miðvikudagur, júlí 17, 2024

Heilaga vandlætingin

 Fyrir nokkrum árum síðan setti ég fyrirspurn inn á Turn-it-in grúppu á Facebook. Turn-it-in er forrit sem við kennarar notum til að sjá hversu mikið nemendur nota af vefnum eða verkefnum annarra nemenda í sínum verkefnum. Þetta var fyrir tíð opinnar gervigreindar. Fyrirspurnin snerist um hvort ég gæti stillt forritið þannig að það tæki ekki við verkefnum sem færu yfir 30% í líkindum (sem sagt að meira en 30% kæmu frá öðrum en nemandanum sjálfum). Þetta var í rauninni já eða nei spurning með rökstuðningi. Já, það er hægt og er gert svona... Nei, það er ekki hægt og ég veit það af því að...

Fljótlega fékk ég "svar" frá manni. Hann hafði enga hugmynd um hvort þetta væri hægt, hins vegar vildi hann fá að vita af hverju ég vildi geta gert þetta. Honum fannst líka 30% frekar lítið svigrúm. Allt í lagi, honum má vissulega finnast það, ég var bara ekki að biðja um hans skoðun á þessu. Þetta var 100% tæknileg spurning ekki heimspekileg. Ég man ekki hvort ég svaraði þessu en ég man að þetta fór í taugarnar á mér. Hélt maðurinn virkilega að mér hefði allt í einu dottið þetta í hug bara si sona? Ég hafði að sjálfsögðu velt þessu fyrir mér og það var að sjálfsögðu ástæða fyrir því að ég vildi geta gert þetta.


Nýverið var ég að reyna að fá son minn til að hlaða rafmagnshlaupahjólið sitt. Þá fór ég að hugsa hvernig boðhátturinn af sögninni að hlaða væri. Mér fannst líklegast að hann væri -hladdu- en fannst það eitthvað skrítið. Á Facebook er skemmtileg grúppa sem heitir Málspjallið og hægt að fá svör við íslenskutengdum spurningum. Ég set inn spurningu með, að ég hélt, gamansömum hætti. Ég þyrfti sem sagt að skipa stráknum að hlaða hjólið og vantaði boðháttinn. Ég fékk mörg svör, flest gamansöm og mörg þar sem fólk velti fyrir sér spurningunni af alvöru. Niðurstaðan er sú að að -hladdu- er rétt mynd. Eitt svarið var á þá leið að líklega væri boðhátturinn svona eða hinsegin en svo bætti viðkomandi við: "...en ég tala aldrei við fólk í boðhætti." Ókey... gott hjá þér...🙄


Þetta er mjög algengt á samfélagsmiðlum (skal viðurkennt að ég nota aðallega Facebook). Fólk er að spyrja um eitthvað eða velta einhverju upp og fyrr en varir er fullkomna og heilaga fólkið mætt: "Ég myndi sko aldrei..." 
Það er farið að gerast æ oftar núna á mínum efri árum að mér dettur í hug að svara en hætti svo við. Ég les aðrar athugasemdir og læka kannski þá sem ég er sammála. Og stundum skrolla ég bara áfram uppfull af sjálfumgleði yfir því hvað ég er þroskuð😉





Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Færsla Lögreglunnar á Norðurlandi eystra

Það mun mér hæfara fólk fjalla um þessa færslu Lögreglunnar á Norðurlandi eystra en það eru nokkrir hlutir í þessu sem mig sem almennur áhor...