sunnudagur, ágúst 03, 2008

Undarlega mikil traffík

Það er linkað á mig úr ýmsum áttum og ýmislegt sagt. Það er ágætt. Bara nokkur atriði sem ég vil að séu á hreinu.
Ég er fædd og uppalin í Reykjavík og bjó þar fyrstu 35 ár ævinnar. Þá flutti ég út á land og bý í nágrenni Húsavíkur. Svo ég veit bæði hvernig það er að búa í Reykjavík og úti á landi. Það er mjög gott að búa hér. Það er ekki allt á heljarþröm.
Hins vegar vantar okkur fólk. Fólk nefnilega skapar líka vinnu.
Álverið á Bakka er ekki til að skapa atvinnu fyrir heimafólk. Ef heimafólk fer þangað í vinnu þá vantar fólk í aðra vinnu á Húsavík. Mínar spekúlasjónir snúast um hvernig við fáum annað fólk hingað á svæðið.
Mér er fullkomin alvara með Listaháskólann. Það á hvort sem er að byggja nýtt hús. Það getur ekki verið mikið dýrara að byggja það á Húsavík en í Reykjavík. Einhvern tíma var sett sú stefna að flytja opinbera starfsemi út á land. Það hefur ekki gengið eftir. Hvað eru margir Háskólar í Reykjavík? Ef einhver iðja er ekki staðbundin þá er það list. Settar hafa verið upp andstæðurnar listamenn vs. landsbyggð. Nú er kjörið tækifæri til að slíðra sverðin. Að flytja út á land er náttúruvernd í verki.
Og, Guð minn góður, þetta er fallegasti staður á jarðríki!

7 ummæli:

 1. Ónei, hrædd er ég um að það gangi ekki að fara með Listaháskólann út úr bænum. Í honum eru um 400 kennarar, sem að langmestu leyti eru stundakennarar, kenna jafnvel bara einn og einn kúrs. Ekki mun ég flytja norður fyrir 30% stöðu og það eru talsvert margir sem kenna miklu minna en ég. Sorrí. Í tónlistardeild einni kennir mjög margt fólk sem hefur aðalviðurværi af því að spila í Sinfóníuhljómsveit Íslands, væntanlega flytjum við hana ekki á Húsavík - ásamt áheyrendum?

  Ekki alveg hugsað til hlítar. Háskólinn á Akureyri gengur vegna þess að þar eru bara kenndar nokkrar greinar, Listaháskólinn gæti svo sem sent einhverja eina deild út úr bænum en það fer þvert á það sem við erum að reyna að gera - sameina, nú er kennt á þremur stöðum í bænum.

  En vel get ég tekið undir að sveitin sé fögur...

  SvaraEyða
 2. Það sem mér þótti merkilegt var að það er fullkomlega sjálfsagt að troða framúrstefnugeimskipi inn í 19. aldar götumynd jafnvel þótt rífa þurfi nokkur hús sem gætu vel flokkast undir menningarverðmæti af því það er ekki nógu mikið líf á Laugaveginu. Af því að allt fólkið er í Kringlunni eða Smáralind. Á sama tíma eru deyjandi bæjarfélög út um allt land og það hvarflar ekki að nokkrum manni að flytja skólann. Nei, einhver mengunarviðbjóður eins og álver eða olíuhreinsunarstöð er það eina sem er nógu gott.
  En þú staðfestir það sem ég hef verið að segja. Fólk vill ekki flytja út á land. Ef listamennirnir vilja ekki koma af hverju ætti þá annað fólk að vilja það?

  SvaraEyða
 3. Það sem ég vildi sagt hafa er: ,,það hvarflar ekki að nokkrum manni einu sinni að ræða möguleikann á að færa skólann." Ég get alveg sætt mig við að það sé ekki hægt. Mér finnst bara skrítið að fólki detti það ekki einu sinni í hug.

  SvaraEyða
 4. Fólki dettur það væntanlega ekki í hug vegna þess að það er ekki hægt :P

  Einn vinur minn kennir einn tíu vikna áfanga á ári, á móti kennir hann í tveimur öðrum tónlistarskólum (það geri ég reyndar líka), það er ekkert inni í myndinni að flytja út á land, sama hvort maður vill það eða ekki. Fullt af svona kennurum við þetta flókna stofnun.

  Húsavík - já, jafnvel Eyjafjörður og Akureyri hafa ekki þörf fyrir svona 8 tónfræðakennara, er það? Bara til að nefna dæmi sem er nálægt mér.

  Ekki tala um nítjándu aldar götumynd, hún er EKKI TIL! Á nítjándu öld voru örfá hús á Laugaveginum. Hljómar bara væntanlega betur heldur en að segja - fyrrihlutatuttugustualdargötumynd :>

  Ekki það, ég vil ekkert fá geimskip þarna, en það hlýtur að vera hægt að hanna þetta þannig að það falli betur inn, en þessi viðkomandi teikning. Það eru afskaplega fá hús þarna sem ég sæi eftir, helst Vínbershúsið, ekki sé ég til dæmis eftir Vegas og Fáfnishúsinu.

  En ég er alveg hundrað prósent sammála um að háskóladeildir gera meira gagn fyrir mannlífið og eru meiri lyftistangir fyrir svæði en álver. Það þarf bara að vera raunhæft. Listaháskólinn getur ekki farið lengra út á land en til Selfoss, Akraness eða Reykjanesbæjar, því miður.

  SvaraEyða
 5. Alveg eins og nemendur af landsbyggðinni þurfa að fara til Reykjavíkur til náms gerði ég ráð fyrir að nemendur Listháskólans myndu fylgja honum. Ef það þarf 8 tónfræðikennara núna af hverju ætti ekki að þurfa þá áfram?
  Ef kennarar geta ekki fylgt með, og ég skil vel að kennarar í hlutastörfum með aðalvinnu í Reykjavík geti það ekki, þá eigum við ágætt tónlistarfólk hér. T.d. Robert Faulkner.
  Mér er ekkert óskaplega annt um þessa götumynd í Reykjavík. Ég myndi samt sakna Vínbersins:)
  Minn tilgangur var að víkka út þessa atvinnu-uppbyggingarumræðu. Umræðan snýst alltaf um álver eða ekkert.
  Hins vegar lýst mér vel á að Listaháskólinn fari í Reykjanesbæ. Þá er alla vega hægt að slá eitt álver af.

  SvaraEyða
 6. Það þarf ekki 8 tónfræðakennara í Listaháskólann, þessir kennarar kenna út um allt. Eins og ég sagði áður, það eru fáir með aðalstarf í LHÍ.
  Robert er fínn, en ég efast um að hann taki að sér alla þessa kúrsa, við erum með sérhæft fólk í þessu öllu saman, þess vegna eru svona margir með hlutastarf.

  Væri allt í lagi að vera í Reykjanesbæ, jájá, en ég er ekki viss um að það myndi breyta neinu með álvitana, það er stórkostlegt skólastarf að fara í gang á gamla varnarsvæðinu en ég hef ekki tekið eftir því að það sé neitt verið að bakka með hálfverið. Því miður :(

  SvaraEyða
 7. Skemmtileg umræða og áhugaverð.

  Mér finnst að það eigi að skoða Háskólann á Akureyri og þær greinar sem hann kennir, með það fyrir augum að flytja/stofna opinberar stofnanir norður sem tengjast þeim greinum. T.d. sjávarútvegsfræði.

  Þá er komin vinna fyrir útskrifaða nemendur, fólk í ríkisstofnunum sem getur kennt hlutastörf í skólanum og fræðasamfélag sem getur (vonandi) staðið undir nafni í þessum greinum.

  SvaraEyða