miðvikudagur, mars 06, 2019

"Skuldin"

Þá byrjar Sá-sem-ekki-má-nefna að tala um að hann eigi inni peninga hjá fyrirtækinu. Það var ekki rétt. Hann endurgreiddi Marteini, inn á hans einkareikning, meira en hann átti að gera vegna stofnunar fyrirtækisins. Það átti eftir að borga meira og hann skuldaði okkur alla vega einn reikning frá Lex. Við ræddum þetta þegar þetta gerðist í febrúar 2017 og hann samþykkti skuldajöfnun. Í lok júní tekur hann þetta upp aftur og man þá ekkert það sem við ræddum. Ég fer yfir þetta og sýni honum kvittanir í netbankanum. Það skal viðurkennt að á þessum tímapunkti náði ég skuldinni ekki upp í þessa upphæð enda löngu hætt að hugsa um þetta og búin að gleyma því.* Hann samþykkir það. Daginn eftir, 30. júní, byrjar hann aftur á þessu, að hann eigi inni peninga hjá okkur Marteini.

Já, það fauk í mig. Í fyrsta lagi þá skulduðum við honum ekki neitt. Í öðru lagi að maðurinn sem var búinn að borða hádegismat hjá okkur daglega í sjö ár án þess að borga krónu, maðurinn sem var búinn að láta okkur gefa vinum hans og vinum þeirra og vandamönnum að borða hádegismat vikum saman án þess að borga krónu, maðurinn sem fékk nýlegan bíl frá Helga föðurbróður þeirra án þess að borga krónu, maðurinn sem fékk hús án þess að borga krónu, maðurinn sem bjó frítt í húsi búsins án þess að borga krónu í leigu**, maðurinn sem ég var búin að stofna fyrirtæki fyrir og var að reka og búa til peninga fyrir, maðurinn sem fannst óþarfi að ég fengi laun fyrir vinnuna mína, að þessi maður skyldi halda því fram að ég væri að snuða hann gekk alveg gjörsamlega fram af mér. Svo já, ég hringdi til baka og hvæsti á hann. Ég endurgreiddi honum líka það sem hann taldi sér vera skuldað. (14 þús. sem ég gat ekki gert grein fyrir.)

Hann heldur því fram að hann hafi einungis verið að spyrja og það má vel vera að hann telji það. Hins vegar er framkoma hans þannig að hann hvorki leggur til né spyr. Hann fullyrðir og tilkynnir. Hann var svo sannarlega ekki að spyrja mig hvort hann ætti inni peninga. Hann var að tilkynna mér að svo væri.*** Hann lét fylgja með, hálföskrandi, að mér kæmi þetta fyrirtæki ekkert við og að ég réði ekki við að halda utan um bókhaldið. Svo skellti hann á. Já, ég hvæsti á hann en ég sagði ekkert dónalegt við hann. Hann hins vegar var dónalegur við mig. Sá-sem-ekki-má-nefna svarar oft með skætingi en virðist alls ekki átta sig á því.



Í einfeldni minni hélt ég að þetta myndi blása yfir eins og hver önnur kergja. Staðreynd málsins er hins vegar sú að hann hefur ekki virt mig viðlits síðan. Hann svaraði fyrst í stað símtölum frá mér og SMS-um, þegar ég þráaðist við, en að öðru leyti hefur hann hunsað mig. Hann og vinir hans hafa ekki heldur komið í mat síðan og er það vissulega talsverður sparnaður.

*Júní 2018. Núna er ég að stofna annað fyrirtæki og þarf að borga fyrir2 búsforræðisvottorð, svo þarf að borga heilbrigðiseftirlitinu og eldvarnareftirlitinu. Það er talsvert sem tínist til.

** Skattskyld hlunnindi sem hann borgar ekki skatt af. Hlunnindi sem Marteinn nýtur ekki.

***Alveg nákvæmlega eins og hann tilkynnti að kistulagningin ætti að vera klukkan hálftíu um kvöldið þótt það hentaði engum nema honum og þeirri áætlun hans að nota vini sína sem vopn í striðinu við okkur.

Næst: Afsökunarbeiðni.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Færsla Lögreglunnar á Norðurlandi eystra

Það mun mér hæfara fólk fjalla um þessa færslu Lögreglunnar á Norðurlandi eystra en það eru nokkrir hlutir í þessu sem mig sem almennur áhor...