föstudagur, júlí 14, 2023

Kristófer Torfdal og orðræðan

Raunveruleikinn er skrítin skepna. Hann fer nefnilega algjörlega eftir túlkun. Fátt getum við hugsað okkur hryllilegra en barnsmorð en engu síður báru forfeður og mæður okkar út börn í unnvörpum. Það var gert til að hin börnin hefðu möguleika á að lifa. Túlkunaratriði. 

Túlkun raunveruleikans fer fram með orðum, sá sem ræður orðræðunni eða narratívinu á vondri íslensku ræður raunveruleikanum. Við höfum auðvitað séð þetta margoft, orðræða karla hefur meiri hljómgrunn en orðræða kvenna, orðræða ríkra hefur meiri hljómgrunn en orðræða fátækra. Ég nenni ekki að tína til dæmi enda alþekkt. Halldór Laxness vissi þetta auðvitað eins og flest annað. Hafi ég ekki sagt það áður þá vil ég endilega koma því á framfæri nú; pabbi minn hélt því fram að það væri ekkert í mannlegu samfélagi sem Laxness hefði ekki fjallað um í bókum sínum.  





Ég hef kennt
Sölku Völku nokkrum sinnum og því lesið hana alloft. Salka Valka var skrifuð 1931 (Þú vínviður hreini) og 1932 (Fuglinn í fjörunni) og það kemur mér alltaf jafnmikið á óvart hversu mjög bókin kallast á við samtíma okkar. Í vetur kallaðist verkalýðsbaráttan á Óseyri við Axlarfjörð ákaflega á við verkalýðsbaráttu Eflingar í Reykjavík nútímans. 

Orðræðan um Sólveigu Önnu rímaði á stundum ískyggilega við orðræðuna um Kristófer Torfdal, æstasta bolsévika Íslands, í bókinni. 

Laxness byggði Kristófer Torfdal úr tveimur samtímamönnum sínum; annars vegar Ólafi Friðrikssyni ritstjóra og hins vegar Jónasi Jónssyni frá Hriflu.  


Kristófer Torfdal er fyrst nefndur til sögu í Fuglinum í fjörunni þegar Guðmundur Jónsson kadett biður Sölku um að lesa yfir bréf sem hann hefur skrifað til konungsins til að biðja um fjárstyrk. Það má til gamans nefna að Guðmundur kadett trúir því að guð ráði stéttaskiptingunni í heiminum (bls. 225) en Salka heldur að hún sé náttúrulögmál (bls 311). Nú hengjum við okkar á að hæfni ráði. Allt er þetta vitlaust en gott dæmi um hvernig við reynum að rökstyðja raunveruleikann í kringum okkar. Arnaldur Björnsson veit að ekkert er ljótara en fátæktin (bls 310).  


En aftur að Kristófer Torfdal. Það ganga um hann ýmsar sögur, m.a. sú að hann héldi alls konar villidýr á heimili sínu sem ætti seinna að hleypa út í byltingunni. 




Múgsefjunin verður slík að nokkrir piltar brjótast inn og hleypa dýrunum út. Þá kemur í ljós að óargadýrin miklu voru hrafnar og tófur. 




Það kemur m.a.s. upp úr dúrnum að Kristófer Torfdal er vísindamaður sem var að gera tilraunir.



Þetta þykir mér gott dæmi um hvernig orðræða stjórnar skynjun okkar og býr til eitthvað sem við höldum að sé raunveruleikinn. (Hellakenning Platós, anyone?) Kristófer Torfdal var hættulegur maður, um það þarf ekki að deila. Hann ógnaði þeim stöðugleika sem ríkti og þá fyrst verða valdhafar vitlausir þegar fjármagnið á að færast í annarra hendur. Þannig að orðræðan verður öll hin ýktasta og er til þess gerð að halda völdum og fjármunum í réttum höndum.

En Laxness vinur minn hann vissi líka að byltingin færir völdin aðeins á milli þeirra ríku þótt hinum fátæku blæði. Jóhann Bogesen er fulltrúi auðvaldsins og sá sem Kristófer og sérstaklega Arnaldur hafa barist gegn.

  


 Kristófer Torfdal, æstasti bolséviki landsins, er nefnilega ekki bolséviki fyrir fimm aura.



Orðræðan er svo oft einfeldningsgildra.



Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Færsla Lögreglunnar á Norðurlandi eystra

Það mun mér hæfara fólk fjalla um þessa færslu Lögreglunnar á Norðurlandi eystra en það eru nokkrir hlutir í þessu sem mig sem almennur áhor...