Þann 19. des. sl. féll snjóflóð á veginn við Ljósavatn í Ljósavatnsskarði.
Snjóflóðið var um 500 metrar og lokaði veginum í ca. 16 klukkutíma. Maðurinn
minn og tveir synir okkar höfðu verið á Akureyri fyrr um daginn. Vegna
jólainnkaupa voru þeir seinna á ferð en vanalega og komust ekki heim. Eyddu
þeir nóttinni í góðu yfirlæti í Stórutjarnaskóla ásamt fleira fólki.
Ég er þakklát öllum góðum öflum að þeir voru heilir á höldnu. Á sama tíma
spyr ég mig hvernig þetta gat gerst. Hvernig stendur á því að seint á árinu
2019 getur 500 metra snjóflóð fallið á hringveg 1 á Íslandi algjörlega
óforvarendis? Þetta er þekkt
snjóflóðasvæði. Eru ekki til einhverjar græjur sem meta hættuna á snjóflóðum? Einhverjar aðferðir til sjá fyrir líkurnar á
snjóflóði?
Snjóflóðið komst í fréttir en lítil umræða skapaðist um það og lítill
áhugi. Eini maðurinn sem velti fyrir sér
alvarleika málsins var Einar Sveinbjörnsson en hann setti eftirfarandi
færslu á facebook:
Þetta er vissulega ekki mikil umferð en dágóð engu að síður. Kannski má
líkja þessu við rússneska rúllettu, að líkurnar á að lenda í snjóflóði séu ekki
mjög miklar! En það vill þannig til að ca. 20 börn á aldrinum 0.5-16 ára aka
þennan veg tvisvar á dag flesta virka daga vetrarins. Annars vegar á leið í
skólann sinn og svo aftur heim. Þar á meðal drengirnir mínir svo málið er mér
talsvert skylt. Það snjóar og snjóar og mér líður ekki vel.
Þann 1. jan. sl. birti Dagbjört Jónsdóttir sveitarstjóri Þingeyjarsveitar Bréf
til íbúa. Get ég ekki skilið
upplýsingarnar þar öðruvísi en svo að ekkert
reglubundið snjóflóðaeftirlit sé á veginum á þessari stundu! Dagbjört og
Halla Bergþóra lögreglustjóri á Norðurlandi eystra hafa nú báðar sent beiðni til
snjóflóðavaktar Veðurstofu Íslands og til Vegagerðarinnar og óskað eftir reglubundnu
snjóflóðaeftirliti á svæðinu. Dagbjört hafði áður sent inn slíka ósk en henni
virðist hafa verið hafnað. Mér þætti gaman að vita hvaða forsenda var fyrir þeirri neitun í ljósi flóðsins þann 19. desember.
Ég skora á snjóflóðavakt veðurstofu Íslands að hefja reglubundið eftirlit á
veginum í Ljósavatnsskarði.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli