mánudagur, janúar 12, 2009

Ástandið

Ég er mjög hlynnt mótmælunum og mitt kommúníska hjarta klökknar nánast þegar ég sé fréttir af mótmælunum. (Ég er dreifbýlistútta í fæðingarorlofi svo ég er ekki mjög virk.) Ég er hins vegar ekki viss um aðferðafræði mótmælanna. Mér finnst mjög mikilvægt að mótmæli séu friðsamleg því öfgar og ofbeldi gera mótmælendur marklausa eins og umræðan er farin að sýna. Hins vegar verða mótmælin að hafa áhrif. Mér finnst innrásin á Hótel Borg hafa gengið of langt. Það má vel vera að það sé verið að mótmæla eigandanum, JÁJ, en kostnaður af nýjum tækjum verður bara tekinn af áskrifendum. Hvað ætlaði fólkið eiginlega að gera ef það hefði komist inn? Ég skil alveg þann punkt að mótmæla stjórnmálaforingjum en það hefði verið hægt að gera það öðruvísi. Standa fyrir utan og syngja eða berja bumbur svo heyrðist ekki í þeim hefði dugað. 

Svo er það hinn handleggurinn. Ríkisstjórn sem skilur ekki hvað er verið að segja henni. Sjálfstæðismenn eru búnir að vera við völd í 18 ár. Þetta ástand sem nú varir er algjörlega þeirra sköpunarverk. Svo ætla GHH og ISG að stýra ,,björgunarleiðangrinum mikla". Elskurnar, þið eruð ekki í neinum björgunarleiðangri. Þið eruð fíflin sem æddu vanbúin upp á heiði og eru nú villuráfandi í þokunni. Raunveruleikinn er að leita að ykkur.

Enda snýst þetta ekki um neinn ,,björgunarleiðangur", þau eru ekki að gera neitt af viti. Þetta snýst um valdafíkn og mjúk sæti við kjötkatlana. Sjálfstæðismenn eru orðnir svo siðspilltir að þeir eiga ekki snefil af sómatilfinningu eftir. Skipan Þorsteins Davíðssonar í embætti héraðsdómara lýsir þessu í hnotskurn. Hann var skipaður aðeins og eingöngu vegna faðernis og allir vita það. Samt sitja þessir menn sem fastast. 
Núna er þetta fólk búið að rústa efnahag landsins, venjulegt fólk eins og ég er að borga brúsann og það ætlar samt ekki að segja af sér. Mótmælendur eru nefnilega ekki þjóðin! Það er búið að reyna að segja ykkur þetta kurteislega, það er búið að segja ykkur þetta frekar dónalega og þið skiljið samt ekki. Auðvitað endar þetta með því að fólk grípur til ofbeldis. Þá fær þetta fólk sér
bara lífverði og getur hneykslast á skrílnum.


SNAUTIÐ YKKUR Í BURTU!

3 ummæli:

  1. Þau eru löngu komin með lífverði. Ég er þér sammála, því miður virðast þau bíða eftir því að sjá hvort þetta sjatni ekki af sjálfu sér. Það er bara ekki möguleiki að slíkt gerist þegar ástandið versnar stöðugt.

    SvaraEyða
  2. Einhvern veginn hef ég ekki trú á því að VG myndi rétta efnahaginn við eitthvað hraðar, kæmust þau í stjórn. Jafnvel enn síður.

    SvaraEyða
  3. Ég er ekki að skrifa þetta sem VG-isti heldur sem þegn í þessu samfélagi. Þjóðstjórn finnst mér vel koma til greina. Kosningar myndu líka leiða það í ljós hverjum þjóðin treysti til að leysa málið. Ef þjóðin kysi Sjálfstæðisflokkinn yfir sig aftur og enn þá yrði bara svo að vera.

    SvaraEyða

Færsla Lögreglunnar á Norðurlandi eystra

Það mun mér hæfara fólk fjalla um þessa færslu Lögreglunnar á Norðurlandi eystra en það eru nokkrir hlutir í þessu sem mig sem almennur áhor...