Á miðöldum tíðkaðist í nokkrum Evrópulöndum, aðallega
Frakklandi, hátíð sem kölluð var Hátíð fíflanna (e: Feast of Fools). Á þessari
hátíð var öllu umturnað, ungur piltur gerður að biskup og öllu slegið upp í
grín.
Hátíð fíflanna er talin eiga sér enn eldri uppruna í
Saturníu, hátíð sem haldin var í Róm hinni fornu til heiðurs Satúrnusi
Karnival.
Mikhail Bahktin setti fram kenningar um karnivalið og „gróteskuna“
í bók sinni Rabelais and his world[1]
og byggði á hátíð fíflanna. En Rabelais var franskur miðaldamaður sem skrifaði bókina Gargantúi og Pantagrúll.
Robert Cook lýsir kenningum Bakhtins svo í grein sinni „Njálsbrenna
– Karnival í Landeyjum“:
Karnival
er sjónarspil þar sem öllu ægir saman, hátt verður lágt, andlegt verður
líkamlegt, upp verður niður, líkamar sundrast, byggingar falla. Megineinkenni þess
er gróteskan. Allt háleitt og hetjulegt er dregið niður á jarðneskt plan
líkamans þar sem enginn er öðrum meiri. Sérstök áhersla er lögð á
líkamsmyndmál, einkum neðri hluta líkamans, líkamsparta og líkamsstarfsemi, það
sem á líkamanum dynur, í hann fer og úr honum gengur. Mikið er um limlestingar,
aflimanir og pyndingar. Hamskipti og gervi eru algeng, og oft er mönnum líkt
við dýr. Karnival snýr opinberri menningu feðraveldis og kirkju á haus, og í
því taka allir þátt. Vinsælar sviðsetningar eru markaðstorgið, borðhaldið,
skrúðgangan, aftakan, áramótabrennan. Samnefnarinn sem öll atriði gróteskunnar
ganga upp í eru hláturinn. (Cook, 1996)
Þá má geta þess til gamans að fræðimenn sumir hverjir beita
kenningum Bakhtin á Íslendingasögurnar og telja þær ekki jafn grafalvarlegar
bókmenntir og bókmenntastofnunin hefur viljað halda á lofti. Sbr. Grein Cook
þar sem hann leiðir að því líkum að sjálf brennan í Njáls sögu sé karnivalísk.
Herranótt.
Ekki eru þekktar heimildir um að Íslendingar hafi haldið
hátíð fíflanna en skólapiltar í Skálholti héldu þó hátíð sem þeir nefndu
Herranótt.
Um uppruna eða sögu Herranæturhalds er að öðru leyti mjög lítið vitað. Fræðimenn þóttust snemma greina ákveðin líkindi með vissum þáttum Herranæturinnar og vinsælum leik- eða leikjaformum sem tíðkuðust í Evrópu á miðöldum, s.s. "hátíð fíflanna" (l. festa stultorum) eða "drengjabiskupnum" (e. the boy bishop). Skopfærðar stólræður, grínpredikanir (fr. Sermons joyeux) eru einnig alþekkt fyrirbæri á miðöldum. Hvernig á því stendur að slík leikform, ættuð úr kaþólskum sið, skjóta upp kollinum á Íslandi um miðja átjándu öld, hefur hins vegar engum tekist að skýra á fullnægjandi hátt. (Leikminjasafn Íslands, 2014)
Herranótt fylgdi skólapiltum frá Skálholti en í talsvert
breyttri mynd. Herranótt lifir í samtímanum sem Leikfélag Menntaskólans í
Reykjavík.
Þorrablót.
Miðsvetrarblót Þorra konungs Sigurður Valur Sigurðsson. |
Þorrablót voru endurvakin eftir miðja 19. öld og hefur tengst
sjálfstæðisbaráttunni. Árni telur í bók sinni að blótin hafi aldrei aflagst því
annars hefði endurnýjun þeirra komið eins og skrattinn úr sauðaleggnum. En
vegna tengsla sinna við heiðni hafði fólk hljótt um þetta í hinu nýkristna
samfélagi þar sem líflát gat legið við hinum ýmsu yfirsjónum. Alltaf hafa
blótin þó tengst fögnuði og borðhaldi á einhvern hátt.
Því verður ekki haldið fram hér að bein tenging sé á milli
hátíðar fíflanna og þorrablótanna þótt gaman væri að tengja guðinn Satúrnus og
vættina Þorra. Hins vegar vegar er það sammannlegt í gegnum söguna að vilja
eta, drekka og vera glaðir. Íslendingar stunduðu aðrar skemmtanir hér áður fyrr
eins og vikivaka, dansleiki og fluttu rímur sem þótti á stundum ansi blautlegur kveðskapur
og má leika sér með þá hugmynd að ýmislegt hafi safnast saman í það sem við
þekkjum í dag sem þorrablót. Ég mun þó
ekki setja fram neinar slíkar tilgátur enda er þetta ekki fræðigrein heldur
aðeins gert til gamans.
Hins vegar tel ég að þorrablótin megi klárlega tengja við
karnivalið enda umhverfast þau um borðhald þar sem heldur ókræsilegur matur er á borðum og hópur fólks fer með gamanmál og gífuryrði sem tengjast oft á tíðum líkamanum og aftignun valds.
Þorrablót Ljósvetninga
2014.
Öll þorrablót eru með nokkuð hefðbundnu sniði. Ástæða þess að
þetta þorrablót verður þess vafasama heiðurs aðnjótandi að verða greint í
þessum pistli eru þær einfaldlega að það blót kveikti þankaganginn um þessi
efni og þar sem mágur minn var í nefndinni þá áskotnaðist mér einnig upptaka af
blótinu.[2]
Ólafur í kjólnum. |
Til að jafna kynjahlutföllin klæddist Ólafur kjól í upphafi
blóts. Það eitt að karl klæðist kjól jafnar[3]
auðvitað ekki kynjahlutföllin en hins vegar finnst okkur alltaf mjög fyndið að sjá karl í kjól. En það er
ekki alveg sama hvaða karl það er.[4]
Ólafur er annar valdamesti einstaklingur Þingeyjarsveitar, hvítur,
miðaldra og gagnkynhneigður. Með skegg í ofanálag. Hann er hinn fullkomni
fulltrúi feðraveldisins.[5]
Kvengerving hans er því algjörlega fáránleg og þ.a.l. fyndin.
Hins vegar er karl í kjól gróteskt fyrirbæri.
Hins vegar er karl í kjól gróteskt fyrirbæri.
Þessi gjörningur kallast á við hamskipti karnivalsins og
umsnúning alls.
Valdhafinn er kvengerður en konur eru valdlitlar í feðraveldinu.[6] Það hefði ekki verið jafn fyndið ef annar hinna ógiftu, valdalitlu bænda hefði verið í kjólnum.
Bændurnir dönsuðu hins vegar ballet seinna um kvöldið og komu þá fram í pífupilsum. Húmorinn þar fólst þó ekki í kvengervingu þeirra heldur umsnúningnum; tveir bændur sem vinna við vélar og skepnur er stillt upp í list þess fínlega.
Það atriði sem vakti hvað mesta lukku var leit Einars að
kærustu. Fyrst sungu Ólafur og Einar venjulegan texta við Ég vil fá mér kærustu. Að söng loknum ræða þeir textann og eru sammála um að kröfurnar
séu helst til miklar og Einar á að endursemja textann.
Valdhafinn er kvengerður en konur eru valdlitlar í feðraveldinu.[6] Það hefði ekki verið jafn fyndið ef annar hinna ógiftu, valdalitlu bænda hefði verið í kjólnum.
Bændurnir dönsuðu hins vegar ballet seinna um kvöldið og komu þá fram í pífupilsum. Húmorinn þar fólst þó ekki í kvengervingu þeirra heldur umsnúningnum; tveir bændur sem vinna við vélar og skepnur er stillt upp í list þess fínlega.
Baryshnikov og Nureyev. |
Seinna um kvöldið flytja þeir bættan texta, talsvert
raunsærri en hinn fyrri. Hér erum við komin út í hreina grótesku. Konan á að borða
súrmat og kneyfa bjór af krana. Ekki nóg með það; hún á að hafa meters breiðan
rass! Þetta er mjög líkamleg lýsing og miðar að neðri hluta líkamans. Hér hefur
líkamlegu helsi konunnar verið aflétt, allir mælikvarðarnir sprengdir upp
loftið.
Því miður þurftu þeir kumpánar að koma á röð og reglu í
heiminum aftur.
Ordnung muß sein!
Ég get ekki lýst hversu sárt mitt femíníska hjarta grét 😭
Ordnung muß sein!
Ég get ekki lýst hversu sárt mitt femíníska hjarta grét 😭
Þá erum við komin að því þar sem hátt verður lágt og aftignun valdsins.
Það hefur löngum verið þekkt að almúginn gagnrýnir aðalinn, yfirmenn og pólitíkusa í gegnum hlátur og hláturmenningu. Kannski ættu sveitarstjórnir landsins að setja sér þá reglu að senda fulltrúa á öll þorrablót sveitar sinnar. Það er þar sem gagnrýnin heyrist þótt dulbúin sé sem húmor.
Það hefur löngum verið þekkt að almúginn gagnrýnir aðalinn, yfirmenn og pólitíkusa í gegnum hlátur og hláturmenningu. Kannski ættu sveitarstjórnir landsins að setja sér þá reglu að senda fulltrúa á öll þorrablót sveitar sinnar. Það er þar sem gagnrýnin heyrist þótt dulbúin sé sem húmor.
Það er merki karnivalsins, eins og áður sagði, að hátt verður lágt og opinberri menningu feðraveldisins og kirkjunnar er snúið á haus.
Séra Hallgrímur Pétursson er eitt okkar helsta sálmaskáld og Passíusálmarnir okkar heilagasti kveðskapur. En í karnivalinu er ekkert heilagt. Líkamstarfsemi er skotið inn í sálma og Kristur sjálfur verður að víkja.
Ég skemmti mér konunglega á blótinu og þakka nefndinni fyrir skemmtunina. Ég vona að engin/n hafi móðgast við þessa greiningu mína og ítreka að þetta er aðeins til gamans gert.
[1]
Bakhtin var rússneskur og bókin skrifuð á rússnesku en almennt er vitnað til
hennar undir enska heitinu.
[2]
Handarbak Hólmars er uppnagað nú þegar.
[3]
Þótt það væri óneitanlega skemmtilegt að sjá annan hvern jakkalakka í
forstjórastól í kjól.
[4]
Í Íslendingasögunum þótti það t.d. mikil niðurlæging ef karl var kvengerður,
sbr. taðskegglingana Njálssyni.
[5]
Mjög misskilið hugtak. Fín útskýring hér: http://knuz.is/2012/05/10/um-fedraveldid-i-voggu-evropskrar-menningar/
[6]
Ég veit að konur skipa sér í valdastöður í Þingeyjarsveit en hér er verið að
fjalla almennt um valdskiptingu.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli