þriðjudagur, september 20, 2022

Flokkur (karl)fólksins á Akureyri

 Það leynir sér ekki að kvenfyrirlitning og karlremba lifa góðu í Flokki fólksins á Akureyri. Þrjár konur hafa sagt frá óviðunandi hegðun og framkomu karla innan flokksins. Þær séu sagðar vitlausar, geðveikar og svo rógbornar. Hvernig bregðast þeir við? Jú, þeir segja að þær séu vitlausar, geðveikar og rógbera þær.

Við skulum byrja á grein Brynjólfs og Jóns. Strax í fyrirsögninni segja þeir að þær ljúgi:

Konurnar segja ósatt og varaformaðurinn lætur hafa sig að fífli - Vísir

Á þessum trúnaðarfundum hafa þær aldrei – við undirstrikum aldrei – verið lítilsvirtar, hvað þá kallaðar vitlausar eða geðveikar. Þvert á móti hafa þar allir setið við sama borð, verið jafningjar, og þær ekki síður en undirritaðir haft orðið.

Upplifun kvennanna er fullkomlega hunsuð. Þetta er rangt hjá þeim. Upplifun karlanna er rétt. 

Það hvessti hins vegar þegar umræðan hófst um tilraun hennar og stallsystra til að hrekja Brynjólf úr bæjarstjórn. Sem að vísu átti að gerast undir yfirskini mannkærleika. Semja átti „tilmæli“ þar sem Brynjólfur væri hvattur til að taka sér veikindaleyfi sem hafði þó aldrei verið borið undir hann sjálfan, er hann þó læknir að mennt.


Hvað kemur svo seinna fram

„Hann sagði í upp­hafi að hann myndi ekki sitja út tíma­bilið. Kannski í tvö ár og skipta svo við Mál­fríði. Svo ger­ist það fyr­ir tveim vik­um að hann fékk fyr­ir hjartað þannig að hann lét okk­ur vita að hann yrði núna að hætta.

Svo kom í ljós að þetta var ekki al­var­legt þannig að hann lét okk­ur vita á fundi að þetta hafi ekki verið neitt al­var­legt svo hann myndi halda áfram. 


Brynjólfur, sem sagðist ekki ætla að sitja allt kjörtímabilið (forsendur sem eru gefnar í upphafi) fær fyrir hjartað  (er veikur) og segist ætla að hætta! En svo kemur upp úr dúrnum að þetta var bara oggóponsu hjartaáfall svo hann hættir við að hætta. Væri Brynjólfur kona þá gæti einhverjum dottið í hug að segja hann óákveðinn. Jafnvel sakað hann um að segja ósatt. En alveg klárlega hjartveikur.

Hvað varðar meint ofbeldi þá er það tittlingaskítur. Maðurinn barði bara í borðið!

Þá barði Jón í borðið og heimtaði ákveðið svar.

Þetta er allt „ofbeldið“ sem þessar konur geta mögulega kvartað undan.

Karlar eru líkamlega sterkari en konur. Það er óumdeilt. Sagan er uppfull af ofbeldi karla gegn konum. Konur óttast ofbeldi karla. Spurðu hvaða konu sem er. Maðurinn sem rýkur upp í reiði og ber í borðið er að beita óttastjórnun. Hann er að láta þessar konur vita hvað hann getur gert. Og þær vita það. Við vitum allar hvað karlar geta gert. Já, þetta er ofbeldi.

Svo kemur að "bréfinu." 

Hvað varðar bréf oddvitans sem þær nefna og segja „hlaðið rógburði“ og öðrum ófögnuði þá höfum við skorað á þær að tilgreina allar þær „rangfærslur“ og „hótanir“ sem þar er að finna en ekki fengið svar.

Til er pólitísk taktík sem er kölluð "Let the bastards deny it". Útskýrð ágætlega hér. 

Þá gera þeir mjög lítið úr frásögnum kvennanna um kynferðislegt áreiti. 

Að lokum um hið „kynferðislega áreiti“ sem „sumar okkar“ hafa orðið fyrir svo vitnað sé beint í skrif kvennanna. Okkur setur einfaldlega hljóða við þessi orð og áleitin spurning situr eftir: Hversu lágt getur mannskepnan lagst til að koma höggi á náunga sinn?

Þær eru að ljúga bara svona ef einhver skilur ekki ásökunina. Sennilega af því þær eru svo geðveikar. En hvað kemur svo í ljós? Jú, konurnar halda blaðamannafund og gera betur grein fyrir reynslu sinni og upplifun.  Þannig að þeir eru ekki mennirnir sem hafa sýnt af sér kynferðislega áreitni. Enda var það aldrei sagt. En þeir tóku frásögnina og dæmdu hana ekki bara ómarktæka heldur illkvittna lygi. Já, það er eðlilegt að fólk spyrji hversu lágt (karl)mannsskepnan getur lagst til að koma höggi á náunga sinn.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Færsla Lögreglunnar á Norðurlandi eystra

Það mun mér hæfara fólk fjalla um þessa færslu Lögreglunnar á Norðurlandi eystra en það eru nokkrir hlutir í þessu sem mig sem almennur áhor...