laugardagur, maí 16, 2015

Frumkvæði - Samvinna - Hugrekki

Væmnivarúð

„Það er engum ofsögum sagt. Húsavík er fallegasti staður á jarðríki, svona að sumarlagi“ sagði ungi maðurinn og horfði yfir höfnina og bæinn sinn.
Húsavík er gríðarlega fallegur staður þótt hún sé kannski ekki fallegasti staður á jarðríki. Þarna spilaði auðvitað inn í væntumþykja unga mannsins gagnvart heimastaðnum sínum.

En Húsavík státar af fleiru en fegurðinni einni. Ég hef notið þeirra forréttinda að fá að kenna ungu (og ekki alveg jafn ungu) fólki í Framhaldsskólanum á Húsavík síðastliðin tvö ár. Það er stundum strembið eins og alltaf er þar sem fólk kemur saman en það hefur alltaf verið gaman. Og alveg ótrúlega gefandi. Mig hefur lengi langað til að segja við foreldra nemenda minna: „Vá, hvað þið eigið æðislega krakka.“ Ég ætla bara að segja það núna. Þetta unga fólk, það er algjörlega frábært. Og þau láta sér fátt fyrir brjósti brenna:
Ég get ekki lýst því hvað mér finnst æðislegt þegar harðsvíraðir fótboltatöffarar, hvort sem það eru strákar eða stelpur því Völsungur framleiðir snillinga í massavís, koma til mín og segja: „Ég átti í svolitlum erfiðleikum með þetta verkefni eða ritgerð en pabbi eða mamma hjálpaði mér.“ Svo fullkomlega eðlilegt að foreldrarnir séu enn að fylgjast með námi barnanna sinna og aðstoða. Það er nefnilega því miður ekki fullkomlega eðlilegt alls staðar.

Ég skal alveg viðurkenna að ég með mínar reykvísku rætur hafði ákveðnar efasemdir um svona fámennan lítinn skóla. En ég fann það um leið og ég gekk inn í húsið að þar er bæði jákvæður og góður andi. Nú má það vel vera rétt að menning felist í fólki en ekki byggingum. En í þessum veggjum situr samt gleði og jákvæðni.

Ég ætla ekki að halda því fram að FSH sé frábær skóli (hann er það samt) þar sem málið er mér skylt. En ég get sagt ykkur að Borgarhólsskóli er góður skóli því flestir nemendurnir okkar koma þaðan. Ég sem kennari á auðvitað ekki að segja frá því opinberlega en nýnemarnir okkar núna í vetur eru búnir að setja mig hvað eftir annað í bobba með mjög kryfjandi spurningum um námsefnið. Ég er enn í öngum mínum því ég gat ekki svarað því nákvæmlega hvernig skipulagið í Niflheimum er!
Það er eiginlega alveg sama hvað það er, þessir krakkar leysa það. Nemendafélagið skipuleggur Dillidaga árlega og vinnur þrekvirki.Ég er gamall MR-ingur og mér kenndu karakterar á borð við Guðna kjaft og Slumma slönguskít. Hitler kenndi mér því miður aldrei. Þótt FSH sé bæði minni og yngri skóli þá á hann svo sannarlega sína karaktera líka. Þið vitið hverjir þeir er.
Og þótt það sé enginn gangaslagur eða inspector scholae þá á FSH á svo sannarlega sínar hefðir líka eins og Hjörvar Gunnarsson útskriftarnemi kom svo skemmtilega inn á í ræðu sinni á málþinginu okkar á dögunum. (Takk Hjörvar, mikið hefði verið gaman að hafa myndbandið :))

Já, ég held bara hreinlega að FSH sé besti skólinn í heiminum.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli