Formleg uppgjöf

Fyrirvari: Þessi færsla byggir á upplifun minni og tilfinningum samfara henni.

Eins og margoft áður hefur komið fram þá tók ég mig upp með rótum árið 2005 og flutti landshorna á milli. Þar inni spiluðu ýmsar ástæður, aðallega þær að mér fannst lífið vera í ákveðinni kyrrstöðu. Þetta kyrrstöðulíf var samt á margan hátt ágætt, ég var t.d. í skemmtilegri kennslu í Fellaskóla. Þegar ég ákvað að leita annað fékk ég mjög góð meðmæli frá skólastjórnendum þar.
Á þessum tímapunkti voru ekki margar kennarastöður lausar á landsbyggðinni, mig minnir að auglýst hafi verið eftir kennara á Kirkjubæjarklaustri sem og í Hafralækjarskóla í Aðaldal. Einhverra hluta vegna sótti ég um stöðuna í Aðaldal. Ég man ekki hvað olli því, þetta var e.k. happa-glappa val.
Ég var ráðin og varð heimakennari í Árbót auk þess sem ég kenndi ensku á unglingastigi í Hafralækjarskóla.

Hér segja allir allt við alla

Fljótlega varð mér ljóst að það var undarlegt andrúmsloft í Hafralækjarskóla. Það höfðu verið leiðindi veturinn áður en þá flæmdu kennararnir þáverandi skólastjóra í burtu af ástæðum sem fengust almennt seint og illa uppgefnar. (Sem ýtti auðvitað undir tilhæfulausar andstyggðar ályktanir í samfélaginu.) Samstarfskona mín ein skynjaði að ég var hálf hvumsa á því hvernig fólk leyfði sér að tala og koma fram við hvert annað. Hún sagði mér: ,,Hér segja allir allt við alla." Ég skildi það sem svo að samfélagið væri smátt, við ynnum saman, sum okkar bjuggu á sömu torfunni, flest tengdust einhvern veginn, voru vinir eða vandamenn. Það væri sem sagt ákveðin fjölskyldustemning í hópnum.
Þegar ég var búin að vera nógu lengi til þess að fólk taldi sig ekki þurfa að sýna mér lágmarkskurteisi lengur þá komst ég að því að þetta var ekki alveg sannleikanum samkvæmt. Á þessum vinnustað sögðu ákveðnir aðilar allt sem þeim sýndist við suma.

Eitthvað óljóst

Ég áttaði mig á því í fyrsta starfsviðtalinu að eitthvað var ekki í lagi. Þá var mér sagt að nemendur hefðu kvartað undan mér. Þeim fannst ég að vísu skemmtileg og líkaði vel við mig en þau voru ,,eitthvað óörugg."  Það er ,,eitthvað", ,,erfitt að festa hendur á því." Vinsamlegast taktu það til greina. (!?!)  Það fékkst aldrei uppgefið nákvæmlega hvað ,,þetta" var né heldur undir hvaða kringumstæðum þessi umræða fór fram. Bara inni í bekk hjá öðrum kennara.
Um vorið keyrði svo um þverbak þegar ég lagði fyrir ,,níðþungt" próf í ensku.
Ég lagði fyrir gamalt próf sem ég kom með úr Fellaskóla. Þetta gamla próf úr Fellaskóla í Reykjavík var ,,alltof, alltof þungt.” Þetta var rætt fjálglega á kennarastofunni frétti ég síðar. Þegar ég kem á kennarastofuna þótti fullkomlega eðlilegt að ræða þetta skelfilega próf þar og setja niður við mig í vitna viðurvist. Ég var einnig beðin um að ,,endurskoða” prófið. Ég átti sem sagt að gera prófið léttara svo útkoman yrði betri. Meðaleinkunn var 6,5 svo ég varð ekki við þessari beiðni. Verst þykir mér þó að engum þótti það áhyggjuefni að gamalt próf úr Fellaskóla í Reykjavík þætti alltof þungt fyrir nemendur skólans. 

Jón og séra Jón

Það var vandlega raðað í virðingarstigann. Við vorum þrjú sem sátum á neðsta þrepi. Þau sem höfðu staðið með fv. skólastjóra og svo ég, aðflutta pakkið.
Lengi vel hélt ég að skiptingin væri ekki meiri en þessi þar til að ein samstarfskona sagði eftir að ég fékk ávíturnar að það væri ekki sama hvort það væri Jón eða séra Jón og hún fengi nú aldeilis að finna það líka.

Að endingu var mér svo sagt upp vegna niðurskurðar. Í rökstuðningi kom fram að það væri fækkun nemenda og svo var hnýtt við í lokin að litið hefði verið til ,,hæfni".
Ég var sem sagt óhæf. Það kom mér auðvitað ekki á óvart, þannig hafði stöðugt verið komið fram við mig síðastliðin fjögur og hálft ár. Það sem mér þykir merkilegt er að ég skuli vera hæf í Fellaskóla, (fékk mjög góð meðmæli þaðan)  ég er hæf í Árbót (finn ekki ársskýrslurnar á netinu en þær eru til) en ég er óhæf í Hafralækjarskóla.

Svo eru það allar hinar óhæfu, aðfluttu konurnar

En ég er ekki að segja þessa sögu alla bara út af sjálfri mér. Það er nefnilega ekki bara ég sem er aðflutt og óhæf. Það hafa fleiri konur verið látnar fara og þær hafa ekki allar tekið því þegjandi og hljóðalaust.
Gróa Hreinsdóttir kærði þegar gengið var fram hjá henni.

Það sem ein kona getur verið barnaleg

Ég hélt hreint út sagt að fólk myndi eitthvað átta sig þegar ráðuneytið úrskurðaði Gróu í vil. Ekki aldeilis. Þingeyjarsveit tapaði málinu á ,,tæknilegu atriði" það láðist nefnilega að kalla Gróu í viðtal. Þegar ég les úrskurðinn þá sé ég að mat á ,,persónulegum eiginleikum" hafi ráðið úrslitum. Guð minn almáttugur hvað mig langar ekki að búa í heimi þar sem persónulegt mat einhvers einstaklings á persónulegum eiginleikum mínum ræður úrslitum um möguleika mína á starfi. Sérstaklega ekki þegar viðkomandi einstaklingur hefur margsýnt að hann þoli mig ekki. En það er auðvitað bara ég.
Þá hélt ég að fólk myndi eitthvað átta sig þegar foreldri skrifaði bréf og kvartaði undan viðhorfum til eineltismála. Ekki aldeilis. Því bréfi var stungið undir stól. Það er sem sagt fullkomlega eðlilegt að ,,einstaklingar útiloki úr hópnum þá einstaklinga sem hugnast þeim ekki." Jafnræðisregla? Hvað er það?
Þá hélt ég að fólk myndi átta sig þegar Gróa vann í héraðsdómi. Nei, nei, nei. Biðjast afsökunar? Á hverju og af hverju? Hvað er eiginlega að þér? 

Við útilokum þá sem hugnast okkur ekki

Það er sem sagt orðið ljóst að það er ég sem veð í villu og svíma. Mér skjátlast. Það er allt í lagi að koma fram við fólk eins og skít. Það er bara ég sem er svona fáránlega viðkvæm. Það er allt í lagi að hópurinn útiloki þá sem honum líkar ekki við. Ef ég segi þetta nógu oft við sjálfa mig þá trúi ég því kannski á endanum.

Ég hef verið að bíða eftir einhverju sem aldrei kemur. Ég sé það núna. Ég sætti mig við það og gefst upp. Þið vinnið.


Ummæli

  1. Alveg vissi ég að ÞÚ hefðir kjark til að skrifa svona grein Ásta. Og það þarf kjark til !!!! Takk fyrir að þora :)

    SvaraEyða
  2. þetta kemur mér ekki á óvart sem fréttir úr þessum landshluta, inngróið hatur og smásálarháttur í garð þeirra sem koma að "sunnan" og eru ekki inngrónir í ættarsamfélagið og hatrið sem sameinar þá. Ég var kennari í þessum landshluta fyrir mörgum árum síðan og ég læknaðist fyrir lífstíð af allri rómantík til landsbyggðarinnar. Blessuð vertu láttu þetta sjúka samfélag rotna í friði, þarna getur enginn komið þessu fólki til hjálpar. Ég man ég þurfti að mæta á kennaraþing inní eyjafirði og þar settist ég með kennurum í stærðfræðiskor því eg hafði ýmsar spurningar sem mig vantaði svör við varðandi tæknileg atriði. Engri einustu spurningu frá mér var svarað og það var nokkuð ljóst frá byrjun að hópurinn sem samanstóð af 7 kennurum úr umdæminu hafði augljóslega tekið sig saman uim að virða mig ekki viðlits. Ég gerði ítrekaðar tilraunir til að fá einhvern úr hópnum til að svar spurningum mínum en það var ekki einusinni litið í áttina til mín. Ég fullyrði að þetta er ógeðslegasta háttsemi sem mér hefur nokkru sinni verið sýnd um ævina og er ég ekki sérlega klígjugjarn maður. Það ömurlega við þetta allt saman að þessu hyski skuli vera treyst til að kenna ungdómnum, þegar reyndin er sú að það ætti frekar að vinna á skóflu í bæjarvinnunni ef það hefur þá getur til þess sem ég stórlega efa, niður með svona hyski sem getur ekki einusinni sýnt starsfélögum sínum lágmarks sóma vegna inngróins haturs og smásálarmennsku. Ég hef aldrei minnst á þetta við nokkurn mann fyrir utan þá kennara sem ég vann með og voru allir að sunnan og þeir þekktu náhvæmlega þessa stemmingu af eigin reynslu.

    SvaraEyða
  3. Ég læknaðist líka af allri landsbyggðarrómantík eftir nærri þrjú ár á Akureyri. Fyrir utan vinnufélaga mína og nágranna í sama húsi kynntist ég næstum engum. Frekar myndi ég flytja til útlanda en aftur norður í land, en ég skil að þú ert í annarri stöðu verandi með fjölskyldu.

    Eftir að hafa unnið í skamman tíma í skóla á höfuðborgarsvæðinu læknaðist ég líka af allri rómantík gagnvart því að kenna í grunnskóla. Í það minnsta getur myndast mjög leiðinlegur mórall á slíkum vinnustöðum, þó að eflaust sé það misjafnt.

    Kannski hef ég sagt þetta áður, en af hverju skrifar þú ekki bók? Ljóðabók eða skáldsögu, til dæmis. Þú hefur hæfileikana til þess. Bara hugmynd. :)

    SvaraEyða
  4. Athyglisvert að þessi sama "við virðum þig ekki viðlits" taktík var og er enn stunduð af MA gagnvart þeim aðkomuskólum sem sækja þá heim - þeir sýna mótherjum sínum þá "íþróttamannslegu framkomu" að virða þá ekki viðlits eða klappa fyrir aðkomumönnum.
    Skelfilega hlýtur að vera ömurlegt að búa í höfði sem hugsar svona.

    SvaraEyða

Skrifa ummæli

Vinsælar færslur af þessu bloggi

Krossinn sem ég ber

Vandamál og lausnir