Sannleikshallinn


Kona nokkur var ákærð fyrir líkamsárás. Kæran gegn konunni var síðar felld niður og gæti einhverjum dottið í hug að það eitt myndi nægja til að konan teldi sig hreinsaða af ákærunni. Svo er ekki. Hún hefur skrifað bók um málið, talað inn á hlaðvarp og fengið talsvert pláss á ljósvakamiðlum. Margir telja að það sé eðlilegt þar sem „báðar hliðar verði að heyrast.“

Það væri auðvitað ósköp þægilegt ef til væri einhver heilagur sannleikur en því miður er það ekki svo einfalt. Upplifun einstaklingsins skiptir máli. Ef einstaklingur upplifir eitthvað sem einelti t.d. þá er það einelti. Jafnvel þó svo að gerandinn hafi alls ekki meint það þannig. Það er vissulega sanngjarnt; einhver upplifir vanlíðan vegna einhvers þá ber að taka tillit til þess. (Nema auðvitað þegar það er verið að kynferðislega áreita konur, þá eru þær bara óþarflega viðkvæmar.) En þegar kemur að sakamálum þá skiptir ásetningur öllu máli. Ef viðkomandi ætlaði sér ekki að ræna/særa/drepa þá er það reiknað til refsilækkunar. Hins vegar held ég að flestallt ofbeldisfólk telji sig alls ekki vera ofbeldisfólk. Það telur sig væntanlega vera í fullum rétti annars myndi það ekki beita ofbeldi eða upplifi hegðun sína alls ekki sem ofbeldi. Þannig að þetta er alls ekki  einfalt.



Í samfélagssáttmálanum samþykkjum við að setja okkur undir vald dómstóla. Þá er til þess menntað fólk fengið til að vega og meta það sem er sagt og gert. En það sem við segjum er alls ekki alltaf í samræmi við það sem við gerum. Það er ekki nóg með að flestir upplifa sig alltaf í rétti þeir fegra líka hlut sinn. Það hefur örugglega enginn þá sjálfsmynd að hann sé lyginn og ómerkilegur ofbeldisseggur.
Vegna þessa er það nokkuð viðurkennt sem almenn sannindi að það séu tvær hliðar á öllum málum og einhvers staðar í miðjunni felist sannleikurinn.



En er það svo? Hvað ef önnur manneskjan segir fullkomlega satt og hin algjöra lygi? Þá erum við komin með talsverðan sannleikshalla, ekki satt? Þá er miðju „sannleikurinn“ mikli orðinn 50% lygi.


Auðvitað gætu báðar hliðar sagt meira en bara helmingssannleikann og þá fáum við væntanlega sannleikann út en með þessari aðferðafræði þá margborgar sig að ljúga því helmingnum er alltaf trúað, ekki satt? Sá sem segir sannleikann er samt dæmdur 50% lygari á meðan lygarinn er líka bara metinn sem 50% lygari. Það er miklu verra þegar sannleikurinn er dreginn í efa en að komast upp með lygina.

Ég hef enga lausn á þessu. Ég var bara að spekúlera…






Ummæli

Vinsælar færslur af þessu bloggi

Krossinn sem ég ber

Vandamál og lausnir