laugardagur, desember 04, 2021

Tvöfeldnin

 Stundum tekur lífið u-beygju, eitthvað ófyrirsjáanlegt gerist. U-beygjan sem líf fjölskyldunnar tók var ekki slys. Þetta var ekkert óvænt sem kom upp á, engar náttúruhamfarir. Engin skriðuföll.  Mágar mínir gengu í það markvisst og einbeittir að flæma okkur í burtu af heimili okkar. Þeim tókst það, það var einfaldlega ekki hægt að bjóða börnunum upp á að búa við þetta ofbeldi lengur. 

Einn þeirra vann líka heimavinnuna sína. Hann vann hana vel. Löngu áður en við áttuðum okkur á hvað var í gangi þá var hann búinn að hringja.  Eða mæta í kaffi. Víða. Hvað hann sagði veit ég ekki. En miðað við undirtektirnar var það ekki sannleikurinn.

Kona ein bjó/býr í sveitinni. Ég hélt hún væri ágæt. Ég hélt hún væri hrein og bein. En allt í einu, þegar ég var að lýsa (og skrásetja) ofbeldinu á facebook var hún alltaf mætt til að bera blak af ofbeldinu. Ég hafði alltaf á röngu að standa. Það var fullkomlega eðlilegt að heyja eftir miðnætti beint fyrir utan gluggann á heimilinu okkar. Þar sem ferðaþjónustan okkar var. Það var eðlilegt að bera skít á túnin alltaf þegar vindurinn stóð á húsið okkar. Það var fullkomlega eðlilegt að hræra í skíthúsinu með drynjandi dráttarvél svo skítagasið stæði yfir húsið og dreifa skítnum í nákvæmlega þessa tæpu þrjá tíma sem barnaafmælið stóð yfir.

Hún hafði unnið með ritsjóra staðarmiðilsins. Ég tók við staðarmiðlinum og vonaði að hún myndi vilja vinna með mér. Ég hringdi samt ekki. Ég hafði það einhvern veginn á tilfinningunni að ég fengi ekki góðar viðtökur. Svo sendi sóknarnefndin sem hún var í út ákall um aðstoð. Þar fékk ég ég ástæðu svo ég hringdi. Hún svaraði ekki. Hún hringdi ekki til baka. 

Svo dó þekktur maður. Langt fyrir aldur fram. Það var skelfilegt og vont. Vinnustaðurinn hans setti samdægurs frétt um fráfallið á vefsíðuna sína. Opinberu vefsíðuna sína. Fjölskylda mannsins tengdist vinnustaðnum, ég var viss um að tilkynningin væri í samráði við hana. Mér fannst þetta samt of snemmt svo ég hringdi í fyrrverandi ritstjóra. Hann sagði að þetta væri orðið opinbert á síðu vinnustaðarins. Mér fannst ég sýna vanvirðingu ef ég tæki ekki tilkynninguna upp í staðarmiðlinum.

Tilkynningin var ekki í samráði við fjölskylduna og var tekin niður. Ég var beðin um að taka hana niður og það var gert um leið.

Þarna fékk konan tækifæri til að höggva. Og hún hjó í opinni færslu á fésbókarsíðunni sinni:





Það skipti engu máli hvað ég sagði.  Hún fékk færi og það skyldi notað. 

Ef hin snemmbúna tilkynning var brotið þá var vinnustaðurinn sekur líka. Hún hlyti að loka á þá síðu líka.

Undarlegt nokk þá virðist það ekki vera tilfellið.


Þetta snerist greinilega ekki um það sem gerðist, heldur hver gerði það. 

Þetta var dropinn sem fyllti mælinn. Á þessum tímapunkti ákvaðum við að gefast upp og fara. Ég vona að konunni líði vel og hún sé ánægð með sjálfa sig. 


Sá þessa mynd í dag. Minnti mig á hana.


Mynd fengin héðan, http://www.ghs.is/


Á facebook sagði hún svo þetta um ofbeldismanninn:


Já. það er nefnilega heiðarleiki og helv.. seigla að flæma fjölskyldu frá heimili. Hversu ógeðslega ómerkileg geturðu verið?

sunnudagur, nóvember 14, 2021

Sannleikurinn, slúðrið og ástin.

 Eftir að ég varð “klikkaða kerlingin á Hálsi” þá hef ég tekið kjaftasögum með mun meiri fyrirvara en áður. Ég hef lært að orðatiltækið „sjaldan veldur einn er tveir deila“ er kjaftæði og sannleikann er ekki endilega að finna í miðjunni á sitthvorri hliðinni. Sumir eru fullfærir um að valda og viðhalda deilum alveg einir árum saman og ljúga út í eitt. Ég hef líka fengið staðfest að það virðist mega tala hvernig sem er um konur og miðaldra konur alveg sérstaklega séu mun ómarktækari en aðrar. Þá eiga konur sem veikjast að einbeita sér að veikindum sínum. Ekki eyða orkunni í eitthvað annað. Ekki samt tala um veikindin. Bara halda kjafti. Helst úti í horni.

Með þessa reynslu í farteskinu hefur mér fundist erfitt að fylgjast með fréttaflutningi og umræðum um Sólveigu Önnu annars vegar og mál Jóns Baldvins hins vegar.

Orðræðan um Sólveigu Önnu hjó mjög nærri; klikkuð og erfið. Þetta er mjög algeng orðræða um konur, sérstaklega þær sem neita að læðast meðfram veggjum. Sólveig Anna benti okkur á að hér á landi eru láglaunakonur sem ná ekki endum saman. Hún benti okkur ekki bara á það, hún rak það upp í andlitið á okkur eins og blauta tusku og sló okkur svo með tuskunni. Þetta er svo ódönnuð hegðun og ódömuleg. Konan hlýtur bara að vera klikkuð. Já! Sendiboðinn er klikkaður við þurfum ekki að breyta neinu! Jei!

Jón Reynir Traustason skrifaði frábæra grein um Sólveigu Önnu svo ég bendi bara á hana.

 

Jón Baldvins mál hefur verið ansi lengi í umræðunni. Það er ýmislegt þar sem truflar mig. Ég ætla alls ekki að neita því að ég trúi konunum frekar en honum. Ég sé bara alls ekki af hverju allar þessar konur ættu að vera að ljúga þessu. Lygi er oftast óljós og slepjuleg. Það er erfitt að festa á henni hendur. Staður og stund fylgir yfirleitt ekki sögunni eða hvað nákvæmlega gerðist. Gefið í skyn og ýjað að en reynt að koma í veg fyrir að það sé hægt að staðreyna frásögnina. Flestar kvennanna koma með stað og stund og nákvæmar lýsingar.

En gefum okkur að þetta sé allt saman lygi, að Jón Baldvin sé sárasaklaus.

Jón og Bryndís hafa farið mikinn í málsvörn hans. Ég skil það, það er ömurlegt að sitja undir lygaþvættingi. Það er líka ömurlegt að mega ekki reiðast og sýna sárindi sín. Svo þegar manni er algjörlega ofboðið þá fer brynjan upp og breytist í hroka, manni er ekki trúað hvort sem er. Ég veit, ég skil. Vandinn er; þetta hefur enga þýðingu.  Fólk man nefnilega ekki tímalínuna og það næsta sem gerist er að það sem var vörn gegn árás er túlkað sem árás.

En vilji fólk ekki vera til umfjöllunar í fjölmiðlum þá er ágætt ráð að vera ekki alltaf að skrifa í fjölmiðla eða gefa út bækur.

Þau fullyrða út í eitt að þessar frásagnir og umtal um meinta kynferðislega áreitni Jóns í gegnum árin sé runnin undan rifjum Aldísar elstu dóttur þeirra. Og hvað gengur henni til? Jú, hún er geðveik.

Aldís þvertekur fyrir að hún sé „geðveik“ og hefur sýnt læknisvottorð þess efnis. Ekki ætla ég að véfengja það. Mig langar samt að segja að það að fólk sé með geðsjúkdóm gerir það ekki að lygurum. Ég vann á geðdeild í nokkur ár og hitti fólk á vondum stundum í lífi þess, t.d. í geðrofi eða í maníu. Við slíkar kringumstæður fær fólk oft ranghugmyndir. En þegar maníunni/geðrofinu slotar hverfa ranghugmyndirnar. Vissulega er til að fólk gangi um með ranghugmyndir vegna geðsjúkdóms í lengri tíma. Það leynir sér yfirleitt ekki.

Þá fullyrða þau að þessi veika kona hafi fengið til liðs við sig fullt af öðrum konum til að hjálpa sér við að ná sér niðri á þeim. Málflutningurinn er sem sagt sá að allar þessar konur séu annað hvort svo vitlausar að þær sjái ekki í gegnum þessi alvarlegu veikindi eða svo leiðitamar að þær hlýði bara því sem þeim er sagt að gera.

Fyrir mörgum árum voru pabbi minn, föðurbróðir og tveir vinir með spilaklúbb. Einn vinurinn var mikið fjarverandi svo afi hljóp stundum í skarðið. Í eitt skipti spurði hinn vinurinn afa, fyrir framan stútungssyni hans tvo á sextugsaldri, hvenær maður hætti að hafa áhyggjur af börnunum sínum. Án þess að hugsa sig um svaraði afi: Aldrei.

Það er þetta sem truflar mig mest. Hérna eru foreldrar sem telja að dóttir sín sé veik. Samt bera þau hana út í fjölmiðlum og höfða meira að segja meiðyrðamál gegn henni. Já, hún er að segja ljóta hluti. Já, hún er „erfið“. Hún er samt dóttir þeirra. Fárveik í ofanálag samkvæmt þeim sjálfum.

Er mannorðið dýrmætara en barnið manns? Ég vona að ég þurfi aldrei að svara þeirri spurningu. En standi ég einhvern tíma frammi fyrir henni vona ég að ég svari henni ekki svona.




 

miðvikudagur, október 20, 2021

Piltur og stúlka - glærur

 Þegar ég byrjaði að kenna Pilt og stúlku fyrir nokkrum árum átti ég engar glærur né fann á netinu. Ég henti loksins í glærur þetta misserið og deili þeim. Óþarfi að allir kennarar séu alltaf að vinna sömu vinnuna hvert í sínu horni😉 Hlaðið niður, breytið og bætið að hentugleika.

Piltur og stúlka - glærur

sunnudagur, október 10, 2021

Algildur og skilyrðislaus réttur

 Núna um helgina hefur fólk farið hamförum vegna meintra svika og hnífa- og/eða sveðjustungna Birgis Þórarinssonar gagnvart stuðnings- og flokksfólki Miðflokksins. Þegar bent er á að annað eins hefur nú gerst þá er það allt annað mál. Helst vegna þess að þeir flokksflakkarar fóru á miðju kjörtímabili eða flokkurinn þeirra "sveik" málstaðinn. Við það fólk sem slíku heldur fram er aðeins eitt að segja: Þið eruð hræsnarar.

48. grein Stjórnarskrár lýðveldisins Íslands er svohljóðandi:


 48. gr.
 Alþingismenn eru eingöngu bundnir við sannfæringu sína og eigi við neinar reglur frá kjósendum sínum.
 … 1)

Það er enginn fyrirvari settur um tíma, meint svik flokksins né neitt annað. Alþingismenn eru aðeins og eingöngu bundnir eigin sannfæringu. Engu öðru. Engum tímaskilyrðum, engum siðareglum, engu nema eigin sannfæringu. Ef sannfæring þeirra er sú að þeirra hag sé betur borgið í öðrum flokki þá dugir það. Hafi sannfæring þeirra sagt þeim það fyrir kosningar þá skiptir það engu máli. Kannski hægt að fara í hártoganir þess efnis að viðkomandi hafi ekki verið orðin/n Alþingismaður fyrir kosningar og þ.a.l. bundinn af almennum siðareglum en ég sé ekki þann möguleika í neinni alvöru.

Í mínum huga er Birgir Þórarinsson á engan hátt verri eða betri en aðrir flokkaflakkarar. Hins vegar finnst mér þetta flokkaflakk almennt og yfirleitt fyrir neðan allar hellur. Fólk kýs flokka, hvað sem hver segir, og flokkurinn á sætið. Það verður fróðlegt að sjá hvernig staða varamanns Birgis verður túlkuð þurfi varamaðurinn að taka sæti. Birgir segir að Erna fylgi sér í Sjálfstæðisflokkinn. Geri hún það hlýtur hún að falla af lista Miðflokksins og þar með út sem varamaður.

Að lokum þætti mér langbest ef allir þingmenn færu eftir eigin sannfæringu og styddu góð mál en færu ekki eftir flokkslínum. Ég held nefnilega að það sé hugsunin á bak við þetta ákvæði.





mánudagur, mars 29, 2021

Blikar á ljáinn

Æviveginn arkar hrund,
ellin handan bíður.
Langt í hennar lokastund
Lofar aldur þýður.

Lífið allt hið ljúfast er.
Lægðir þó á köflum.
Veginn stundum skrattinn sker,
skakar illum öflum.

Tröllum birginn bauð og hló.
Barðist eins og fjárinn.
Litlar skeinur skapar þó,
skreppa fram þá tárin.

Allt í einu skrugguský.
Skelfur allt af ótta.
Tættur vegur, drulludý.
Dregið fyrir flótta.

Fellur kona´á fætur sér,
finnur kaldan náinn.
Undir kufli beinin ber.
Blikar nótt á ljáinn.

Skekur skelfing líf og sál,
skuggar fylla hjarta.
Vona’ og drauma brennur bál,
beiskum tárum skarta.

Móðir óttast, örvingluð.
Allar bænir biður:
“Leyfðu mér að lifa, guð
Ljóstu meinsemd niður.”

sunnudagur, janúar 10, 2021

161 fm einbýlishús, 1/3 í kúabúi og gistikot til sölu á 73,5 milljónir

Fasteignasalan Byggð. 

Vegna aðstæðna viljum við selja fallega einbýlishúsið okkar í sveitinni. Húsið er byggt 2010, 161 fm steypt. Fjögurra herbergja. Samliggjandi stofa og eldhús. Tvö baðherbergi.

Búið er aðallega kúabú/mjólkurbú með ýmsum aukaverkefnum. 

Einnig er hægt að fá lítið gistikot sem stendur við húsið og gefur ágætar tekjur. 

Húsið er í leigu með góðum og skilvísum leigjendum.


Fyrir liggur nýlegt verðmat á öllum eignum sem og skýrsla um rekstur búsins.

Þessar eignir seljast saman.


Vert er að benda á að skv. Reiknilíkani byggingarkostnaðar kostar rúmar 80 milljónir að byggja 161 fm hús í dag.


Vinsamlegast hafið samband við Martein ef áhugi er fyrir hendi, hann veit allt um búreksturinn.

GSM 893-3611

Email marteinngunnars@gmail.com












Færsla Lögreglunnar á Norðurlandi eystra

Það mun mér hæfara fólk fjalla um þessa færslu Lögreglunnar á Norðurlandi eystra en það eru nokkrir hlutir í þessu sem mig sem almennur áhor...