þriðjudagur, maí 16, 2017

Litla bleika kúlutjaldið

Við hjónakornin kynntumst um vorið 2006 og hófum þá tilhugalífið. Um sumarið komst unnusti minn að því að ég hefði aldrei sofið í tjaldi og ákvað, eins og góðum unnusta sæmir, að bæta úr því hið snarasta. Þannig að einhvern tíma um sumarleytið 2006 keyrðum við turtildúfurnar af stað með litla, bleika rúmfatalagerskúlutjald systur hans í farteskinu á vit ævintýranna. Bleika kúlutjaldið truflaði mig ekkert enda er ég bæði víðsýn og ósnobbuð.
Einhvers staðar á leiðinni stoppuðum við í kaupfélagi og ástmögurinn keypti þessa líka stóru fínu vindsæng fyrir okkar að sofa á og tilheyrandi pumpu. 
Svo keyrðum við á tjaldstæðið í Fellabæ og slógum upp tjaldi. Ókey, við erum að tala um 2006. Það var ekki eitt einasta tjald á tjaldstæðinu, bara misrisastórir tjaldvagnar og húsbílar. Víðsýna, ósnobbaða konan sá það, hún tók eftir því en það skipti hana engu máli. Snerti hana ekki. Svo byrjaði elskhuginn að pumpa í vindsængina, pumpan tengd í bílinn og svo drundi í henni. Svona "já, halló! Sjá okkur örugglega ekki allir?"drunur. Dýnan var stór og fín og blasti við að það yrði gott að sofa á henni. Eini gallinn var að hún komst ekki inn í bleika, litla kúlutjaldið. Bóndanum fannst það sko ekki mikið mál heldur skellti dýnunni beint á jörðina og tjaldaði ofan á dýnuna. Svo fór hann og spjallaði aðeins við kunningjakonu sína sem var þarna með börnunum sínum á stórum húsbíl.
Á þessum tímapunkti þurfti konan að horfast í augu við þá staðreynd að hún væri kannski ekki jafn víðsýn og ósnobbuð og hún hélt að hún væri. Það var eitthvað í þessu sem truflaði konuna svolítið.. Kannski aðallega innsýnin í eigin forpokuðu sál😳

Seinna keypti ég minni dýnur sem pössuðu í kúlutjaldið og nú eigum við tjald sem rúmar fínu dýnuna. Þetta átti bara að vera svona atburður sem myndi gleymast með tíð og tíma. Nema hvað að nokkrum árum seinna byrja ég að kenna í framhaldsskóla. Þar var sonur kunningjakonunnar. Og hann mundi...

Því miður fundum við ekki þetta tjaldstæði.



Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Færsla Lögreglunnar á Norðurlandi eystra

Það mun mér hæfara fólk fjalla um þessa færslu Lögreglunnar á Norðurlandi eystra en það eru nokkrir hlutir í þessu sem mig sem almennur áhor...