Við búum í samfélagi sem er mikið í því að afhelga og gera grín að embættum, stofnunum og hefðum. Það er svo sem ágætt. Það hefur enginn gott af því að vera hafinn yfir gagnrýni. Það hefði lítil þróun átt sér stað ef enginn hefði mátt gagnrýna. Hins vegar hefur mér alltaf þótt það mikilsverð regla í mannlegum samskiptum að hæðast ekki að því sem fólki er heilagt. Nú er ég ekki endilega að tala um trúarbrögð, það er ýmislegt annað sem fólki getur verið heilagt. Fjölskyldan, skoðanir, minningar svo eitthvað sé nefnt. Þannig að þótt maður sé ekki sammála eða þykir skoðunin jafnvel fáránleg þá hæðist maður ekki að því. Ekki vegna þess að skoðunin sé ekki fáránleg heldur vegna þess að þegar maður hæðist að einhverju sem er fólki heilagt þá er maður að hæðast að fólkinu. Hins vegar er hægt að gagnrýna og ræða hluti án þess að hæðast að þeim. Það er grundvallarmunur á því.
Ég skil það mjög vel að múslimum mislíki þessar skopmyndabirtingar enda voru þær algjörlega óþarfar. Ég skil það líka mjög vel að þeir mótmæli. Þessar myndbirtingar voru til þess eins að hæðast að múslimum. Hins vegar eru þessi viðbrögð gjörsamlega út úr kortinu. Það má vera minn vestræni hugsanaháttur en þessar skopmyndir eru strangt tiltekið smámál. Myndbirtingar af Múhammeð eru ekki nýtt fyrirbæri. Ég man eftir að hafa séð teikningu af spámanninum fyrir mörgum árum síðan og Málbeinið vísar á nokkrar. En vissulega eru þetta skopmyndir gerðar til þess að særa. Viðbrögðin eru samt ekki í neinu samræmi við glæpinn. Því hallast ég að þeirri skoðun að það séu einhverjir að kynda undir. Hvort sem það eru Vesturlandahatarar sem vilja stríð eða einhverjir hagsmunahópar sem geta grætt á þessum ósköpum. Ég set líka spurningarmerki við umfjöllun fjölmiðla um þetta mál. Getur verið að fréttaflutningurinn hafi gert þetta að meira máli en efni stóðu til?
miðvikudagur, febrúar 08, 2006
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Færsla Lögreglunnar á Norðurlandi eystra
Það mun mér hæfara fólk fjalla um þessa færslu Lögreglunnar á Norðurlandi eystra en það eru nokkrir hlutir í þessu sem mig sem almennur áhor...
-
Ég birti hér nokkrar færslur af Facebook, lítillega uppfærðar. I. Framboðið sjálft. Af því að fólk hefur verið að lýsa undrun sinni á þeir...
-
Fyrir nokkrum árum síðan setti ég fyrirspurn inn á Turn-it-in grúppu á Facebook. Turn-it-in er forrit sem við kennarar notum til að sjá hv...
-
Það mun mér hæfara fólk fjalla um þessa færslu Lögreglunnar á Norðurlandi eystra en það eru nokkrir hlutir í þessu sem mig sem almennur áhor...
Engin ummæli:
Skrifa ummæli