Ruslapeningar

Nýverið var lögð fram fjárhagsáætlun Þingeyjarsveitar fyrir árin 2017-2020. Allt virðist vera í lukkunnar velstandi. Þá mætti sveitarstjórinn okkar í viðtal þann 20. júlí síðastliðinn til að fagna opinberlega öllum milljónunum sem eru þegar byrjaðar að rúlla niður af Þeistarreykjum í sveitarsjóð.
Þess vegna kemur á óvart að um hækkanir í gjaldskrá er að ræða. Sérstaklega kemur á óvart hækkun sorphirðugjalds um 15%. Sorphirðugjald var einnig hækkað á síðasta ári um 10%

Það lofaði mér því svo sem engin/n að sorphirðugjaldið myndi standa í stað hvað þá að mér dytti nokkurn tíma í hug að það myndi lækka, guð forði okkur frá svoleiðis vitleysu. Ég er líka mjög ánægð með umhverfisþáttinn og flokka með gleði í hjarta. True story.
Hins vegar veit ég að Brennslan á Húsavík var skelfilega dýr og því kannski ekki alveg út í hött að halda að sorphirðan myndi ekki hækka. Þá var talað um að meðaltal sorpmagns hvers íbúa í Þingeyjarsveit væri talsvert yfir landsmeðaltali* og flokkunin ætti að spyrna við því umframmagni. Aðallega auðvitað vegna þess að við höldum að íbúar annarra sveitarfélaga hafi verið að lauma í gámana okkar. Þá áttum við að njóta "samlegðaráhrifa" vegna samstarfs við Skútustaðahrepp. En þetta gengur sem sagt ekki betur en það að sorphirðugjaldið hækkar árlega. Eða það verð ég að ímynda mér, ekki gefur sveitarstjórnin neinar skýringar frekar en fyrri daginn. Og ekki er neinn héraðsmiðill hér lengur sem veitir valdhöfum aðhald.

Það er svo sem ekkert nýtt að íbúar fái ekki að njóta ágóða gæða né heppni sveitarfélagsins eins og við fengum að sjá á ljósleiðaratengingunni sem mun kosta sveitarfélagið mest lítið. En það er nú gott að meirihlutinn haldi fast um peninga sveitarfélagsins svo útvaldir geti notið þeirra. Og þau sjálf, auðvitað.






*Byggist á minni. Finn ekki skriflegar heimildir fyrir þessu.

Ummæli

Vinsælar færslur af þessu bloggi

Krossinn sem ég ber

Vandamál og lausnir