miðvikudagur, desember 19, 2018

Bótaábyrgð stjórnarmanna


Gefum okkur, algjörlega fræðilega samt, að meirihluti stjórnarmanna í fyrirtæki hafi ákveðið að selja allar eigur þess. Salan verður til þess að fyrirtækið er svipt rekstrargrundvelli sínum fyrir vikið og verður óstarfhæft. Stenst þetta? 
Á Skemmunni má oft finna áhugaverðar ritgerðir um hin ýmsustu mál  svo það liggur beint við að leita svara þar. Fljótlega rakst ég á ritgerðina Skyldur og refsiábyrgð stjórnarmanna í hlutafélögum eftir Ásu Kristínu Óskarsdóttur. Vert er að taka fram að lög um einkahlutafélög eru mjög sambærileg lögum um hlutafélög, oft á tíðum er um samhljóða ákvæði að ræða. Dómstólar hafa iðulega báða lagabálkana til hliðsjónar og vísa til félagaréttar.

Í leiðbeiningabæklingi Viðskiptaráðs um Stjórnarhætti fyrirtækja þar segir í gr, 2.1.1 um hlutverk stjórnar:
Að fara með æðsta vald í málefnum félags milli hluthafafunda, stuðla að viðgangi félagsins og hafa eftirlit með daglegum rekstri þess. (skáletrun mín.) (Viðskiptaráð Íslands, 2015, bls. 17)
Hugtakið viðgangur er skilgreint svona í Íslenskri nútímamáls orðabók Stofnunar Árna Magnússonar:
framfarir, þroski, velgengni (Stofnun Árna Magnússonar, án dags.)
Það er því ljóst að það samrýmist ekki hlutverki stjórnarmanna að svipta félag rekstrargrundvelli sínum. Sérstaklega ekki þegar fyrirtækið á ekki í nokkrum rekstrarvandræðum. Eða eins og Ása segir í ritgerð sinni:
Hlutverk stjórnar er meðal annars tilgreint í 68. gr. hfl. en stjórn hlutafélags fer með málefni félagsins, stjórnar því, og hefur það hlutverk að sjá til þess að skipulag félagsins og starfsemi þess sé í góðu horfi, allt með hagsmuni félagsins að leiðarljósi sbr. 1. mgr. 68. gr. hfl.” (skáletrun mín.) (Óskarsdóttir, 2011, bls. 14) (44. grein ehfl. er samhljóða 68. grein hfl. hvað þetta varðar.)
Stjórnarmenn hafa trúnðarskyldu gagnvart félaginu sem þeir eru stjórnarmenn í:
Trúnaðarskyldan er óskráð regla en í henni felst að í þeim tilfellum sem hagsmunir félagsins rekast á við hagsmuni stjórnarmanna, hluthafa eigi hagsmunir félagsins að ganga fyrir. bls. 42

Stjórnarmenn geta orðið skaðabótaskyldir gagnvart hluthöfum og hafa fallið um það nokkrir dómar. Skapast skaðabótaskylda vegna þess að stjórnarmenn hafa ekki látið hagsmuni félagsins ganga framar sínum:  
Stjórnkerfið í lögunum á að tryggja að engir aðrir hagsmunir en hagsmunir félagsins í heild séu í fyrirrúmi þegar ákvarðanir eru teknar um málefni félagsins.“ (Ása, bls. 80.) 
Sjá t.d. hrd. 393/2008 en þar segir:
Á grundvelli þeirra lagaákvæða er hér hafa verið rakin hvíldi sú skilyrðislausa skylda á ákærða sem stjórnarformanns og framkvæmdastjóra Rósvíkur ehf. að gæta að hagsmunum Rósvíkur ehf., (skáletrun mín.)
Hér má bæta við að: "framkvæmdastjóri hefur það meginverkefni að gæta hagsmuna félagsins í hvívetna." bls. 8 

Þá hafa stjórnarmenn einnig eftirlitsskyldu: „Í eftirlitsskyldu stjórnarmanna felst einnig skylda til að tryggja að eignir félagsins rýrni ekki óeðlilega mikið eða fari forgörðum. Má það sjá af niðurstöðu Hrd. í máli nr. 393/2008 frá 26. mars 2009: bls 17.

Það liggur alla vega alveg ljóst fyrir stjórnarmenn baka sér skaðabótaskyldu ef þeir selja eignir félags á undirverði. Þeir skapa sér einnig skaðabótaskyldu ef þeir láta persónulega hagsmuni ganga framar hagsmunum félagsins. Það má jafnvel deila um hvort þeir séu til þess bærir að sjá um slíka samningagerð skv. 48. grein ehfl. sem er svohljóðandi:

48. gr. https://www.althingi.is/lagas/hk.jpg Stjórnarmaður eða framkvæmdastjóri má ekki taka þátt í meðferð máls um samningsgerð milli félagsins og hans, um málshöfðun gegn honum eða um samningsgerð milli félagsins og þriðja manns eða málshöfðun gegn þriðja manni ef hann hefur þar verulegra hagsmuna að gæta sem kunna að fara í bága við hagsmuni félagsins. Skylt er stjórnarmanni og framkvæmdastjóra að upplýsa um slík atvik. 

Um þetta hefur fallið dómur hrd. 464/1998 en þar segir:
Í héraðsdómi var J, sem var stjórnarformaður í P ehf., sagður hafa brotið gegn 48. gr. og 1. mgr. 51. gr. ehfl.71 með því að afsala sjálfum sér vörubifreið frá félaginu, þar sem hann ritaði undir bæði sem kaupandi og seljandi. Fór Á sem einnig var hluthafi í P ehf. í mál til að fá greiddar skaðabætur. Dómurinn tók efnislega afstöðu í málinu varðandi söluna á bílnum og taldi að J hafi brotið umrædd ákvæði ehfl. þegar hann seldi sjálfum sér bílinn. Að öðru leyti var ekki tekin afstaða til málsins í héraðsdómi og var því var vísað frá dómivegna vanreifunar á skaðabótakröfu Á og var sú niðurstaða staðfest í Hæstarétti.Af dóminum má ráða að stjórnarmenn þurfa að gæta þess að taka ekki þátt í gerð samninga þegar þeir hafa persónulegra hagsmuna að gæta. Er ekki ólíklegt að Á hefði getað fengið skaðabætur frá J hefði skaðabótakrafan verið betur rökstudd og málinu ekki verið vísað frá vegna vanreifunar.  (bls.34)

Ég hef ekki fundið hvort kaupendur geti orðið skaðabótaskyldir við svona aðstæður en ljóst er að slíkum gjörningum hefur verið rift. Væntanlega hafa kaupendur borið af því einhvern málskostnað. Mér finnst líka mjög líklegt að fólk sem veit að það er að semja við menn sem hafa ekki hæfi til að semja geti verið gert skaðabótaskylt líka. 
Fólk sem brýtur almenn hegningarlög eins og t.d. 264. grein getur hreinlega farið í fangelsi.
[264. gr. a.  Hver sem gefur, lofar eða býður manni, sem stjórnar [innlendu eða erlendu] 1) fyrirtæki í atvinnurekstri, [þar á meðal fyrirtæki að hluta eða í heild í opinberri eigu], 2) eða innir af hendi störf á vegum þess, gjöf eða annan ávinning, sem hann á ekki tilkall til, í þágu hans eða annarra, til að fá hann til að gera eitthvað eða láta eitthvað ógert í bága við starfsskyldur hans skal sæta fangelsi allt að [5 árum], 1) eða sektum, ef málsbætur eru.  Ef maður, sem stjórnar [innlendu eða erlendu] 1) fyrirtæki í atvinnurekstri, [þar á meðal fyrirtæki að hluta eða í heild í opinberri eigu], 2) eða innir af hendi störf á vegum þess, heimtar, tekur við eða lætur lofa sér eða öðrum gjöfum eða öðrum ávinningi, sem hann á ekki tilkall til, og gerir með því eitthvað eða lætur eitthvað ógert í bága við starfsskyldur sínar, skal sæta fangelsi allt að [6 árum], 1) eða sektum, ef málsbætur eru.] 3)

En þetta kemur auðvitað allt í ljós fyrir dómi😊






Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Færsla Lögreglunnar á Norðurlandi eystra

Það mun mér hæfara fólk fjalla um þessa færslu Lögreglunnar á Norðurlandi eystra en það eru nokkrir hlutir í þessu sem mig sem almennur áhor...