Það er tvennt sem heyrir til algjörra nauðsynja í lífinu, þ.e. gott rúm og góðir skór. Svo eru ákveðnir hlutir sem eru bónus, eins og t.d. góðar bækur, góð tónlist og gott rauðvín. En eftir því sem árin líða og þyngdaraflið hefur meiri áhrif þá hef ég kmist að því að hinum algjöru nauðsynjum fjölgar. Góður brjóstahaldari er t.d. algjört must. Þótt ég sé feministi þá hef ég aldrei getað gengið um brjóstahaldaralaus. (Eftir kynþroskaaldur, þ.e.a.s.) Skil heldur ekki alveg frelsið í því að júllast út og suður og fá glóðarauga á bæði ef manni verður það á að hlaupa á eftir strætó. Hér áður fyrr lét ég mér það nægja að kaupa brjóstahaldara í Hagkaupum og svona hér og þar eftir því sem efni stóðu til. En svo fór ég að taka eftir ýmsum óþægindum. Einu sinni hélt ég að ég væri komin með krónískan bronkítis þegar ég hafði keypt of lítinn brjóstahaldara og hann var búinn að skerast í gegnum fitulagið og þrýsta rifbeinunum upp í lungun. Og ef skálarnar eru of litlar þá hoppar þetta upp úr og maður fær fjögur brjóst. Ef hann er ekki úr almennilegu efni þá er hann ónýtur eftir 50 þvotta. (Já, mér finnst að flíkur megi endast í meira en eitt ár.) Ef böndin eru of mjó þá skerast þau ofan í axlirnar á manni. Ef það er ekki spöng undir skálunum þá á sér stundum stað hinn laumulegasti flótti.
Til að kóróna allt saman þá fékk ég í hittífyrra fékk hinn undarlegasta vaxtakipp. Allir brjóstahaldararnir mínir urðu skyndlega of litlir. Buxurnar þrengdust ekki og vigtin varð ekki andstyggileg svo ég var ekki að fitna. (Í þetta skiptið.) Einn daginn laumaðist ég inn í Lífstykkjabúðina og var mæld. Var ég þá búin að vaxa um eitt númer og eina skálastærð. Þar fjárfesti ég í alvöru brjóstahöldum, þrjár nælur á bakinu svo hann rúllist ekki upp og skerist inn í mann og steypustyrktarjárn í spöngunum. Svo núna get ég gengið um ómeðvituð um ósköpin framan á mér.
Hvað viðkemur þessum undarlega vaxtakipp þá voru systur mínar með sitthvora kenninguna. Stóra systir hélt að skrokkurinn væri orðinn langþreyttur af karlmannsleysi og væri að grípa til sinna ráða til að laða að sér karlmenn. Litla systir hélt að skrokkurinn væri að benda mér á að ég væri kvenkyns og ætti að eignast börn. Að brjóstin væru að segja við mig: ,,Við erum hér af ástæðu." Ég veit ekki alveg hvað ég á að halda um þetta.
fimmtudagur, desember 12, 2002
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Færsla Lögreglunnar á Norðurlandi eystra
Það mun mér hæfara fólk fjalla um þessa færslu Lögreglunnar á Norðurlandi eystra en það eru nokkrir hlutir í þessu sem mig sem almennur áhor...
-
Ég birti hér nokkrar færslur af Facebook, lítillega uppfærðar. I. Framboðið sjálft. Af því að fólk hefur verið að lýsa undrun sinni á þeir...
-
Fyrir nokkrum árum síðan setti ég fyrirspurn inn á Turn-it-in grúppu á Facebook. Turn-it-in er forrit sem við kennarar notum til að sjá hv...
-
Það mun mér hæfara fólk fjalla um þessa færslu Lögreglunnar á Norðurlandi eystra en það eru nokkrir hlutir í þessu sem mig sem almennur áhor...
Engin ummæli:
Skrifa ummæli