laugardagur, ágúst 02, 2008

Röng sjúkdómsgreining

,,Fólk flytur af landsbyggðinni vegna þess að þar er enga vinnu að fá."
Þetta er fullyrðingin sem eftir er unnið. Þ.a.l. er mjög rökrétt að ætla að ef atvinna er sköpuð á svæðinu þá komi fólkið. Við þurfum í rauninni ekkert að fabúlera um það, við erum með raunverulegt dæmi á Austfjörðum sem við getum skoðað. Skv. fullyrðingunni ætti allt að vera í bullandi blóma og uppbyggingu á Austfjörðum því þar er nú kominn stór vinnustaður. Það er hins vegar ekki raunin. Það vantar enn fólk í álverið, íbúðir seljast ekki og ekkert blómstrandi menningarlíf.
Á Húsavík hafa undanfarin ár verið u.þ.b. 200 verkamenn á staðnum. Þeir voru 136 í júlí og fer fækkandi vegna lágs gengis krónunnar. Fyrirtæki á staðnum ná ekki að manna stöður og sláturhúsið sér ekki fram á að fá mannskap í haust. Það vantar sem sagt ekki vinnu á Húsavík. Hvað á álverið þá að leysa? Af hverju ætti fólk frekar að vilja vinna í álveri á Húsavík frekar en öðrum fyrirtækjum á Húsavík? Af hverju ætti fólk frekar að vilja vinna í Álverinu á Bakka frekar en í Álverinu á Reyðarfirði?
Vandinn er ekki sá að það vanti vinnu. Vandinn er að fólk vill ekki búa úti á landi.
Nú segja eflaust einhverjir að hin störfin séu verkamannastörf en í álverinu séu hátæknistörf. Persónulega held ég að meirihluti starfanna í álverinu sé líka verkamannastörf en allt í lagi. Ef við athugum menntaða hópinn þá er nærtækt dæmi. Það vantar alltaf lækna á landsbyggðina. Íslendingar eiga nóg af læknum. Ef þeir fá ekki vinnu í Reykjavík þá vinna þeir frekar erlendis en að flytja á landsbyggðina. Prestar staldra líka stutt við. Landsbyggðaprestaköllin eru yfirleitt stökkpallur í eitthvað ,,betra". Lesist: Reykjavík.
Nú er ég ekki með sögubækurnar við hendina en þegar ég fer að hugsa um það þá fluttist fólk ekki úr sveitunum til Reykjavíkur á sínum tíma af því að það vantaði vinnu. Það fór af því að lífskjörin voru betri. Og þá má spyrja: Hvort fór á undan? Fólkið af því að vinnan fór? Eða vinnan af því að fólkið fór?
Lífskjörin úti á landi nú til dags eru síst verri en í borginni en samt skilar fólkið sér ekki.
Ég held að sjúkdómsgreiningin sé röng og fyrirhuguð stóraðgerð tilgangslaus.

1 ummæli:

  1. Þarna hittir þú svo sannarlega naglann á höfuðið.

    SvaraEyða

Færsla Lögreglunnar á Norðurlandi eystra

Það mun mér hæfara fólk fjalla um þessa færslu Lögreglunnar á Norðurlandi eystra en það eru nokkrir hlutir í þessu sem mig sem almennur áhor...