Er bókmenntafræði gervivísindi eða misskildi ég þetta svona herfilega?


Nú eru komin ein 20 ár síðan ég sat í bókmenntafræðinni. Ég fór þaðan í kennslufræðina og svo í kennslu og hef því aldrei ,,starfað" sem bókmenntafræðingur og er því kannski farin að ryðga eitthvað í fræðunum. Hins vegar hélt ég að ég beitti mínu námi í kennslunni. Nú eru hins vegar farnar að renna á mig tvær grímur.
Það fyrsta sem mér var kennt í bókmenntafræðinni var það að höfundurinn væri ,,dauður". M.ö.o. að álit höfundarins á því sem hann hefði skrifað skiptir engu. Höfundurinn heldur að hann sé að segja eitthvað ákveðið en þar sem hann er spegill samtíma síns þá speglar hann margt fleira í verki sínu. Þá getur hann einnig verið að segja eitthvað allt annað en hann heldur. Það nefnilega gerist stundum að fólk telur sig vera einhverrar skoðunar en er það bara alls ekki. Þannig að þegar við ætluðum að túlka eitthvert verk þá þýddi ekkert að hringja í höfundinn og spyrja hann að því hvað hann væri að segja. Hann hefði enga hugmynd um það.
Nú má vel vera að þetta sé ekki lengur kennt. Hugvísindi eru nefnilega lifandi vísindi og alltaf að koma upp nýjar hugmyndir og aðferðir.
Okkur voru líka kenndar nokkrar aðferðir til að nálgast efnið. Þessar aðferðir (Literary theory) voru nokkrar m.a. út frá sósíalísku raunsæi, súrrealisma, Freudísku sjónarhorni, táknfræði...

Það eru sem sagt til ýmsar bókmenntakenningar og svo beitir lesandinn eða bókmenntafræðingurinn þeirri aðferð sem honum finnst passa á viðkomandi verk. Það væri í raun ekki til neinn heilagur sannleikur, aðeins vel rökstudd túlkun.
Þessar bókmenntakenningar væru hjálpartæki við lestur og túlkun því enginn er hlutlaus. Ef við byggðum bara á eigin skoðun þá værum ,,við" út um allt.  Þess vegna notum við ákveðna aðferðafræði.
Út frá þessu hef ég gengið. Það er vissulega til einn heilagur sannleikur í raunvísindum. Það er engum vafa undirorpið að 2+2=4. En þegar það kemur að húmanískum fræðum þá er bara allt annað uppi á teningnum.
Þegar ég hef kennt bókmenntir þá hafa nemendur mínir óttast að þeir túlki ekki rétt. Það er ekki til nein ein rétt túlkun. Ég leyfi mér reyndar að halda því fram að til sé röng túlkun en það er nú bara vegna þess að unglingar hafa gaman af því að reyna að ganga fram af fólki og ögra. Ég hef bæði fengið skemmtilegar og nýstárlegar bókmenntaritgerðir og þótt ég sé ekki endilega sammála einhverri túlkun þá gerir það hana svo sannarlega ekki ranga.
Þannig að þegar ég las grein Önnu Bentínu á Smugunni 13. nóv. þar sem hún segir:

 ,, Kynjafræðin hafnar að hægt sé að framleiða „hlutlausa“ og „réttmæta“ þekkingu. Slík aðgreining  hefur í för með sér andstöðu við grundvallarhugsjónir femínisma um jafnrétti. Að setja sig á stall sem hlutlausan rannsakanda og líta á þátttakendur í rannsóknum sem „viðföng“ setur rannsakandann og hennar markmið ofar þátttakendunum   Að nota kynjafræði sem greiningartæki á samfélaginu er ein leið sem hægt er að fara, en hún er ekki eina leiðin. "

Þá fannst mér það ríma alveg nákvæmlega við minn skilning á húmanískum fræðum.
Hins vegar virðist mér á viðbrögðum að mér og Önnu skjátlist svona hrapalega. Og ég er bara alveg í öngum mínum. Ég er hreinlega að velta því fyrir mér hvort ég eigi að skila BA gráðunni minni!

Ummæli

Vinsælar færslur af þessu bloggi

Krossinn sem ég ber

Vandamál og lausnir