mánudagur, apríl 27, 2020

Klimt og konurnar

Fyrir aldamótin síðustu, áður en ég fór að vinna á geðdeildinni, vann ég í nokkra mánuði í e.k. mynda- og plakatabúð á Laugaveginum. Mér fannst það ágætt, hef alltaf haft gaman að myndum plakötum. Það er kannski ekki rétt að segja að þetta hafi verið plaköt, þetta voru svona vandaðri eftirprentanir. Svo var innrömmunarverkstæði á efri hæðinni.
Einhverju sinni vorum við eigandinn að ræða um myndir og ég segi henni að mér finnist ein myndin vera hálf klámfengin. 


Hún var ósammála mér og sagði, eins og merkilega margar konur af þessari kynslóð, að henni fyndist kvenlíkaminn miklu fallegri en karllíkaminn. (Ég aðhyllist gríska skólann í þessu.)
Hvað um það, fólk má vera ósammála. Nema hvað að stuttu seinna mæti ég til vinnu og þá er búið að ramma myndina inn og hengja upp á vegg. Ég tók því persónulega og sagði upp stuttu seinna.

Eftir þetta fór ég að kynna mér verkið og málarann. Eins og sennilega flestir hafa áttað sig á þá er þetta verk eftir Gustav Klimt og heitir Danae. 

Danáa þessi kemur úr grísku goðafræðinni. Hún var dóttir  Akrisíosar konungs í Argos. Akrisíos spurði véfréttina í Delphi hvort hann myndi ekki eignast son. Véfréttin sagði svo ekki vera hins vegar myndi hann eignast dótturson sem myndi drepa hann. Akrisíosi leist nú ekki vel á þetta svo hann lokaði Danaá inni, annað hvort í turni eða kjallara. Seifur sem alltaf var á höttunum eftir fallegum konum fréttir þetta og vill endilega líta á stúlkuna. Hún er svo kirfilega lokuð inni að ekki einu sinni guðirnir komast inn. Þá breytir Seifur sér í gullregn og rignir inn. Hann verður svo hrifinn af stúlkunni að hann barnar hana þar og þá.

Já, einmitt, hvar á ég að byrja? Stúlkan er sem sagt lokuð inni og Seifur breytir sér í gullregn (golden shower á ensku, ég mana ykkur að gúgla) og barnar hana án þess svo mikið að kynna sig. 

Klimt þessi sérhæfði sig í að mála erótískar myndir. En, eins og flestir vita, þýðir erótík almennt og yfirleitt berar konur. Hann er einn af þessum sem frelsaði kvenlíkamann. Það sem hins vegar er merkilegt (og sumum gæti þótt óþægilegt) að flestar beru konurnar hans Klimts eru annað hvort mjög syfjaðar eða beinlínis sofandi. Kvenlíkamanum er  stillt upp algjörlega passívum til áhorfs.

Frægasta mynd Klimts er Kossinn. Hún þykir mjög rómantísk og er til víðs vegar í ýmsum útgáfum.



Í bókinni um Klimt eftir Gottfried Fliedl segir að maðurinn og konan séu samofin í phallískri mynd. Maðurinn er ráðandi aflið í myndinni, hann tekur um höfuð konunnar og sveigir það að sér svo hann geti kysst hana á kinnina. Hún er algjörlega óvirk (passive.) Hún sýnir algjöra uppgjöf á hnjánum frammi fyrir manninum.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Færsla Lögreglunnar á Norðurlandi eystra

Það mun mér hæfara fólk fjalla um þessa færslu Lögreglunnar á Norðurlandi eystra en það eru nokkrir hlutir í þessu sem mig sem almennur áhor...