Merkingarmið

 Við erum að fara í Málsögu í skólanum og vorum að ræða fyrirbærið merkingarmið orða í dag. En merkingarmið er: ,,Sá veruleiki sem orð vísar til."

Eins og lítillega er kunnugt þá bloggaði ég í desember um upplifun mína í Hafralækjarskóla. Upphaflega bloggfærslan birtist laugardaginn 14. des. og þá myndlaus. Á einhverjum tímapunkti bætti ég inn mynd af fólki í hring og einn fyrir utan ásamt yfirskriftinni Við útilokum þau sem þóknast okkur ekki (ég hafði þessa tilvitnun innan gæsalappa á blogginu því setningin er ekki mín heldur foreldris barns í skólanum). Það er svo ekki fyrr en á mánudag eða þriðjudag sem ég skeyti lógói Þingeyjarsveitar inn. Þá var mesta heimsóknarhrinan gengin yfir.

Myndin alræmda

Það kemur fólki kannski á óvart en ég velti þessari myndbirtingu talsvert fyrir mér. Ég hafði engan hug á að vega að öllum íbúum sveitarfélagsins enda flestir hið besta fólk og ekki inni í ,,aðal hópunum" (skemmtilega tvírætt) sem ráða hér öllu og stjórna. Hins vegar er merkingarmið lógósins í mínum huga stjórnsýsla sveitarfélagsins. Og ég var svo sannarlega að gagnrýna hana.
Líður svo og bíður og ekkert gerist.

Þann 9. janúar 2014 bregður allt í einu svo við að Akureyri Vikublað hefur tekið útdrátt úr færslunni og birtir í blaðinu. Hér er auðvitað reginmunur á, á blogginu mínu hafði færslan á þessum tímapunkti fengið rúmlega 800 flettingar en Akureyri Vikublað er prentað í 13500 eintökum og dreift í öll hús í Þingeyjarsveit. Hins vegar er ekkert minnst á myndina, hvað þá að hún sé birt í blaðinu.
Í næsta tölublaði Akureyri Vikublaðs birtist athugasemd vegna greinar í síðasta blaði frá skólastjóra og oddvita.


 Í þessari athugasemd finnst oddvita nauðsynlegt að taka það fram að hún telji notkun mína á lógóinu ,,í hæsta máta óviðeigandi."
Ef merkingarmið lógósins er í hennar huga allt sveitarfélagið og íbúar þess þá get ég vel skilið að hún telji þessa notkun vera sveitarfélaginu til vansæmdar. Mér þykir hins vegar mjög skrítið, ef þetta er tilfellið, af hverju í ósköpunum hún hringdi ekki í mig strax í desember og tjáði mér þessa skoðun sína og bað mig að taka myndina út. Mér finnst líklegt að ég hefði orðið við því þótt það sé auðvitað auðvelt að segja það svona eftir á.
Mér finnst líka skrítið, ef þetta er tilfellið eins og áður sagði, af hverju hún beinir athyglinni að myndinni. Myndin er aldrei nefnd í Akureyri Vikublaði. Eftir þessa athugasemd tók www.641.is hins vegar málið upp og birti myndina og dv.is í kjölfarið á því.
Hins vegar hefur hvarflað að mér að þetta sé bara alls ekki tilfellið. Mér dettur helst í hug að myndin hafi verið notuð til að drepa gagnrýninni á dreif: ,,Sjáið bara, hún er að gagnrýna okkur öll en ekki bara fáa." Það verður að segjast oddvitanum til hróss að þetta tókst alveg ljómandi vel. Ég er niðurrifsseggur og ekki góð kona og guð má vita. Well played, well played indeed. I applaud you.

En svo gerðist annað. 22. janúar birtist Tilkynning frá Þingeyjarsveit á 641.is með lógói og alles.


Það er hérna sem ég hætti að botna í hlutunum. Sveitarstjórinn skrifar undir tilkynninguna. Er þá sveitarstjórinn Þingeyjarsveit? Svona eins og Loðvík XIV og ,,Ríkið, það er ég."? Eða var haft samband við alla íbúa sveitarfélagsins? Eða, og nú fer málið að vandast, er merkingarmið lógósins í huga stjórnsýslu sveitarfélagsins, stjórnsýsla sveitarfélagsins?


Ummæli

Vinsælar færslur af þessu bloggi

Krossinn sem ég ber

Vandamál og lausnir