Hvar á að byrja langa og leiðinlega sögu? Hvar er byrjunin? Hvar er upphafið? Ég get svo sem aldrei sagt hana öðruvísi en eins og hún snýr að mér svo ég hef hana þar sem ég kem inn í hana.
Við Marteinn kynntumst 2006. Þá voru foreldrar hans, Gunnar og Tóta, föðurbræður, Helgi og Hrólfur, og G. bróðir hans enn á Hálsi. H.bróðir hans var ekki. Á þessum tíma var hann í sambandi með konu og fór með henni utan.
Marteini fannst ekki gott að vinna með G., hann var verklítill og gat ekki gengið til allra verka, gat t.d. alls ekki mjólkað. Marteini fannst hins vegar gott að vinna með H. hann var röskur og duglegur og Marteinn saknaði hans.
Fljótlega eftir að við kynnumst sagði Marteinn mér að hann vildi deyja á þúfunni sinni. Ég vissi því að hverju ég gekk, ef ég vildi eyða ævinni með þessum manni þá myndi ég eyða henni á Hálsi. Ég gekk að því enda auðvelt val.
Árið 2010 fluttum við á Háls í nýja húsið okkar, stundum kallað Villa Nova. Illseljanlegt hús sem við höfðum bæði lagt aleiguna okkar í og skuldsett okkur talsvert.
H. hjálpaði til við ýmislegt í húsbyggingunni. Hann sendi síðan reikning sem við þurftum að borga því hann vildi fá (sic.) virðisaukann endurgreiddan. Svo ætlaði hann að endurgreiða launagreiðsluna. Ég sagði honum að sleppa því, hann hefði hjálpað okkur mikið og þá væri líka auðveldara fyrir okkur að biðja hann aftur. Hélt hann því greiðslunni.
Á þessum tímapunkti voru gömlu mennirnir hættir að ganga til verka og G. að flytja í burtu. H. var hins vegar kominn til baka.
Ég sagði H. að Marteini fyndist gott að vinna með honum og vildi endilega vera með honum í samstarfi. Við buðum H. líka að vera í hádegismat með okkur enda lagaði ég mat á hverjum degi hvort eð væri. Á þessum tímapunkti var ég atvinnulaus. Eitthvað var rætt að búið borgaði svokallaðan "mötuneytiskostnað" enda þótti á þeim tímapunkti ekki eðlilegt að við Marteinn bærum allan kostnað af matnum. Ekkert varð hins vegar úr þeim hugmyndum og þróuðust mál þannig að við bárum kostnaðinn að langmestu leyti. Við lögðum, hreint út sagt, áherslu á að halda H. góðum
Verkaskiptingin var sú að Marteinn mjólkaði en H. gaf auk annarra verka sem þeir gengu til jöfnum höndum. Nema sáning og þresking sem Marteinn sá aðallega um.
Atvinnuleysið og framkoma Vinnumálastofnunar fór ekki vel í mig og þar sem H. leiddist að vera bundinn yfir gjöfinni tvisvar á dag stakk ég upp á því að ég yrði ráðin í vinnu við búið. H. leist vel á það, hann vildi komast í meiri verktöku og hafa meira upp úr sér, en fullyrti að búið hefði ekki efni á því að greiða mér laun. Samt var G. nýfarinn og þótt þeir tveir hefðu hækkað sig lítillega í launum var samt eftir launaafgangur. Honum fannst sem sagt fullkomlega eðlilegt að ég tæki við hluta af hans verkum launalaust svo hann gæti haft meira upp úr sér. Þetta stuðaði mig það mikið að ég ákvað að ég myndi aldrei vinna launalaust á búinu. Nema auðvitað til aðstoðar Marteini.
Að öðru leyti gengur þetta allt vel framan af. Ég fer í vinnu í janúar 2013 og Marteinn tekur við eldamennsku. H. heldur áfram að borða í Villa Nova og leggur stundum til nokkrar niðursuðudósir en borgar aldrei með sér. Hann er kallaður í kaffi ef bakaðar eru vöfflur eða pönnukökur og alltaf boðið ef fjölskyldan kaupir pizzu. Þetta er að sjálfsögðu okkar eigið val.
Hann er góður við strákana okkur og fellur þeim hann vel. Reyndi ég H. aldrei að neinu nema góða einu og var hann umbeðinn ætíð viljugur til aðstoðar. Það eina sem mér leiddist var hversu mikill besserwizzer hann er og fullyrðir um hluti sem hann veit ekki vel skil á.
Á morgun: Suðurbærinn.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli