þriðjudagur, janúar 28, 2014

Að síðustu

Sæll Árni Pétur, oddviti minn, og þakka þér tilskrifið.
Þú mátt alveg nefna mig þegar þú skrifar til mín en það mátti svo sem öllum vera ljóst að til mín var leikurinn gerður. Fyrirgefðu innilega að ég skuli bera svona í barmafullan lækinn og svara þér þótt nóg sé komið. (Af mínum skrifum væntanlega, ekki ykkar.)
Ég ætla ekkert að rekja bréf þitt í smáatriðum, en vil gjarna taka undir lokaorðin: „Verum góð við hvert annað.“ *
Það er nefnilega þar sem hnífurinn stendur í kúnni. Við erum ekkert sérstaklega góð við hvert annað. Við erum líka mun betri við suma heldur en aðra.
Það var það sem ég var að reyna að koma á framfæri. Nú er ég fullorðin kona og þoli það alveg að fólk sé ,,leiðinlegt“ við mig. Ég ætla ekki að neita að mér fannst það erfitt og erfiðast fannst mér að ég skyldi leyfa fólki að koma svona fram við mig því ég var að reyna að halda í vinnuna. Þess vegna bloggaði ég um daginn. Ég er búin að skrifa þessa færslu margoft í mörgum myndum en aldrei birt hana fyrr en nú.
Ég nenni ekki að rekja þá sögu alla né hina sem á eftir kom en vil samt koma á framfæri að ég tel bloggsíðuna mína ekki vera ,,fjölmiðil“ og þegar ég birti eitthvað hér þá sé ég ekki að hlaupa með það ,,í fjölmiðla". Það eina sem ég hef sent á fjölmiðla (641.is) var svar við tilkynningu þar sem ég var vænd um lygar. Hins vegar hafa skólastjórinn, oddvitinn, sveitarstjórinn og nú þú sent athugasemdir, tilkynningar og greinar í fjölmiðla. Hver er það aftur sem er að halda þessari umræðu gangandi?
Þá finnst mér leiðinlegt að fólk skuli upplifa það sem svo að ég sé að fordæma alla sem unnu í Hafralækjarskóla á sama tíma og ég. Ég hélt að það væri ljóst að það var alls ekki það sem ég meinti og skal ítrekað nú.
Þú veist jafnvel og ég að mórallinn var ekki góður á þessum tíma. Samstarfsfólk okkar veit það líka. Ég vona innilega að hann hafi breyst og fólki líði vel** í vinnunni núna. Miðað við viðbrögðin við greininni þinni þá virðist svo vera. Er það vel.
Við fullorðna fólkið getum auðvitað leitað leiða til að leiðrétta okkar hlut ef okkur finnst á okkur brotið, mikið rétt. Fyrrum tónlistarskólastýra gerði það. Ráðuneytið og héraðsdómur úrskurðaði einmitt það, að á henni hefði verið brotið. En við, Þingeyjarsveit, viðurkennum það ekki. Við viðurkennum ekki að við höfum gert eitthvað rangt, það er enginn kallaður til ábyrgðar. Jú, við ákveðum að una dómnum og setjum svo fram í fundargerð að við vorum ekki dæmd til að greiða jafnháar bætur og fram á var farið eins og um stórsigur sé að ræða. Erum við að læra af reynslunni? Erum við að tryggja að þetta komi ekki fyrir aftur? Við hvern erum við góð með þessum viðbrögðum? Erum við ekki að taka afstöðu með einum aðila umfram annan?
En, skítt með það,  við fullorðna fólkið getum séð um okkur sjálf. Börnin okkar hins vegar geta það ekki.
Mér hefur verið sagt af foreldrum að börn þeirra hafi orðið fyrir einelti í Hafralækjarskóla og sum jafnvel árum saman. Eins og þú væntanlega veist þá kom upp leiðinlegt mál síðastliðinn vetur. Mér var sagt að fólk hefði verið mjög óánægt með hvernig það var tæklað.  Þegar ég fékk upplýsingar um það beið ég eftir einhverjum viðbrögðum sem aldrei komu. Ég yppti öxlum og hugsaði með mér að það yrði þá bara að vera svo, þetta væri ekki á mína ábyrgð. Svo fékk ég allt í einu hroll niður bakið því ég áttaði mig á að þarna var ég með þessa vitneskju og gerði ekkert. Það var raunverulega það sem mér gekk til. Ég hef aldrei viljað neitt annað en að Þingeyjarsveit og  íbúum hennar farnist sem best. (Öllum, ekki bara sumum.)
Nú hafa skólastjóri, oddviti, sveitarstjóri og samherji minn risið upp til varnar fyrir stjórnendur og stjórnarhætti í Þingeyjarsveit.  Það gleður mig virkilega að mér skuli skjátlast. Það er gott að íbúum, starfsfólki og þó sérstaklega börnum sveitarfélagsins líði vel.
Að vísu sagði fyrrverandi nemandi Hafralækjarskóla við mig í bréfi um daginn: „Ef þú ert ekki úr aðal hópunum ertu ekki með.“ Getur verið að það búi tvenns konar fólk í Þingeyjarsveit? Þið sem tilheyrið aðalhópunum og svo við hin? Það er alkunna að forréttindahópar átta sig yfirleitt ekki á yfirburðastöðu sinni. (Kallast forréttindablinda.)
En við skulum ekki velta okkur upp úr því, það er jú meira en nóg komið.
Ég þakka þeim sem hafa haft samband og þakkað mér fyrir og stappað í mig stálinu. Ég skil vel að fólk treysti sér ekki til að koma fram undir nafni. En það er mjög erfitt að standa ein í þessu stappi og ég er gjörsamlega þrotin kröftum.
Þið getið starfað og stjórnað í friði fyrir mér héðan í frá.

Ásta Svavarsdóttir

 *Skemmtilega kaldhæðið miðað við hvernig þú úthúðar mér í greininni. Er ég kannski ekki ,,með"?

**Og vonandi nær fólk betri heilsu.







2 ummæli:

  1. Það er óhugnarlegt að sveitastjórnarmenn í Þingeyjarsveit skulu ekki skammast sín og fyrir hönd umrædds skólastjóra fyrir að hafa fengið DÓM. Því sannarlega féll dómur í máli mínu MÉR Í HAG skítt með peningana.
    Það var ekki ég sem bjó til fjárkröfuna heldur lögmannsstofan .... en dómurinn fór á þennan veg vegna þess að á mér voru brotin lög og mannorð mitt svert verulega.
    Ásta mín, þú er hetja í mínum augum og ég veit eins og þú að margir íbúar í sveitinni hugsa eins, en þora ekki !!!

    SvaraEyða

Færsla Lögreglunnar á Norðurlandi eystra

Það mun mér hæfara fólk fjalla um þessa færslu Lögreglunnar á Norðurlandi eystra en það eru nokkrir hlutir í þessu sem mig sem almennur áhor...