mánudagur, júní 27, 2005

Notre Dame - Sacré Coeur
Sunnudagur 19. júní. Dagur IV

Okkur fannst alveg tilvalið að eyða sunnudeginum í kirkjur og ákváðum því að fara í Notre Dame og Sacré Coeur. Þrátt fyrir að hafa verið frekar syfjaðar og komið okkur seint af stað þá náðum við í messu í Notre Dame. Það var talsvert merkileg upplifun þótt við séum ekki katólskar og skildum lítið sem ekkert í frönskunni. Við gengum m.a.s. til altaris. Kirkjan er stórfengleg og það er svo margt í henni að maður grípur það einhvern veginn ekki allt saman. Þegar við fórum út þá gengum við gegnum röð upp í turninn en vorum ekki alveg vissar hvort við vildum fara upp eða ekki. Eftir að hafa sportað okkur aðeins á túristagötu rétt hjá og skoðað eftirmyndir af ufsagrýlum þá ákváðum við að kíkja upp. Stóðum heillengi í biðröð og kláruðum vatnið okkar í henni. Það voru mistök. Svo loksins komumst við inn og borguðum 7 evrur fyrir aðganginn. Man ekki alveg hvort það kostaði eitthvað minna eða ekkert fyrir stelpurnar enda skiptir það engu meginmáli. Hins vegar vorum við rétt komnar áleiðis upp í turninn þegar kom band þvert fyrir stigann og okkar skipað inn í einhvern smásal sem var bara minjagripaverslun. Jú, líka einhverjar upplýsingar um Victor Hugo og Hringjarann. Þá átti að vera þarna inngangur í herbergið sem Esmeralda hafði átt að vera í en aðgangurinn þangað var lokaður. Við vorum nett brjálaðar yfir þessu total rippoffi og náðum ekki upp í nefið á okkur. Reyndum samt að skoða þetta eitthvað til að fá eitthvað fyrir okkar snúð. En svo var okkur skipað út örstuttu seinna sem var ekki til að bæta skapið. Þá var búið að loka fyrir niðurleiðina og okkur beint upp. Úpps. Þar með batnaði lífið og tilveran til mikilla muna og við komumst út á svalir í Notre Dame og sáum hinar raunverulegu ufsagrýlur. (Ég linka bara myndir af netinu.) Þetta er flott dæmi og gaman að vera þarna uppi. Svo var hægt að fara alveg upp á Panorama og við fórum að sjálfsögðu. Eftir þessa heimsókn fékk ég mikla löngun til að sjá Hringjarann frá Notre Dame eftir Disney:)
Við töldum nú ekki tröppurnar þarna upp en þær voru maaargar og ég hefði gefið konungsríki mitt fyrir vatn þegar við komum niður. Við röltum í Latínuhverfinu aftur og fundum nú einhverjar bakstíga sem var mjög skemmtilegt. Ég fékk líka þann albesta íspinna sem ég hef á ævinni fengið. Gæti staðið í einhverju sambandi við þorstann.
Þá var farið af stað í Sacré-Coeur. Ég hef grun um að sú kirkja sé í aðeins verra hverfi en Frúarkirkjan, alla vega leist okkur svoleiðis á það. Þar þurftum við náttúrulega að labba upp á við, mér til mikillar gleði eða þannig. Þangað til við römbuðum á verslun og ég gat keypt 15 lítra af vatni. Þá varð ég aftur glöð.
Það er sama system hjá Sacré-Coeur eins og hjá Akureyrarkirkju, maður þarf að ganga hundrað þrep upp að henni. Veit ekki hvort þetta sé eitthvað í sambandi við að maður þurfi að þjást fyrir Guð. En þetta var allt í lagi, ég var svo vel vökvuð. Þarna náðum við aftur í messu en henni var að ljúka þegar við komum. Eftir að hafa skoðað útsýnið þá héldum við niður Signu til að fara í bátsferð. Draumurinn var að borða á siglingu en það klikkaði eitthvað svo við borðuðum í bát sem lá bundinn í höfninni. Það var dálítið mötuneytislegt. En svo komumst við á Signu eftir að hafa staðið í óskipulegri röð og það var mjög gaman að sigla fram og til baka í kvöldsólinni.

3 ummæli:

  1. Montmartre-hverfið (sem Sacré Coeur er í) þykir frekar fínt og eftirsótt af fólki sem er frægt og/eða ríkt. Þarna voru listamenn með vinnustofur sínar í gamla daga og iðandi skemmtanalíf. Fari maður út fyrir hverfið (sérstaklega í norður) þá lendir maður á vafasömum götum þar sem hægt er að kaupa eiturlyf, vændi, nú eða láta ræna sig.

    SvaraEyða
  2. Eftir að hafa lesið ferðasöguna þína langar mig SVO til Parísar. Gæti hugsað mér að taka dóttur mína með mér.

    SvaraEyða
  3. Já, við fórum úr lestinni talsvert fyrir neðan kirkjuna og þurftum að ganga.
    Mig langar líka aftur:)

    SvaraEyða

Færsla Lögreglunnar á Norðurlandi eystra

Það mun mér hæfara fólk fjalla um þessa færslu Lögreglunnar á Norðurlandi eystra en það eru nokkrir hlutir í þessu sem mig sem almennur áhor...