þriðjudagur, mars 21, 2006

Fyrir rúmum þremur mánuðum siðan pantaði ég boli frá Cafepress.com. Einhvern veginn æxlaðist það að einn bolurinn var sendur stakur. Ég fékk stærri pakkann, tollaðan og allt í orden. Svo fékk ég tilkynningu um staka bolinn en mér fannst tollurinn grunsamlega hár á einum bol. Þegar ég fór að grennslast um þetta kom í ljós að ég var tolluð aftur um alla upphæðina. Var því tekið til ráðs í samráði við Pósthúsið á Húsavík að senda bolinn aftur suður í endurmat. Síðan eru liðnir tveir mánuðir. Ég hringdi fyrir nokkru í þjónustuver Íslandspósts og talaði þá við ungan mann sem sagðist ætla að athuga málið. Ég sendi Tollmiðlun síðan email um verð bolnum upp á $12.99. Í dag ákveð ég að spyrjast aftur fyrir um bolinn og hringi í þjónustuver Íslandspósts. Svarar einhver kona. Ég segist hafa beðið lengi eftir þessu og hvað sé um að vera. Kemur upp úr dúrnum að sendingin er týnd. Jahá. Ég segi að mér finnist það nú ekkert voða sniðugt en er frekar svona brosandi yfir þessu. ,,Það er verið að vinna í þessu” svarar konan. Ég endurtek það að ég sé nú búin að bíða ansi lengi. ,,Já, þú varst búin að segja það. Það er verið að vinna í þessu.” Jájá. Ég er bara búin að bíða núna í tvo mánuði. Þau eru búin að týna sendingunni og það er ekki hægt að segja eins og t.d. ,,Okkur þykir þetta leitt” eða ,,afsakaðu þetta ónæði” eða eitthvað þvíumlíkt. Neinei. Ég er bara voða mikið að ónáða þau í vinnunni. Og svo voga ég mér að pirra þessa önnum köfnu konu með endurtekningum út af einhverju ómerkilegu eins og því að pósturinn er búinn að týna sendingu. Flokkast það ekki hreinlega undir afglöp í starfi? Þetta er svo sem ekkert stórmál fyrir mér þótt þessi bolur tefjist eitthvað á leiðinni en fólk í þjónustustarfi má alveg vera kurteist.

4 ummæli:

  1. Ég endurtek það sem ég skrifaði annars staðar út af öðru máli:
    Það á að leggja fram skriflega kvörtun, það er eina leiðin til að yfirmenn geti tekið á málunum með lélega starfsmenn.
    Kannski maður ætti að búa til síðu með stöðluðum kvörtunarbréfum sem fólk getur sótt og fyllt inn dags. og önnur smáatriði og prentað út? Þetta er nefninlega svo oft sama sagan, almennur dónaskapur og skortur á hógværð og þjónustulund.

    SvaraEyða
  2. Nafn þjónustuversins ætti að vera með gæsalöppum í yfirstærð!

    SvaraEyða
  3. Það er bara alltaf sama sagan með þjónustu Póstsins, eins og verið hefur frá árdögum þessa fyrirtækis (alveg sama hvort það heitir Póstur og Sími eða bara Pósturinn) - það hefur alltaf valist þangað hópur starfsmanna sem virðist hafa einstaklega vel þjálfað önuglyndi, þvermóðsku og pirring í garð náungans og þá sérstaklega viðskiptavini fyrirtækisins. Við eigum bara að bukka okkur og beygja fyrir því að einhver skuli "nenna" að halda uppi (nokkuð) stöðugu póstsambandi á þessu skeri.
    Hér er eitt fáránlegt dæmi og snertir reyndar ekki póstsendingar eða tollafgreiðslu, aðeins þjónustulund og góðmennsku: Ég þurfti að fara á póstafgreiðslu til að ganga frá reikningi og neyddist til að taka annan drenginn, þá 3 ára og nýhættur með bleiu, með mér. Löng röð hafði myndast og hreyfðist hægt. Þegar við vorum komin um miðbik raðarinnar tilkynnti drengurinn að hann þyrfti að pissa. Nú voru góð ráð dýr, því yfirleitt leið ekki löng stund frá slíkri tilkynningu þar til losun þurfti að hefjast. Ég taldi þó auðvelt að bjarga málum því við vorum, jú, innandyra á stórum vinnustað þar sem salerni væru líklega í nokkrum eintökum. Ég vatt mér að næsta afgreiðsluglugga og spurði hvort ég gæti fengið að komast með drenginn á salerni því hann mundi annars pissa á sig. Nei, var svarað með ákveðinni röddu. Hér er almenningi ekki hleypt á salerni.
    En hann er bara 3 ára og nýhættur með bleiu, annars pissar hann bara á gólfið hérna hjá ykkur! sagði ég í örvæntingu.
    Nei, þetta eru bara reglur hér, hreytti hún út úr sér.
    Ég ákvað að freista þess að láta hann halda í sér því röðin var fljótlega komin að okkur og ég gat ekki hugsað mér að láta allan þennan biðtíma fara í súginn.
    En ekki leið löng stund þar til ég heyrði kunnuglegt "sullhljóð" í námunda við mig - drengurinn var auðvitað búinn að pissa á sig og yfir allt gólfið við afgreiðsluborðið. Ég fór aftur að sama afgreiðsluglugga og áður og tilkynnti konunni að nú hefði spá mín ræst, hann væri búinn að pissa á gólfið og nú vantaði okkur eitthvað til að þurrka upp eftir hann. Það vottaði ekki fyrir samviskubiti þegar hún fór nauðug af stað inn á klósett (sem var þarna rétt við afgreiðsluna) og kom aftur með bunka af bréfþurrkum sem hún slengdi á borðið hjá mér. Ég þurrkaði samviskusamlega allt upp af gólfinu, slengdi blautu bréfinu á borðið fyrir framan hana, þakkaði pent fyrir frábæra þjónustu og rauk út með barnið.
    Ég held ég hafi sjaldan orðið jafn reið á ævi minni...

    SvaraEyða
  4. Guð minn góður, það eru greinilega engin takmörk! Rosalega var það gott hjá þér að slengja blautu bréfunum á borðið hjá henni:)

    SvaraEyða

Færsla Lögreglunnar á Norðurlandi eystra

Það mun mér hæfara fólk fjalla um þessa færslu Lögreglunnar á Norðurlandi eystra en það eru nokkrir hlutir í þessu sem mig sem almennur áhor...