The Winner takes it all

Þann 15. okt.sl. var tekin fyrir á sveitarstjórnarfundi Þingeyjarsveitar „Sáttatillaga“ frá nokkrum Reykdælingum. Ég klóraði mér nú aðeins í höfðinu yfir þessu, satt best að segja. Samkvæmt minni málvitund er sáttatillaga aðeins gild þegar tveir (eða fleiri) sem hafa sama eða svipað vægi deila. Því fer órafjarri hér. Við skulum tala tæpitungulaust. Reykdælingar eru hinir sigruðu í þessari deilu.

Fyrir það fyrsta eru Hafralækjarskóli og Litlulaugaskóli ekki sameinaðar stofnanir. Litlulaugaskóla var slátrað og leifunum sópað undir Hafralækjarskóla. Að sama nafnið hafið verið sett fyrst á báða skóla í vondu millispili breytir engu þar um.


Bara svo það sé á hreinu; mér þykir sameining skólanna þarft skref. (Sameining, takið eftir.) Þegar tveir skólar eru sameinaðir þarf að hætta starfsemi í öðru húsinu, það liggur fyrir. Það liggur alveg jafnljóst fyrir að sá skóli sem missir húsnæðið stendur veikari að vígi. Það þarf að hafa í huga og bregðast við. Það var að sjálfsögðu ekki gert.
 
Sjö kennarar tilheyrðu Litlulaugadeild. Af þessum sjö var fjórum sagt upp.
Átta kennarar tilheyrðu Hafralækjarsdeild. Af þeim var engum sagt upp. Engum.
Inni í þessum tölum hef ég hvorki íþróttakennara né skólastjóra en ég tel þá tilheyra báðum deildum. Hins vegar hef ég aðstoðarskólastjórana inni í þessum tölum.

Aðstoðarskólastjóri Hafralækjardeildar sagði upp sjálfur og skólastjórinn sem upphaflega var ráðinn í Hafralækjarskóla var sagt upp umfram lagaskyldu.
Af þessum fjórum sem sagt var upp í Litlulaugadeild var þremur sagt upp á grundvelli hæpins hæfismats þar sem engar fyrirfram gefnar forsendur lágu fyrir.

Aðstoðarskólastjóri Litlulaugadeildar vildi halda áfram vinnu og óskaði eftir samþættaðri stjórnunarstöðu ásamt kennslu. Við því var ekki hægt að verða. Hins vegar var, ca. korteri eftir að nefndur aðstoðarskólastjóri var búinn að skrifa undir starfslokasamning og afsala sér kærurétti, tilkynnt að skólastjórinn (sem þurfti ekki að segja upp en var samt gert, I really wonder why) hafi verið ráðinn í óauglýsta samþættaða stjórnunarstöðu ásamt kennslu. Að vísu var fyrst sagt að um 50% stjórnunarstöðu án kennsluskyldu væri að ræða. Án kennsluskyldu reyndist vera gríðar hnyttinn orðaleikur því hann kennir þrátt fyrir að vera ekki skyldugur til þess. Þá hefur staðan ,,bólgnað“ lítillega út og er orðin 70%. Fulltrúi stéttarfélags sem ég ræddi við sagði þetta „óhreint.“ Ég ætla að bæta um betur og kalla þetta skítlega framkomu.

Þá var fv. aðstoðarskólastjóri Hafralækjardeildar ráðinn aftur án auglýsingar sem myndmenntakennari.

Þannig að þið sjáið að Hafralækjardeild heldur öllu sínu fólki. Átta kennarar (í rauninni níu) á móti þremur úr Litlulaugadeild. Hvernig ætli að skólamenningu Litlulaugaskóla reiði af í þessu umhverfi?

Auðvitað samþykkti meirihluti sveitarstjórnar ekki sáttatillöguna enda eru hlutirnir algjörlega eftir hans höfði og óþarfi að sættast á eitt eða neitt.  

Vilji þessi hópur eða aðrir Reykdælingar reyna eitthvað frekar fyndist mér eðlilegt að athuga hvort meðalhófsreglan hafi verið brotin í þessu ferli. En það er auðvitað bara tillaga.

Með baráttukveðju.
 






Vinsælar færslur af þessu bloggi

Krossinn sem ég ber

Vandamál og lausnir