Skrifað 2020 og sent til sveitarstjóra Þingeyjarsveitar sem hefur ekki enn svarað erindinu.
Til þess er málið
varðar.
Þannig er mál með vexti að eiginmaður minn, Marteinn Gunnarsson, á 1/3 í
Hálsbúi ehf. sem er að Hálsi. Búið á hann með tveimur bræðra sinna. Árið 2010
byggðum við hjónin einbýlishús á Hálsi og skuldsettum okkur í kjölfarið.
Fyrir þremur árum komu upp leiðindi sem leiddu til þess rúmu ári seinna að
Marteinn hætti að vinna á búinu. Til að sjá fyrir okkur og börnum okkar stundum
við vinnu utan heimilis og einnig höfum við rekið ferðaþjónustu í gegnum
miðilinn Airbnb. Airbnb vinnur eftir svokölluðu umsagnakerfi og stjörnugjöf.
Því hærri einkunn sem gestgjafi fær því hærra lendir hann í leitarniðurstöðum.
Því hærra sem eignin lendir í leitarniðurstöðum því líklegra er að hún sé
bókuð. Þetta veit starfandi bóndi, hann hefur sjálfur verið með eign inni á
síðunni.
Við áttum okkur að sjálfsögðu á að bændur heyja um sumur og stundum verður
veðurs vegna að vinna lengi fram eftir til að ná inn heyjum. Það er sjálfsagt
að taka tillit til slíks. En starfandi bóndi á Hálsi hefur tekið upp það
vinnulag að byrja heyskap fjærst húsi okkar og enda næst því. Á heyskapartíma
er því iðulega unnið í kringum húsið okkar eftir 22:00 á kvöldin. Þann 11. júlí
síðastliðinn var rúllað niðri á túnum fram undir eitt um nóttina. Þessu verki
fylgdi mikill hávaði.
Þegar borinn er skítur á tún þá vill svo til í 95% tilvika að vindáttin
stendur á húsið okkar. Þá þarf einnig að bera skítinn á túnin langt fram eftir
kvöldi. Fyrir þá sem ekki þekkja til þá þarf að hræra í skítnum sem er gert með
dráttarvél og er því dráttarvél drynjandi allan daginn langt fram á kvöld í 120
metra fjarlægð frá húsinu okkar.
Í þann 18. júlí voru gestir í öllum herbergjum. Hér lá megn skítafýla yfir
húsið, dráttarvélin drynjandi og keyrt fram og til baka á annarri dráttarvél
fram til 23:00 . Ég tel nokkuð ljóst að einkunnin verði ekki góð.
Við áttum okkur á að við búum á miðri bújörð. Undir öllum venjulegum kringumstæðum myndi
starfandi bóndi taka tillit til okkar starfsemi rétt eins og við tökum tillit
til hans. En hér eru ekki venjulegar kringumstæður. Þetta gerist ekki óvart.
Þann 26. maí sl. héldum við upp á átta ára afmæli sonar okkar. Skólafélagar
hans komu og léku sér úti enda ágætt veður. Skítatraktorinn var drynjandi í
þessa þrjá tíma sem afmælið varði og gaus upp megn skítagasfýla sem lagði yfir
húsið. Vert er að taka fram að í þetta skipti varði þessi vinna aðeins í þessa
þrjá tíma. Þá var borið á túnið næst húsinu, sama tún og var borið á daginn
áður.
Er þá ótalið þegar hljóðvörn að kornþurrkara var stöðugt færð frá og kýrhræ
var látið liggja á hlaðinu í beinni sjónlínu allan daginn.
Spurningar mínar eru því: Gilda einhverjar reglur um hávaða í dreifbýli?
Gilda óskráðar reglur grenndarréttar ekki í dreifbýli? Hvert get ég snúið mér til að fá
úr þessu skorið?
Engin ummæli:
Skrifa ummæli