Landssamband kúabænda (LK) og Samtök afurðastöðva í mjólkuriðnaði
(SAM) hafa ákvarðað sameiginlega stefnu um Fyrirmyndarbú LK og SAM. Með þeirri
stefnu sem sett er í Fyrirmyndarbúinu og þeim starfsreglum sem því eru sett, vilja
kúabændur og mjólkuriðnaðurinn tryggja að íslenskum neytendum standi ávallt
til boða íslenskar mjólkurafurðir sem eru traustsins verðar.
Þetta er lofsvert framtak á allan hátt. Nema hvað að stjórn Auðhumlu ákvað á fundi sínum þann 24. nóv. sl. að verðlauna þau bú sem stæðust kröfur Fyrirmyndarbúsins með 2% hækkun á afurðir.
Auðhumla er samvinnufélag bænda svo það fé sem hún úthlutar er úr sameiginlegum sjóð eiganda. En það má alveg leiða að því rök að fjárhagslegur hvati til að gera vel sé sá hvati sem þarf.
Markmið fyrirmyndabúsins eru góð og vel úr garði gerð. Hins vegar eru nokkur atriði sem vekja þann grun að verið sé að hygla nýjustu róbótafjósunum á kostnað eldri og minni búa, sérstaklega básafjósa.
Nautaeldi er tekið með í úttektinni.
Róbótafjósin eru stærri og þurfa almennt ekki að hafa nautaeldi með. Nautaeldið er yfirleitt í hrárra húsnæði, þ.e. húsnæði sem ekki hefur hingað til verið gerðar sömu kröfur til og til fjósanna. Húsnæði nautaeldisins getur því dregið niður heildareinkunn húsakosts.
Mottur
Algengustu básafjósamotturnar eru dæmdar ónothæfar fyrirfram því þær eru taldar of harðar. Svona mottur hafa hingað til verið taldar góðar og eru framleiddar í básafjós og standast kröfur MAST.
Útivist kúa.
Í kynningarbæklingi fyrirmyndarbúsins segir á bls.6: LK og SAM eru sammála um að leggja sérstaka áherslu á:... að gripir njóti útivistar samkvæmt gildandi reglum.
Þegar gátlistinn er skoðaður kemur hins vegar berlega í ljós að útivist gripa hefur ekkert gildi.
Þetta þýðir að fræðilegur möguleiki er á því að bú sem sinnir ekki útivist gripa sinna getur orðið fyrirmyndarbú. Eru það búin sem SAM og LK vilja hygla?
Útivist gripa býður upp á meiri vinnu og meiri átroðning á umhverfi. Gripirnir bera líka með sér fræ og bera á í kringum húsin. Það hlýtur að liggja ljóst fyrir að erfiðara er að halda nánasta umhverfi útivistarfjósa stöðugt fullkomlega snyrtilegu. Auðvitað er hægt að eitra í kringum húsin en er það virkilega það sem við viljum?
Eins og gátlistinn er uppsettur núna er ekki hægt að sjá annað en að SAM og LK séu að hygla stærri búunum og reyna að losa sig við litlu búin.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli