Tannlæknaraunir

Tannlæknirinn minn, sem ég er mjög ánægð með, hefur verið í fríi og/eða vinna annars staðar undanfarið. Í byrjun júlí er hringt í mig frá tannlæknastofunni og mér boðin skoðun sem ég þigg. Að vísu, er þá bætt við, er þetta nemi. Hmmm. Ég ákveð samt að  þiggja þessa skoðun því hvernig eiga þessir krakkar að læra ef þau fá ekki að spreyta sig.Auk þess fann ég ekki fyrir neinu og var tiltölulega sannfærð um að allt væri heilt.
Ég mæti á tilnefndum tíma og neminn skoðar mig. Allt heilt nema hvað að einn fyllingin er farin að ,,leka" og neminn vill endilega fá að laga hana. Í stórum jaxli. Ég skal viðurkenna að ég vildi það ekki. Hjartað sagði nei, en höfuðið sagði já, af fyrrgreindri ástæði. Hvernig eiga þau að læra...
Ég mæti aftur og neminn gerir við fyllinguna. Samanlagt var þetta 40 þús. króna fyrirtæki.
Viðgerðin fór fram á fimmtudegi. Þá um helgina finn ég að það er ekki allt í lagi með fyllinguna, það svona ,,dúmpar" á hana og ég get ekkert notað tönnina. Ég hringi á mánudegi og fæ að koma. Neminn segir að tannbein hafi verið bert og sparslar í þetta. Allt í orden.
Líða svo nokkrir dagar og ég finn að þetta er ekki lagi. Ég finn fyrir því þegar fer á tönnina og get lítið notað hana. Hringi ég aftur og fæ að koma. Er nú samt orðið greinilegt að ég er grunuð um hysteriu. Neminn sparslar meira og segir mér að það taki yfirleitt svona 3 vikur fyrir fyllingar að jafna sig.
Nokkru síðar verður ljóst að það er ekki í lagi með tönnina. Ég bíð samt í rúmar þrjár vikur áður en ég hringi aftur. Núna er þetta eiginlega orðið vandræðalegt. Neminn sparslar meira. Í þetta skipti er hins vegar tannlæknirinn minn á svæðinu og ég er hálfpartinn að vona að hann kíki á þetta en hann lætur það ógert.
Líður nú og bíður. Ég held áfram að finna fyrir tönninni þótt það hafi minnkað mjög mikið. Hins vegar kular líka í hana. Ég ákveð að láta mig hafa það. Ég geti bara ekki farið einu sinni enn. Vandamálið er hins vegar það að tönnin er hægra megin sem er sterka hliðin mín. Vinstra megin er ég með krónu sem bólgnar stundum í kringum ef álagið verður of mikið. Þegar ég er búin að tyggja bróðurpartinn af matnum vinstra megin í þrjá mánuði þá endar það auðvitað með því að krónan kvartar.
Það endar með því eina helgina að ég get hvorugu megin tuggið. Ég er vissulega komin yfir fertugt. En ég er skrambakollur ekki nema 41 og mér finnst það ansi hart að vera í alvöru að velja mat sem er mjúkur undir tönn. Ég ætlaði samt að láta mig hafa. Alveg þar til á miðvikudag þá vikuna að það var frekar kalt og ég asnaðist til að anda með opinn munninn. Mér var kalt í tönninni fram undir hádegi.
Svo ég hringdi. Klíníkdama samstarfstannlæknisins svarar. Nei, tannlæknirinn minn kemur ekki til baka fyrr en í desember. Neminn er farinn í skólann. Vei. Er þetta eitthvað akút? Ég lýsi raunum mínum og henni lýst ekkert á þetta. Býður mér tíma hjá hinum tannlækninum sem ég þigg. Mæti þar morguninn eftir og skoðar þetta og gerir eitthvað. Þegar ég borga þá segir klíníkdaman: Hann pússaði gaddana af jaxlinum á móti og svo var enn þá ber tannháls....
Eftir 3 viðgerðar heimsóknir þá var enn þá BER TANNHÁLS!!!! Hvað er eiginlega verið að kenna þessum krökkum í Tannlæknadeildinni?
Næst þegar mér verður boðinn nemi þá ætla ég að segja.....NEI!!!!!!!!!!!


Ummæli

Vinsælar færslur af þessu bloggi

Krossinn sem ég ber

Vandamál og lausnir