Gámaþjónusta Norðurlands tekur þátt í ofbeldinu

Eins og allir lesendur vita er forkastanleg staða uppi á Hálsi. Meðeigendur mannsins míns neita samstarfi, sáttum, kaupum og eða sölu. Það eina sem upp á er boðið er að fjölskyldan flytji úr af heimili sínu, húsinu sem við byggðum, fyrir rétt tæpum 10 árum síðan.
Yngri bróðirinn er móðgaður vegna smámuna og honum hefur tekist að sannfæra hinn um guð má vita hvað. Hinn vinnur alla vega stöðugt gegn eigin hagsmunum og leyfir Lilla að blóðmjólka búið.

Ég veit ekki til þess að við höfum gert Hinum eitthvað, nema hvað hann varð gróflega móðgaður þegar við sögðumst vilja borga Lilla meira fyrir hans hlut þar sem hann hefur lagt meira af mörkum til búsins. Það vita það allir að það er rétt. Hinn hefur alla tíð verið mjög iðinn við að koma sér undan verkum.

Í apríl byrjaði Hinn að vinna hjá Gámaþjónustu Norðurlands. Áður höfðu báðir mennirnir á bílnum alltaf komið út og sinnt verkunum en núna kom bara annar út, Hinn sat inni í bílnum. Íronískt í ljósi okkar reynslu en greinilegt að fyrst samstarfsaðilinn leyfði honum að komast upp með þetta þá hefur eitthvað verið sagt. Eitthvað rangt af því eins og sagði áður, við höfum ekkert gert þessum manni annað en að bjóða honum verulegar upphæðir í hlutinn hans. Meira en Lilla bara svo það sé á hreinu.

Í vor var bílnum bakkað mjög hratt og nálægt húsinu okkar svo mér varð ekki um sel en ákvað að skrifa það á mistök.

Fyrir ca. þremur vikum kem ég heim rétt eftir að bíllinn hafði verið hér. Eldri drengurinn var úti að viðra hundinn og hann sá þegar aðeins annar maðurinn kom út (Hinn sat undir stýri). Þegar tunnan var að tæmast þá kom vindhviða og eitthvað af draslinu fauk í burtu. Starfsmaðurinn skildi það bara eftir og það var keyrt í burtu. 
Við drengurinn tíndum draslið upp þegar ég kom heim og þá var það auðvitað fokið lengra og víðar. Ég hafði samband við Gámaþjónustu Norðurlands í gegnum síðuna þeirra, lýsti því sem gerðist og sagðist ekki alveg sátt við svona vinnubrögð. Engin svör bárust. 

Eftir tvö ár af ofbeldi og viðbjóði þá er maðurinn minn orðinn langþreyttur. Hann hringdi í Gámaþjónustu Norðurlands og var ekki sáttur við þetta. Þá sagði hann líka að hann kærði sig ekki um þennan mann hjá heimilinu sínu. Viðmælandi spurði hvort hann væri að fara fram á að hann ræki hann en maðurinn minn neitaði því, hann vildi hann bara ekki hjá heimilinu sínu. Heimilinu sem þessi maður er að reyna að flæma okkur í burtu af. Þetta getur ekki verið eini bílstjórinn hjá fyrirtækinu. 

Í dag kom gámabíllinn.
Það var keyrt fram hjá húsinu okkar.

Við borgum fyrir sorpþjónustu. Þingeyjarsveit er með samning við Gámaþjónustu Norðurlands. 

Ég hringdi í Neytendasamtökin. Við eigum rétt á þessari þjónustu. Við eigum rétt á því að henni sé sinnt án ógnandi tilburða og án þess að drasli sé dreift í kringum okkur.

Ég fer hér með fram á að Gámaþjónustan sinni þeim samningum sem hún hefur gert við Þingeyjarsveit.





Update.
Við höfðum samband við sveitarstjóra Þingeyjarsveitar og bíllinn kom aftur og tunnurnar voru tæmdar. Takk Dagbjört 😀

Sumir sátu auðvitað sem fastast og þorðu ekki að sýna á sér andlitið 😡


Ummæli

Vinsælar færslur af þessu bloggi

Krossinn sem ég ber

Vandamál og lausnir