þriðjudagur, maí 06, 2014

Hungurleikarnir



Hungurleikarnir eftir Suzanne Collins kom upphaflega út 2008 á ensku en kom út í íslenskri þýðingu 2011. Í kjölfarið komu út Eldar kvikna og Hermiskaði.
Þessar bækur eru hugsaðar fyrir „ung-fullorðna“ eða ungmenni.
Ef ég hefði ekki þurft að kenna þær þá hefði ég aldrei nokkurn tíma lesið þessar bækur, en ég þurfti svo ég las.
Sagan gerist í Panem sem eru e.k. Bandaríki eftir hörmungar. Landinu er skipt í 12 ríki og því fjarlægari sem ríkin eru höfuðborginni Kapítól því fátækari eru þau.
Fyrir rúmum 70 árum síðan höfðu umdæmin gert uppreisn gegn Kapítól og til að hefna þessa og bæla niður baráttuandann þurfti hvert umdæmi að senda síðan tvö framlög, dreng og stúlku, til að keppa á Hungurleikunum. En þar er barist upp á líf og dauða í beinni útsendingu og sigurvegarinn sá eða sú sem lifir af.
Fyrst í stað fannst mér þetta allt ósköp bjánalegt. Einhver tengsl við raunveruleikann verða skáldsögur að hafa og þetta fannst mér alveg absúrd.
Í Fantasíu eru til Útópíur þar sem allt er frábært og andstæðan er dystópía þar sem allt er heldur andstyggilegt. Dystópíur eru svo sem ekkert nýtt fyrirbæri í skáldskap, við þekkjum þær úr 1984 og Mad Max myndunum sem einhver dæmi séu tekin.
En sagan hafði ýmislegt með sér. Aðalsöguhetjan er t.d. stúlkan Katniss Everdeen og mjög gott að stúlkur fái önnur hlutverk í fantasíuheiminum en ,,damsel in distress“ (kona í nauðum). Auðvitað varð að blanda inn einhverju ástarviðfangi fyrir unga fólkið (mér persónulega finnst unglingar að nudda saman bólum afar ósjarmerandi). Það verður að segjast eins og er að Katniss kemur vel út á hvíta tjaldinu og leikkonan Jennifer Lawrence er ekki síðri fyrirmynd.

Collins hefur sagt frá því að hún hafi horft til Rómar hinnar fornu við skriftirnar, nafnið Panem vísar til þess. ,,Panem et circenses“ þýðir brauð og leikar sbr. gefið fólkinu brauð og leika og þá er það til friðs. Fólkið í Kapítól sækir stíft í lýtaaðgerðir til að verða fallegt og fegurðarstuðullinn orðinn ansi ýktur. Þar kallast sagan bæði á við Róm sem og nútímann.

Sukkveisla í Róm með augum Goscinny. Takið eftir farðanum.
Meg Ryan





Fljótlega fór ég að átta mig á að bókin hafði talsvert fleiri skírskotanir til samtímans.  Mér þótti það ansi langt gengið að fólk ætti virkilega að hafa gaman að því að horfa á börn slátra hverju öðru í beinni. En það er auðvitað alþekkt að nota ýkjur til að koma boðskapnum á framfæri.
Vinsælustu sjónvarpsþættir samtímans eru raunveruleikaþættir sem ganga helst út á það að gera lítið úr fólki og niðurlægja. Ekki er verra ef hægt er að láta það sýna sínar verstu hliðar. Mig minnir að Survivor hafi riðið á vaðið en það heiti þýðir beinlínis sá sem kemst af. Hins vegar er þátttakendum ekki slátrað heldur kosnir miselskulega í burtu með mismörg hnífasett í bakinu. Þá voru búnir til þættir kallaðir „Bum Fights“ þar sem virðingin fyrir manneskjunni og lífi hennar flæktist engin ósköp fyrir framleiðendum. Þá fór myndbandið af hengingu Saddam Hussein eins og eldur um sinu á netinu þannig að kannski er heimur Hungurleikanna ekki jafn órafjarri og virtist í fyrstu.


Kannski tek ég fyrir kommúnisma og misskiptingu auðsins í Panem seinna.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Færsla Lögreglunnar á Norðurlandi eystra

Það mun mér hæfara fólk fjalla um þessa færslu Lögreglunnar á Norðurlandi eystra en það eru nokkrir hlutir í þessu sem mig sem almennur áhor...