Við erum fjögurra manna fjölskylda með húsnæðislán. Við höfum aldeilis fundið fyrir hækkun matvæla og olíuverðs. Við finnum svo sannarlega fyrir hækkun stýrivaxta Seðlabankans.
Mér er sérstaklega
minnistætt þegar Seðlabankastjóri hóf stýrivaxtavegferð sína þá talaði hann um
að það hefðu orðið hækkanir á öllu og alveg sérstaklega á húsnæði og það yrði
að sporna við þessari verðbólgu, m.a. fór hann fram á það við aðila vinnumarkaðarins
að halda að sér höndum við launahækkanir. Bíddu, ha?! Það er allt að hækka og
það er allt í lagi nema hvað að launin mega ekki hækka. Hvernig eigum við að
hafa efni á öllum þessum hækkunum ef launin hækka ekki með?
Og tökum alveg
sérstaklega eftir þessu: Það er hægt að hafa hemil á launahækkunum. Af
hverju er ekki hægt að hafa hemil á verðhækkunum?
Á þessum tímapunkti
var farin að sveima um í höfðinu á mér eftirfarandi spurning: Þarf þetta að
vera svona?
Rétt fyrir jól
skall svo á frétt um fyrirhugaða leiguhækkun hjá Ölmu leigufélagi. Allir ruku
upp til handa og fóta og voru voða hneykslaðir, líka fyrirmenn í
ríkisstjórninni. Þá kom nýtt hugtak; leiguþak.
Það er sem sagt
hægt að hafa hemil á launahækkunum og það er hægt að setja þak á leigu (það er
samt ekki gert) en það er ekki hægt að hafa hemil á verðhækkunum? Vitiði, ég
trúi þessu ekki. Ég er orðin fullkomlega sannfærð um að þetta þurfi ekki að
vera svona.
Það er talað um
Covid-faraldurinn og stríðið í Úkraínu
sem torveldi aðföng. Það er talað um markaðinn sem sveiflast upp og
niður. Núna skulum við aðeins staldra við. Það er talað um þessa hluti eins og
eitthvert náttúruafl sem verði ekki við ráðið. Við skulum hafa eitt alveg á
kristaltæru: Á bak við hverja einustu verðhækkun er ákvörðun sem einhver
einstaklingur tók. Þetta er allt saman mannanna verk.
Ég veit að Ísland
er lítið land og hefur ekki mikla stjórn í ólgusjó umheimsins. Þegar
heimsmarkaðsverð hækkar á olíu þá er þarf auðvitað alveg bráðnauðsynlega að
hækka verðið á olíunni strax hér, líka olíuna á tönkunum sem var keypt á gamla
verðinu. Það hins vegar svo merkilega til að þegar heimsmarkaðsverðið lækkar þá
lækkar verðið hér ekki að sama skapi.
Það eru eigendur fyrirtækisins
Ölmu sem ákváðu að hækka leiguna. Það er fólk sem ákveður að hækka verðið, það
er fólk sem ákveður að búa við þetta mannfjandsamlega markaðshagkerfi. Þetta
þarf ekki að vera svona.
Hvaðan kemur þessi
aukna arðsemiskrafa? Af hverju þurfa fyrirtæki að græða meira í ár en í fyrra? Af
hverju mega fyrirtæki ekki bara bera sig? Af hverju er það ekki nóg? Af hverju
þarf að hækka verðið á álegginu til þess að eigendur matvöruverslana græði auka
hundrað milljónir?
Fyrir fólk sem á milljón
trilljón billjónir þá skipta hundrað milljónir engu máli til eða frá. Þessar
verðhækkanir skipta hins vegar talsvert miklu máli fyrir okkur hin.
Þetta er mannhatur
og græðgi.
„Ég er búinn að fylgjast með þessu þjóðfélagi í 50 ár. Þetta er ógeðslegt þjóðfélag, þetta er allt ógeðslegt. Það eru engin prinsipp, það eru engar hugsjónir, það er ekki neitt. Það er bara tækifærismennska, valdabarátta.“
Úr skýrslu Styrmis Gunnarssonar fyrir rannsóknarnefnd Alþingis 1. október 2009, bls. 1-2.
Þetta breytist ekki á minni lífstíð en ég vona að þetta breytist í framtíðinni.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli