara höfðinginn Njáll og synir hans (fyrir nú
utan að hvorki Njáll né Gunnar voru höfðingjar heldur bara stórbændur.) Nei, húsið
var fullt af vinnumönnum, ambáttum og þrælum.
Þessu hefur verið svarað á þá
leið að m.a.s. þrælarnir okkar hafi verið konungbornir sbr. Melkorka. Þið vitið,
Melkorka sem Höskuldur Dala-Kollsson keypti á Írlandi og nauðgaði svo
reglulega.
Já, talandi um það. Við erum svo
ægilega stolt af víkingunum okkar, þessum sem gerðu strandhögg í öðrum löndum
og drápu mann og annan. Við erum svo stolt af þeim að við töluðum um „útrásarvíkinga“
í brjálæðinu sem gekk yfir hér um árið, í hreinu heiðurs- og
viðurkenningaskyni. Réttara hugtak yfir víkinga sem við ættum frekar að nota er
þjófóttir morðingjar. Já, elskurnar mínir, þetta voru ómerkilegir þjófar.
Svolítið fyndið hvað við erum svo hneyksluð og miður okkar yfir Tyrkjaráninu
þegar hingað komu Alsírbúar og gerðu nákvæmlega það sama á Íslandi og æðislegu
forfeðurnir okkar gerðu á öldum áður. Okkar finnst bara ekkert töff við þetta
Tyrkjarán.
Þetta er sem sagt sjálfsmynd
þjóðarinnar. Við erum wannabe höfðingjar, uppfull af þrælsótta og lúffum um
leið og einhver frekjuhundur kemur á vettvang og þykist flagga frumburðarrétti.
Við föllum að fótum þeirra eins og hundar og leyfum þeim að traðka á okkur á
skítugum skónum af því, já, af því að við trúum því virkilega að einn daginn
muni okkar tækifæri til skítseiðisháttar koma. Og við ætlum sko að nýta það.
Við ætlum svo sannarlega að nýta það. Þess vegna getum við ekki sameinast gegn
frekjuhundinum þótt við vitum að sameinuð getum við sigrað hann. Af því að ef
við lokum á möguleika „höfðingjans“ þá getum við ekki komist í hlutverk
höfðingjans sem er okkar erfðaréttur! Fyrir þau okkar sem erum ekki af réttu
kyni eða réttri ætt þá mun þetta tækifæri aldrei koma. Enda eigum við ekki að
vilja svona andstyggðar tækifæri. Við þurfum að átta okkur á að
samtakamátturinn er sterkari en höfðinginn. Og við þurfum svo sannarlega að
átta okkur á að hér eru engir kóngar og hafa aldrei verið. Við þurfum nýja
sjálfsmynd sem þjóð. Og þá getum við kannski siðmenntast.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli