Fyrir nokkrum árum síðan setti ég fyrirspurn inn á Turn-it-in grúppu á Facebook. Turn-it-in er forrit sem við kennarar notum til að sjá hversu mikið nemendur nota af vefnum eða verkefnum annarra nemenda í sínum verkefnum. Þetta var fyrir tíð opinnar gervigreindar. Fyrirspurnin snerist um hvort ég gæti stillt forritið þannig að það tæki ekki við verkefnum sem færu yfir 30% í líkindum (sem sagt að meira en 30% kæmu frá öðrum en nemandanum sjálfum). Þetta var í rauninni já eða nei spurning með rökstuðningi. Já, það er hægt og er gert svona... Nei, það er ekki hægt og ég veit það af því að...
Fljótlega fékk ég "svar" frá manni. Hann hafði enga hugmynd um hvort þetta væri hægt, hins vegar vildi hann fá að vita af hverju ég vildi geta gert þetta. Honum fannst líka 30% frekar lítið svigrúm. Allt í lagi, honum má vissulega finnast það, ég var bara ekki að biðja um hans skoðun á þessu. Þetta var 100% tæknileg spurning ekki heimspekileg. Ég man ekki hvort ég svaraði þessu en ég man að þetta fór í taugarnar á mér. Hélt maðurinn virkilega að mér hefði allt í einu dottið þetta í hug bara si sona? Ég hafði að sjálfsögðu velt þessu fyrir mér og það var að sjálfsögðu ástæða fyrir því að ég vildi geta gert þetta.
Þetta er mjög algengt á samfélagsmiðlum (skal viðurkennt að ég nota aðallega Facebook). Fólk er að spyrja um eitthvað eða velta einhverju upp og fyrr en varir er fullkomna og heilaga fólkið mætt: "Ég myndi sko aldrei..."
Engin ummæli:
Skrifa ummæli